Ársskýrsla

BÓKASAFN FJÖLBRAUTASKÓLANS VIÐ ÁRMÚLA

ÁRSSKÝRSLA VETURINN 2012-2013

 

STARFSMENN: Kristín Björgvinsdóttir bókasafnsstjóri og Þóra Kristín Sigvaldadóttir bókasafnsfræðingur, báðar í fullu starfi.

STARFSEMI (tölur í svigum frá síðasta ári):

            NOTENDUR: Nemendur á haustönn 1070 (1140), á vorönn um 1000 (978). Fjarnemendur á haustönn voru 1536 (1491) en 1464 (1480) á vorönn. Starfsmenn skólans 106 (122).

            OPIÐ: Mán-fim 8-16.30, fös 8-15. Á prófatíma var í vetur opnuð lesstofa í suðurálmu sem var opin til kl 21 virka daga.

            ÚTLÁN: 1704 (1783), innanhússlán 2272 (2291), millisafnalán 77 (16).

            NOTENDAFRÆÐSLA: Safnkennsla í LKN (1 klst. f. hvern hóp), tilsögn í heimildaleit fyrir nokkra hópa auk kennslu í upplýsingaöflun með sérstakri áherslu á gagnagrunna í heilbrigðisgeiranum fyrir allmarga hópa (2 klst. f. hvern hóp). Nemendur í kennsluréttindanámi við skólann fá tilsögn í notkun safnsins við kennslu og bent á möguleika í samstarfi bókasafnsfræðinga og kennara. Auk þess er fjallað um upplýsingalæsi og nýja aðalnámskrá (2 klst.).

SAFNKOSTUR:

            BÓKAEIGN: 11478 (11364) eintök, 10260 (10167) titlar eftir afskriftir.

            TÍMARIT: 51 (43) titlar í áskrift, sum berast án þess að greitt sé fyrir þau.

            NÝSIGÖGN: 1432 eintök (1380): 336 myndbönd, 87 hljóðsnældur, 11 skyggnusett, 154 hljómplötur og -diskar, 119 kort, 31 tölvuforrit, 6 glærusett, 57 margmiðlunardiskar, 629 mynddiskar og 2 spilasett.

            ÚRKLIPPUR: Afskrifaðar enda efni aðgengilegt á Netinu.

            AFSKRIFTIR: 39 (175) eintök bóka, 1 DVD.

            AÐFÖNG BÓKA:  153 eintök (189), þ.e. fyrir afskriftir.

            GJAFIR: 30 eintök (54).

            FJÁRVEITING TIL GAGNAKAUPA: 768.659 kr. (1.000.000).

 

HÚSNÆÐI: Dálítinn tíma hefur tekið að finna út rétta hitastillingu á innblástri loftræstingar en nú erum við líklega búin að læra á hana. Hljóð frá fyrirlestrarsal hafa truflað nemendur við einbeitingu á safninu en í sumar verður hljóðeinangrað með gleri og verður þá vonandi hægt að nota bæði salinn og safnið eins og til er ætlast. Loftræsting í vinnuherbergi er engin og ekki hægt að vinna þar inni lengi í einu. Vonandi verður hægt að lagfæra það við fyrsta tækifæri.

 BÚNAÐUR: Tvö lesbretti voru keypt frá Amazon og hafa nokkrar kennslubækur í ensku sem fallnar eru úr höfundarétti settar á brettin. Einnig hefur rafbók í líffæra- og lífeðlisfræði verið sett á annað brettin. Engar breytingar hafa orðið á húsbúnaði en í lok vorannar voru bikarar og aðrir gripir, sem nemendur og skólinn hafa unnið til, fluttir á safnið og verða þar til sýnis. Kristín fékk nýja fartölvu enda kennari við fjarnám skólans. Afgreiðslutölvur voru uppfærðar á vorönn og nýjar útgáfur settar inn.

 ALMANNATENGSL: Samstarf hefur helst verið við bókasafnsfræðinga í öðrum framhaldsskólum og sækja báðir bókasafnsfræðingar þá fundi, stundum kemst þó aðeins annar frá safninu vegna anna. Gestum, sem koma í heimsókn í skólann, er oftast boðið að skoða safnið. Við útskrift 24. maí var nokkrum afmælisárgöngum boðið í móttöku m.a. á bókasafninu. Voru þá til skoðunar gömul myndaalbúm, úrklippubækur og myndbönd frá félagslífi nemenda. Þegar skólinn er kynntur fyrir foreldrum nýnema er bókasafnið opið og þangað koma umsjónarkennarar með foreldra og þeim kynnt starfsemi safnsins. Báðar sóttu eftir föngum kennarafundi og fundi með stjórnendum fyrir þjónustudeildir skólans.

 RÁÐSTEFNUR, NÁMSKEIÐ, FUNDIR: Kristín kenndi eins og undanfarin ár SKL 101 í fjarnámi á vorönn og sótti nokkra morgunfundi Upplýsingar. Þóra Kristín sótti fyrirlestur um upplýsinga- og miðlalæsi í þverfaglegu samstarfi við upplýsingaver í HÍ. Kristín tók þátt í skólaheimsókn til Walsall í lok vorannar. Kristín starfaði lítillega með kennaranemum vegna verkefnis þeirra um samstarf bókasafnsfræðinga og kennara og eflingu upplýsingalæsis. Vonandi verður framhald á þeirri vinnu.


ANNAÐ:

          Ekki hefur enn verið gengið frá samningum um þátttöku bókasafnsins í bókasafnskerfinu Gegni sem á að þjóna öllum bókasöfnum í landinu. Safnið er þó að öllu leyti tilbúið þegar/ef að því kemur. Mikill meirihluti bókasafna í framhaldsskólum skráir gögn sín í Gegni.

           Niðurskurður fjárveitingar til bókasafnsins hefur haldið áfram. Engin föst upphæð hefur verið nefnd en skoðað í hverjum mánuði hversu mikið er hægt að veita til innkaupa fyrir bókasafnið. Mjög erfitt er að vinna upp það sem tapast hefur í árlegri endurnýjun handbóka í langvarandi niðurskurði. Engin erlend tímarit eru keypt og aðeins helstu fræðitímarit íslensk. Niðurskurðurinn hefur líka valdið því að nánast engar handbækur eru keyptar fyrir kennara, þó helst þær sem vitað er að margir kennarar geta sameinast um.

           Ekki hefur að ráði dregið úr útlánum frá því á síðasta ári en þá hafði dregið verulega úr útlánum og þá sérstaklega útlánum skáldsagna enda hafa nánast engar nýjar skáldsögur verið keyptar í ár. Þetta er óheppileg þróun því minnkandi lestur og lestrarfærni nemenda er verulegt áhyggjuefni. Eins og áður hefur verið nefnt tengist minnkandi notkun safngagna breyttum kennsluháttum í kjölfar breytinga á launakjörum kennara en verulega hefur dregið úr ritgerða- og verkefnavinnu nemenda. Þetta er í mótsögn við þær niðurstöður sem komu fram í könnun meðal nemenda HÍ þar sem þeir voru spurðir hvað þeim fyndist helst hafa vantað í undirbúningi þeirra fyrir háskólanám. Lang algengasta svarið var að nemendur hefðu viljað fá meiri þjálfun í ritgerðavinnu og heimildaleit.

           Þvert á væntingar hefur nánast ekkert dregið úr innanhússlánum. Við flutning í nýtt húsnæð var ákveðið að hafa allar orðabækur á svo kölluðum sjálfbeina, þ.e. að nemendur hafa óheftan aðgang að þeim og sú notkun ekki skrásett. Þessi ráðstöfun leiddi ekki af sér neina rýrnun eins og bsfr. höfðu óttast í aðra röndina.

           Kristín vann ásamt fleirum nýjar leiðbeiningar að gerð heimildaritgerða sem eru á heimasíðu skólans.

FRAMTÍÐARSÝN:

          Ítrekuð er ósk frá síðustu ársskýrslum um að skólinn móti sér stefnu í upplýsingalæsi. Kennarar nokkurra háskóla og starfsmenn háskólabókasafna hafa lýst áhyggjum sínum af minnkandi færni nýnema í háskólum í upplýsingalæsi. Við í FÁ ættum kannski að hefja þróunarverkefni um upplýsingalæsi og meta árangur síðan með tilliti til tíma og kostnaðar. Til þess höfum við alla burði.

           Nemendur hafa verið heldur tregir við að nota lesbrettin og vilja heldur lesa bækurnar á hefðbundnu formi. Næsta vetur verða nýjar kjörbækur í ensku ekki keyptar nema sem rafbækur og þannig reynt að þjálfa nemendur í notkun rafbóka.

            Reykjavík 12. júní 2013

            Kristín BjörgvinsdóttirSenda grein


StoðflokkarÚtlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica