Fjarnám

Bókasafn

Bókasafn FÁ er einkum ætlað nemendum og starfsliði FÁ. Nemendum í fjarnámi FÁ skal bent á að þeim stendur til boða þjónusta bókasafnsins á sömu forsendum og nemendum dagskólans.

Fjarnemendum sem óska eftir þjónustu bókasafnsins, er bent á að senda tölvupóst til bókasafnsfræðinga skólans.
Netföng þeirra eru þessi:
Kristín Björgvinsdóttir forstöðumaður bókasafnsins, kristin@fa.is
Þóra Kristín Sigvaldadóttir bókasafnsfræðingur, thora@fa.is

Afgreiðslutímar:
Safnið er opið á veturna kl. 8.00-16.30 mánudaga til miðvikudaga, á fimmtudögum kl. 8.00-17.00 og á föstudögum kl. 8.00-15.00. Um próftímann er opið lengur og auglýsingar þar að lútandi settar upp í skólanum.

Gagnlegir vefir/sjá einnig hér að neðan: Tenglar á heimasíðu safnsins:

Upplýsingar um safnið:

Upplýsingar um safnkost er að finna í gagnagrunni bókasafnsins á vef skólans, METRAleit. Er það kerfi sérstaklega aðgengilegt. Þar má finna upplýsingar um bækur, tímarit og nýsigögn á safninu auk þess sem valdar tímaritagreinar eru skráðar í gagnagrunninn.

Upplýsingar um nýtt efni eru settar reglulega á heimasíðu bókasafnsins.

Útlán:

Flest gögn safnsins eru til útláns gegn framvísun persónuskilríkja enda þarf að tryggja að lánþegi sé sannanlega nemandi við skólann. Ekkert kostar að fá bækur að láni. Lánstími er tvær vikur nema bókasafnsstjóri ákveði annað, t.d. að ósk kennara. Hægt er að endurnýja lán. Öll útlán eru tölvufærð.

Námsbækur, orðabækur og handbækur eru ekki lánaðar út af safninu. Stöku sinnum eru nemendum lánaðar námsbækur út af bókasafninu, annað hvort í kennslustund eða í tölvustofu, oftast í samráði við kennara. Til að tryggja skilvísi þurfa nemendur að skilja eftir tryggingu á bókasafninu.

Myndefni (DVD og VHS) er ekki lánað út en á bókasafninu eru bæði myndbandstæki og DVD-spilari og er nemendum heimilt að skoða efnið þar.

Tímarit eru heldur ekki lánuð út en notendum er bent á að hægt er, innan löglegra marka, að ljósrita greinarnar.

Á sama hátt er hægt, innan löglegra marka, að skanna tímaritagreinar fyrir fjarnema.

Áður en próf hefjast í lok hverrar annar eiga nemendur að vera búnir að skila öllum bókum á bókasafnið.

Tenglar á heimasíðu safnsins:

Á heimasíðu bókasafns FÁ eru tenglar sem vonandi nýtast notendum bæði í starfi og leik. Þessir tenglar eru mest notaðir:

METRAleit er gagnagrunnur þar sem allt efni bókasafnsins er skráð. Þar er m.a. hægt að sjá hvort ákveðin gögn eru til á safninu, hvar þau eru og hvort þau eru í láni.

Gegnir er gagnagrunnur þar sem gögn flestra bókasafna, annarra en bókasafns FÁ, eru skráð.

Hvar.is er landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum. Aðgangurinn er ókeypis en þar má nálgast ótölulegan fjölda tímaritsgreina um allt milli himins og jarðar. Einnig er þar að finna fræðibækur á rafrænu formi. Svo til ekkert er af íslensku efni í þessum gagnagrunnum nema á Timarit.is og í gagnagrunnum Mbl.is.

Gagnasafn Morgunblaðsins gerir notendum kleift að finna og lesa birtar greinar í Morgunblaðinu frá 1986. Aðgangur er ókeypis úr tölvum skólans.

Snara er vefbókasafn þar sem eru bæði margvíslegar orðabækur og ýmis uppsláttarrit. Aðgangur er ókeypis úr tölvum skólans.

Timarit.is er stafrænt bókasafn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Aðgangur er öllum opinn.

Encyclopædia Britannica Online er alfræðirit þar sem fræðast má um allt milli himins og jarðar. Aðgangur er öllum opinn.

Kennsluvefur í upplýsingalæsi leiðbeinir nemendum við upplýsingaleit og úrvinnslu upplýsinga. Einnig verður hægt að nota vefinn almennt sem hjálpartæki við kennslu og/eða sjálfsnám í upplýsingaleit og upplýsingalæsi.

Aðrir tenglar á heimasíðu. Í dálkinum vinstra megin á heimasíðunni má sjá tengla sem ýmist vísa í gögn í eigu bókasafns FÁ (t.d. hlustunarefni, myndefni, tímaritog tölvugögn) eða tengla sem vonandi nýtast notendum í leik og starfi, þ.e. tenglasafn.

 

©Kristín Björgvinsdóttir

31. janúar 2011

 

Senda grein


StoðflokkarÚtlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica