Fréttir

19.4.2018 : Gleðilegt sumar

Vorvísa eftir Halldór Laxness

Hve bjart er veður,
 og blómið glatt er morgundöggin seður.
 Ó græna lífsins land!
 Ó lífsins Grænaland, ó lands míns gróður,
 leyf mér að elska þig og vera góður.

 Hve margt sem gleður.
 Í gljúpri lækjarseyru smáfugl veður.
 Ó dýra lífsins land!
 Ó lífsins Dýraland, ó land míns bróður,
 hvers lítils fugls, og draumur vorrar móður.

18.4.2018 : Nú er tími til að tengja

Í dag, seinasta vetrardag, voru tveir hleðslustaurar fyrir rafmagnsbíla  teknir í gagnið við FÁ. Andrúmsloftið var spennu þrungið þegar klippt var á borðann því nú verður auðveldara að mæta í skólann á hljóðlausum bíl sem nýtir sér íslenska orku. Ætli FÁ sé ekki einn fyrsti framhaldsskólinn til þess að koma sér upp staurum? Þess má geta að hleðslustöðvarnar eru jafníslensk framleiðsla og rafmagnið.

15.4.2018 : Umhverfisdagar 16.-18. apríl

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag í næstu viku standa nemendur í Umhverfisráði fyrir umhverfisdögum. Eins og undanfarin ár fá þeir nemendur sem taka þátt í viðburði (yfirleitt kl. 11.30 en einn er kl. 13.00) námsleyfi í kennslustund ef við á. Kynnið ykkur dagskrána. Einnig má benda á það hvað það gerir sálinni gott að tína upp rusl á leið í og úr skóla. Margar hendur vinna létt verk.

11.4.2018 : Nemendaráð sjálfkjörið!

Kosningar til nemendaráðs fara EKKI fram á morgun því að frambjóðendur reyndust einmitt mátulega margir til að vera sjálfkjörnir. Það eru því aðeins skuggakosningarnar á morgun, þið munið það sem áður hefur komið fram, kosningarétt hafa þeir sem fæddir eru 30. maí 1996 og síðar.

Lesa meira

11.4.2018 : Glæpahneigð á sal

Á morgun, 12. apríl verður áhugaverður fyrirlestur á sal skólans. Þá mun Guy Sutton, sem er yfirmaður lyfjalíffræðideilar við háskólann í Nottingham, flytja erindi sem kallast „the criminal mind“ eða hinn glæpahneigði hugur. Fyrirlesturinn hefst klukkan 10:40 og það hlýtur mörgum að leika forvitni á að fá að vita hvað hann ætlar að fræða okkur um. Er hægt að nota taugalíffræði og taugameinafræði við lögreglustörf? Er til eitthvað sem kalla má meðfædda glæpahneigð? Kannski verðum við einhvers vísari um það á fyrirlestrinum?

Lesa meira

10.4.2018 : Skuggakosningar 12. apríl

Á morgun, 11. apríl, munu stjórnmálamenn mæta á Sal kl. 11.30 og svara spurningum um sveitastjórnarkosningarnar sem haldnar verða þann 26. maí. Skuggakosningarnar sjálfar verða fimmtudaginn 12. apríl; allir sem eru fæddir eftir 28. apríl 1995 eru á kjörskrá en verða að mæta með skilríki því til sönnunar. Ekki verða aðeins Skuggakosningarnar haldnar heldur verður einnig kosið í stjórn nemendafélagsins (NFFÁ) fyrir næsta ár. Það er borgaraleg skylda að taka þátt í kosningum. Allir að mæta.

Lesa meira

6.4.2018 : Borgarstjóri í stofu M301

Í dag, 6. apríl, mætti borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson í stjórnmálafræðitíma hjá Róbert Ferdinandssyni og nemendum hans. Urðu það fróðlegar og skemmtilegar umræður um gagn og nauðsynjar borgarbúa. Það er ekki að efa að heimsókn borgarstjóra hafi kveikt áhuga nemenda á borgarmálefnum og það er mikilvægt fyrir ungt fóllk að fylgjast með hvernig framtíðin er mótuð og helst að reyna að móta hana líka.

Lesa meira

30.3.2018 : Gleðilega páska

Nú deyr vetur og vorið fæðist. Nýjar vonir klekjast úr páskaeggjum. Framundan er upprisa lífsins og alls gróanda.Nú er ekki eftir nema rúmur mánuður af önninni.  

