Lan-103
Lan-203
Lan-303
Fjarnám
   
LANDAFRÆÐI

Landafræðin er þverfagleg fræðigrein sem hefur almennt menntunargildi. Hún fjallar um legu, útbreiðslu og tengsl ýmissa náttúru- og mannvistarþátta á yfirborði jarðar og breytingar þeirra í tíma og rúmi. Greinin fjallar m.a. um og útskýrir samfélagið með hliðsjón af víxlverkun manns og náttúru og veitir yfirsýn yfir lífsskilyrði, lífshætti og lífskjör manna á jörðinni. Daglega er vísað til landfræðilegrar þekkingar í rökræðu um úrlausnarefni samtímans, t.d. um þróun og skipulag heimabyggðar, breytingar í ferðaþjónustu landsmanna eða umfjöllun um hnattræn umhverfisvandamál. Þar hefur skólinn það hlutverk að dýpka þekkingu og auka skilning.

Íslenskir nemendur búa við einstakar aðstæður. Gjöfular auðlindir skapa landsmönnum sérstakar aðstæður í nokkuð harðbýlu landi þar sem fámenn þjóð hefur byggt upp margbrotið nútímasamfélag sem byggist á hefðum lýðræðis. Þeir eiga að læra að lifa sem virkir einstaklingar í samfélaginu og geta tekið ábyrgar ákvarðanir um líf sitt og umhverfi.

Markmið kennslu í landafræði er að gera nemendur læsa á mikilvæga þætti í umhverfi, samfélagi og menningu frá nánasta sviði til hinna fjarlægari. Leiðin að þessu marki er að þjálfa nemendur í að átta sig á áhrifum menningar, efnahags, stjórnmála og félagslegra þátta í tengslum fólks og umhverfis. Liður í því er að nemendur fáist við orð, tölur og tákn, sem og texta, myndir, gröf, töflur, uppdrætti og kort og að setja niðurstöður athugana skilmerkilega fram.

Sagan hefur fjallað um það hvernig maðurinn beislaði náttúruna í eigin þágu. Nú er komið að þeim tímamótum að hann þarf að umgangast náttúruna og náttúruauðlindir af vaxandi virðingu og aðgætni og leggja áherslu á mannauðinn. Landafræðin fjallar um umhverfi mannsins í víðum skilningi þar sem leitast er við að tengja saman náttúrufarslega og mannlega þætti í samstæða heild. Í kjarnanámi í landafræði ætti því að leggja áherslu á grundvallarþætti náttúrunnar í kringum okkur með áherslu á þau ferli sem mynda og viðhalda lífi eins og gróður, veðurfar og hafstrauma. Landafræði stuðlar að tengingu milli manns og náttúru á hverjum stað og jörðinni í heild þar sem fjallað er um auðlindir, atvinnulíf, fólksfjölda og byggðaþróun. Þannig læra nemendur að sjá hvernig umhverfið hefur þróast í tímans rás og hvernig hægt er að hafa áhrif á það með velferð allra að markmiði.

Meginþáttur landafræðináms í framhaldsskóla hlýtur að felast í því að breikka, styrkja og dýpka þann þekkingargrunn sem lagður var í grunnskólanum þar sem áhersla verði á notkun upplýsingatækni, úrvinnslu og framsetningu.

Aðalnámskrá framhaldskóla 1999