Skólinn

Vikupistill skólameistara (2017/2)

Við upphaf annarinnar vil ég minna nemendur á að kynna sér vel innihald skólareglnanna. Undanfarin misseri hefur snjallsímanotkun nemenda farið vaxandi og í mörgum tilfellum verið vandamál í skólanum en einnig heima fyrir. Í skólareglum segir: „Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum við samnemendur og starfsfólk skóla, þ.m.t. samskiptum með snjallsímum, rafrænum samskiptum, netnotkun og skulu sýna nærgætni og gæta virðingar í allri framkomu sinni.“ Ég hvet nemendur til að takmarka þann tíma sem þeir eyða á rafrænum miðlum en rannsóknir benda til þess að stúlkur eyða miklum tíma á samfélagsmiðlum meðan að drengir eyða meiri tíma í leiki. Þessi mikla notkun er farin að hafa alvarleg áhrif á svefnvenjur og andlega líðan. Notkunin getur því auðveldlega haft áhrif á gengi ungs fólks í námi og starfi. Gætum þess hvernig við nýtum okkur tæknina og reynum frekar að nota hana til uppbyggilegra hluta sem tengjast náminu. Umfram allt virðið þær reglur sem kennarinn setur inn í kennslustofunni, hann er verkstjórinn þar og honum ber að hlýða.

Skráningu í fjarnám lauk um helgina og þegar þetta er ritað hafa rúmlega 1.000 nemendur skráð sig. Það er heldur færra en síðustu tvær annir og í samræmi við færri nemendur sem stunda nám á framahaldsskólastiginu. Einnig þarf að taka með í reikninginn að fjarnám er núna í boði í fleiri skólum en áður og víða er dagskólanemendum og fjarnámsnemendum blandað saman í hópa til að halda úti fámennum áföngum. Þannig hefur smærri skólum á landsbyggðinni tekist að halda uppi öflugu námsframboði. Þess má geta að flestir nemendur skráðu sig í ENS303 og ÍSL403 sem er í samræmi við fyrri annir en nokkur fjöldi áfanga er með um eða yfir 50 nemendur skráða.

Í janúar mun Krúska sem rekur mötuneyti skólans bjóða upp á Veganrétti sem nemendur fá á niðurgreiddu verði. Löng röð myndaðist síðasta þriðjudag og greinilegt að réttur dagsins, Chili sin Carne, sló í gegn hjá nemendum jafnt sem starfsfólki. Ég bið nemendur jafnt sem starfsfólk að sýna biðlund og mæta fyrir álagstíma ef mögulegt er.

Á vef skólans er að finna skóladagatal vorannar og eru nemendur hvattir til að kynna sér það vel. Vorönnin er alltaf lengri en haustönn en á móti kemur meira uppbrot vegna t.d. Árdaga og páska.

Steinn Jóhannsson
skólameistari

 

Vikupistill skólameistara (2017/1)

Í fyrsta vikupistli ársins vil ég óska öllum nemendum og starfsfólki gleðilegs árs og þakka fyrir samstarfið á liðnum árum.
Rúmlega 200 nemar voru innritaðir á vorönn og samtals munu um 850 nemendur stunda nám í dagskóla. Flestir nemendur stunda nám á félagsfræðabraut eða vel á þriðja hundrað og í heilbrigðisskólanum eru flestir skráðir á sjúkraliðabraut, alls rúmlega 80. Það var gleðiefni að fleiri nemendur yngri en 18 ára sóttu um skólavist en síðustu ár og gefur það vísbendingu um að stærri hópur yngri nemenda eigi erfitt með að gera upp við sig hvers konar nám þeir vilji stunda og í hvaða skóla. Tæplega 20 nemendur hófu nám á sjúkraliðabrú en allir nemendurnir koma af Landspítalanum og taka nám með starfi.
Fjarnám skólans hefur verið í boði í 15 ár og er skólinn með flesta fjarnámsnemendur á framhaldsskólastigi. Í liðinni viku var flott viðtal við Steinunni H. Hafstað fjarnámsstjóra í Fréttablaðinu um fjárnámið FÁ. Skólinn hefur markað sér sterka hefð sem leiðandi skóli í fjarnámi og kennararnir afar reynslumiklir af kennslu fjarnáms. Opið er fyrir skráningu í fjarnám til og með 13. janúar og má gera ráð fyrir að vel á annað þúsund nemendur muni stunda nám í tæplega 90 áföngum. Fjölmargir grunnskólanemar hafa stundað fjarnám síðustu ár og flýtt fyrir sér í námi eða tekið áfanga til að undirbúa sig betur fyrir nám í framhaldsskóla. Nemendahópurinn er staðsettur um allt land sem og erlendis og próftökustöðvar því víða þegar lokapróf eru þreytt.