Kennsla hefst aftur miðvikudaginn 4. apríl.

Lesa meira

22.3.2018 : Sá á kvölina...

...sem á völina. Vali fyrir haustönn 2018 lýkur þann 6. apríl. Það er því eins gott að fara að huga að því hvaða áfanga menn ætla að taka í haust. Ef þið eruð í vafa er tilvalið að leita ráða hjá umsjónarkennara.

Lesa meira

20.3.2018 : Andið eðlilega - kynning á sal

Ísold Uggadóttir, sem var valin besti leikstjórinn í flokki alþjóðlegra kvikmynda á Sundance-hátíðinni í Bandaríkjunum fyrir myndina "Andið eðlilega," kemur og kynnir myndina sína kl. 11.30 – 12.30 á morgun, miðvikudag 21.mars. Kynningin verður haldin í fyrirlestrarsal skólans. Vonandi sjá allir sér fært að kynnast myndinni og leikstjóra hennar.

Lesa meira

19.3.2018 : Vorið kemur kl. 16:15

Klukkan 16:15, þriðjudaginn 20. mars 2018, gengur vorið formlega í garð. Með orðinu jafndægur er átt við þá stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar, sem í fornu máli hét jafndægrishringur, og dagur og nótt eru jafnlöng um alla jörðina. Notuð eru orðin og orðasamböndin vorjafndægur, vorjafndægri, jafndægur á vori og jafndægri á vori og eru þau á tímabilinu frá 19.-21. mars en haustjafndægur, haustjafndægri, jafndægur á hausti eða jafndægri á hausti eru á bilinu 21.-24. september. (vísindavefur.is)

Lesa meira

15.3.2018 : Eiðar - Frumsýning á morgun, 16.3.

Á morgun rennur upp stóra stundin. Leikverkið Eiðar verður frumsýnt og spennan er orðin gífurleg. Það verður gaman að sjá hvort uppskeran verði ekki eins og til er sáð. Allir unnendur FÁ, nemendur jafnt sem starfsfólk mega ekki missa af þessari skemmtun sem lofar góðu. Frumsýningin er á morgun, föstudag 16, en á laugardaginn verða tvær sýningar, klukkan 14 og 20 og lokasýningin á sunnudaginn kl. 20.

Já, það verður fjör á Eiðum!

Lesa meira

13.3.2018 : Allir velkomnir - Opið hús 14. mars

Miðvikudaginn 14. mars verður opið hús í FÁ. Húsið verður opið upp á gátt frá hálf fimm til sex. Hérna gefst öllum tækifæri til að kynna sér hið fjölbreytta námsframboð í FÁ. Kynningin er einkum ætluð 10. bekkingjum grunnskólans sem eru að huga að framhaldsskóla við sitt hæfi en auðvitað eru allir velkomnir.

Lesa meira

12.3.2018 : Þórey Hekla Ægisdóttir nr. 1

Hin árlega tónlistarkeppni nemenda fór fram á fimmtudaginn var með pompi og prakt og ekki vantaði upp á glæsileikann frekar en fyrri árin. En mætingin hefði nú mátt vera betri, það er engin afsökun fyrir að láta þessa skemmtun fram hjá sér fara. Alls voru flutt sjö lög af átta flytjendum, þar af þrjú frumsamin lög. Úrslit réðust þannig að Þórey Hekla Ægisdóttir hreppti fyrsta sætið og mun hún keppa fyrir hönd FÁ í söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin verður bráðlega. Katla Gunnlaugsdóttir varð númer tvö. Við óskum þeim til hamingju og þær sanna að það er enginn skortur á hæfileikafólki innan veggja skólans.

Lesa meira

7.3.2018 : Söngkeppni FÁ - allir að mæta!

Á morgun, 8.mars, verður ein stærsta stund skólalífsins þegar hin árlega söngkeppni verður haldin. Þetta er viðburðurinn sem allir bíða eftir og enginn gleymir svo lengi sem þeir lifa. Söngkeppnin hefst klukkan klukkan 19:30 og stendur til klukkan 22:00. Skráðir keppendur eru tíu, en kynnir kvöldsins verður Kjartan Atli Kjartansson. Allir að mæta - þetta er skemmtun sem enginn má missa af.

Lesa meira

2.3.2018 : Hugur og hönd - Framaprófið

Verkefnið Framapróf er samstarfsverkefni allra iðn- og verkmenntaskóla á landinu og Samtaka Iðnaðarins og er skemmtilegur vettvangur til að vekja athygli á hversu fjölbreytt nám er í boði í skólunum. Það verða ekki allir barðir til bókar en margur hefur haga hönd og glöggt auga. Það er alltaf þörf fyrir góða iðnaðarmenn og tæknimenn og ekki lepja þeir dauðann úr skel eins og margur fræðimaðurinn. Farið á slóðina http://www.framaprof.is og kannið hvort ekki sé eitthvert fag sem hentar ykkar hæfileikum. En umfram allt, hlýðið heilræði Hallgríms Péturssonar og þá fer ævin vel:

Víst ávalt þeim vana halt

 vinna, lesa, iðja.

 Umfram allt þú ætíð skalt

 elska Guð og biðja.

Lesa meira

28.2.2018 : Viðrar vel til Árdaga 2018

Í dag, er aðeins kennt í tvo fyrstu tímana en svo hefjast Árdagar 2018 opinberlega og standa fram á morgun. Nú ættu allir að vera búnir að skipa sér í lið, velja sér lit, og svo er að sjá hvernig liðin spila úr kortunum sínum. Það er vonandi að allir taki þátt í gleðinni sem einkennir Árdaga og það verður spennandi að sjá hvaða lið fer með sigur af hólmi í keppninni á morgun. Um að gera, hrista af sér rykið og spretta úr spori, tala saman, hlæja og gera góðlátlegt grín hvert að öðru en umfram allt, skemmta sér vel.

Lesa meira

25.2.2018 : FÁ átti báðar bestu myndirnar!

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, eða KHF, var haldin í fjórða sinn núna helgina 24. og 25. febrúar.Öll umsjón var í höndum nemenda FÁ og fórst þeim verkið vel úr hendi. En ekki má gleyma hlut Þórs Elíss Pálssonar sem er potturinn og pannan við kvikmyndagerð í FÁ. Úrslitin voru líka verðskulduð. Áhorfendaverðlaun fyrir mynd sýnda 24.feb. féllu í skaut "Reglur Leiksins:"  Áhorfendaverðlaun fyrir myndir sýndar 25.feb. fékk myndin "Utan og undir." Verðlaun fyrir bestu tæknilegu útfærsluna féll myndin Reglur leiksins og verðlaun fyrir besta leikinn fékk María Carmela Torrini fyrir leik sinnn í "Reglur leiksins" Besta mynd hátíðarinnar var svo valin: "Reglur leiksins"  - Báðar myndirnar, "Reglur leiksins" of "Utan og undir" eru handaverk nemenda FÁ. Til hamingju með glæsilegan árangur.

Lesa meira

25.2.2018 : FÁ vann Lífshlaupið

Þá liggja úrslitin fyrir í Lífshlaupinu. Ekki að spyrja að því hvaða skóli vann það hlaup.  Við megum vel við una. Hlaupum nú um víðan völl og fögnum.

Svona lítur þetta út.

Skólar með 400 - 999 Nemendur

Skóli Dagar Mínútur Þátttökuhlutfall
1. Fjölbrautaskólinn við Ármúla 0,66 54,78 16,00%
2. Menntaskólinn í Reykjavík 0,41 36,49 10,00%
3. Fjölbrautaskóli Vesturlands 0,08 6,91 2,00%
4. Menntaskólinn í Kópavogi 0,06 4,40 1,00%
5. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði 0,02 1,10 0,00%
6. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 0,00 0,00 0,00%

Lesa meira

23.2.2018 : Kvikmyndahátíð um helgina!

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, eða KHF, verður haldin í fjórða sinn núna helgina 24. og 25. febrúar. Hátíðin fer fram í Bíó Paradís frá kl. 13:00-16:00 og er ókeypis inn. Öll umsjón er í höndum nemenda FÁ. Eitt af aðal markmiðum hátíðarinnar er að gera nemendum í framhaldsskólum landsins kleift að koma verkum sínum á framfæri og kynnast öðrum með sömu áhugamál. Tækifærin sem skapast upp úr hátíðinni eru ófá og því er vonin sú að gera hátíðina sýnilegri og skapa henni jafnframt fastan sess í félagslífi íslenskra ungmenna. (sjá meira)

Lesa meira
Síða 1 af 5