Áfangi

Algebra, föll og mengi

  • Áfangaheiti: STÆR2AM05
  • Undanfari: STÆR1GR05 eða stærðfræðieinkunn A eða B á grunnskólaprófi.

Markmið

Að nemendur öðlist færni í vinnu með hnitakerfið, geti unnið með jöfnu beinnar línu, skurðpunkta hennar við ásana og aðrar línur.
Að nemendur kunni að vinna með veldi og rætur.
Að nemendur hafi nokkra færni í meðferð algebrubrota.
Að nemendur skilji mengjahugtakið, þekki talnamengin, mengjatáknin, biltáknin og Venn-myndir, og geti lesið úr og beitt þeim á ýmis viðfangsefni.
Að nemendur kunni að leysa fyrsta stigs jöfnur og ójöfnur og táknun lausna á talnalínu.
Að nemendur skilji algildishugtakið og geti leyst einfaldar algildisjöfnur og -ójöfnur.
Að nemendur kunni að leysa annars stigs jöfnur af ýmsu tagi.
Að nemendur þekki helstu eiginleika fleygboga, kunni að teikna þá og vinna með þá með ýmsum hætti.
Að nemendur þekki hugtökin fall, formengi, varpmengi, vaxandi og minnkandi fall.
Að nemendur þekki hornaföllin sínus, kósínus og tangens og geti notað þau til að reikna horn og hliðar í rétthyrndum þríhyrningum.
Að nemendur þekki margliður og eiginleika þeirra og kunni margliðudeilingu.

Efnisatriði

Hnitakerfi, algebra, jöfnur, veldi og rætur, ójöfnur, algildi, annars stigs jöfnur, fleygbogar, hornaföll, fallafræði, margliður, mengi.

Námsfyrirkomulag

Kennt er eftir kennsluaðferðinni Hugsandi kennslustofa þar sem mikil áhersla er lögð á hópvinnu nemenda við viðfangsefni áfangans. Undir leiðsögð kennarans glíma nemendur við verkefni sjálfstætt og búa til sjálfir þekkingu á námsefninu. Nemendur vinna á tússtöflum í litlum hópum og rannsaka viðfangsefni. Nemendur kanna síðan sinn eigin skilning á námsefninu í kennslutímum og/eða heima.

Kennslugögn

Stærðfræði 2B eftir Gísla Bachmann og Helgu Björnsdóttur útgefin í Reykjavík 2023. Aukaefni frá kennara um hnitakerfi, algildi, föll og mengi. Gott er að vera með grafíska reiknivél, til dæmis casio fx-9750GII.

Námsmat

Símat með kröfu um lágmarkseinkunn á yfirlitsprófi.
Á önninni verða gagnvirk kaflapróf sem gilda samtals 20% og tímaverkefni sem gilda samtals 30%. Einkunn fyrir ástundun (mætingu og virkni) gildir 10% af lokaeinkunn. Taki nemandi ekki próf eða skili ekki verkefni á tilsettum tíma fær hann einkunnina 0 fyrir þann hluta. Yfirlitspróf gildir svo 40% og verða nemendur að ná lágmarkseinkunn á því prófi.