Lesa meira
 

Vikupistill skólameistara (2016/28)

Nú er hafin síðasta kennsluvikan en kennt er til og með 1. desember, 2. desember er námsmatsdagur og lokapróf dagskóla og fjarnáms hefjast mánudaginn 5. desember. Ég vona að nemendur séu tilbúnir í lokaprófin sem eru oftast skemmtileg áskorun á þá þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur hafa tileinkað sér yfir önnina. Prófin standa yfir dagana 5.-15. desember og þann 16. des. er prófsýning 11:00-14:00. Brautskráning fer svo fram þann 20. desember kl. 16:00. Ég hvet nemendur til að nýta sér aðstöðuna í skólanum til undirbúnings prófa, þ.e. lesherbergi, bóksafn og Steypuna.
Síðasta vika var svo sannarlega annasöm í skólanum. Við fögnuðum 35 ára afmæli skólans sl. mánudag og kom forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, í heimsókn. Einnig komu fulltrúar Landverndar sem afhentu skólanum sinn sjötta Grænfána og Emmsjé Gauti flutti tónlist. Dagur sem heppnaðist frábærlega vel í alla staði og gaman að sjá gleðina sem ríkti hjá nemendum jafnt sem starfsfólki. Inn á fésbókarsíðu skólans eru fjölmargar myndir frá þessum eftirminnilega degi og hvet ég ykkur til að skoða þær. Einnig birtist skemmtileg frétt inn á
nutiminn.is um heimsóknina.
Síðastliðinn föstudag fór fram Dimision og óhætt að fullyrða að stúdentsefnin hafi verið til fyrirmyndar. Þau verðlaunuðu kennara og starfsfólk og áttu svo góða stund upp á kaffistofu starfsfólks í kjölfarið. Miðbær Reykjavíkur iðaði af stúdentsefnum þennan dag sem voru að dimmitera og hafa eflaust vakið mikla kátínu hjá þeim fjölmörgu erlendum ferðamennum sem urðu vitni að leikjum þeirra.
Smelltu hér til að skoða myndir.
Opið er fyrir umsóknir um nám við skólann á vorönn 2017. Að venju hafa umsækjendur val um fjölmargar námsbrautir en þegar þetta er skrifað hafa flestar umsóknir borist inn á félagsfræðabraut í bóknámi og á sjúkraliðabraut í heilbrigðisgreinum. Innritun samþykktra umsækjenda er hafin og geta þeir séð stöðuna í INNU.
Þetta er síðasti vikupistill minn á haustmisseri og óska ég nemendum góðs gengis í prófunum sem eru framundan sem og gleðilegrar jólahátíðar.

Steinn Jóhannsson
skólameistari

Lesa meira
 

Vikupistill skólameistara (2016/27)

Í dag er runninn upp stór dagur í sögu skólans. Tilefnið er þríþætt: Við fögnum 25 ára afmæli skólans, skólinn fær Grænfánann í sjötta sinn og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kemur í opinbera heimsókn. Það er mikill heiður að fá Grænfánann afhentan í sjötta sinn en hann var fyrst afhentur skólanum árið 2016. Mikið hefur áunnist síðan þá og í dag státar skólinn af metnaðarfullri sjálfbærnistefnu með fjölbreyttum mælikvörðum. Það er gleðiefni að forseti Íslands komi í heimsókn á þessum degi og heiðri okkur með nærveru sinni. Hann mun fá stutta kynningu á skólastarfinu með því að heimsækja nemendur í tíma og í kjölfarið vera viðstaddur sjálfa Grænfánaafhendinguna. Fyrrum útskriftarnemandi skólans Emmsjé Gauti mun flytja tvö lög en hann er einn þekktasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir.

Nýlega birtist grein eftir undirritaðan í Fréttablaðinu um stöðu framhaldsskólans og hvert hann stefnir. Ég læt nokkur atriði hér fylgja með sem ég tel mikilvægt að nemendur og starfsfólk sé meðvitað um. „Það er ljóst að miklar breytingar hafa átt sér stað á síðustu árum í starfssemi framhaldsskólanna, t.d. innleiðing þriggja ára stúdentsbrauta, endurskoðun allra námsbrauta í starfsnámi og breyttar skilgreiningar á vinnutíma kennara (vinnumat). Allt hefur þetta í för með sér útgjaldaauka sem hefur haft veruleg áhrif á reksturinn.“ Ljóst er að fjölmargir skólar glíma við breytt rekstrarumhverfi frá því sem áður var og er það áhyggjuefni. Ég bind vonir við að endurskoðun á reiknilíkani framhaldsskólanna sem er nýhafin skili þeim árangri að skólum takist betur að laga sig að breyttu umhverfi. Það er eðlilegt að glíma við breytingar en þær mega ekki vera á þá vegu að þær hafi neikvæð áhrif á skólastarf, t.d. í formi skertrar þjónustu við nemendur, færri valáfanga, stærri hópa, o.fl.

Sl. föstudag fagnaði Sjúkraliðafélag Íslands 50 ára afmæli. Skólinn hefur átt í farsælu samstarfi við félagið um menntun sjúkraliða í gegnum árin og félagið verið öflugur bakhjarl skólans. Á afmælinu var Guðrún Hildur Ragnarsdóttir kennslustjóri sjúkraliðabrautar heiðruð sérstaklega fyrir framlag sitt til menntunar sjúkraliða. Ég vil fyrir hönd skólans óska henni innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Næstkomandi föstudag munu stúdentsefni dimmitera. Stúdentsefnin gera sér glaðan dag samkvæmt hefðinni og eiga vonandi góða stund í skólanum með nemendum og starfsfólki. Athöfnin hefst inn á sal í löngu frímínútunum.

Steinn Jóhannsson
skólameistari

Lesa meira
 StoðflokkarÚtlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica