Vikupistill

4. desember

Á morgun þriðjudaginn 5. des. er síðast kennsludagur annarinnar. Daginn eftir miðvikudaginn 6. des. er uppgjörs-, upplestrardagur. Próf byrja síðan fimmtudaginn 7. des. og standa yfir í næstu sjö daga. Góðar óskir um velgengni til nemenda. Prófasýning og frágangur á vali fyrir vorönn 2018 er síðan 19. des. kl. 11:30 til 13:00.

  Nú þegar þetta tímabili er að renna sitt skeið á enda, verða tímamót. Þegar þetta gerist togast tvennskonar tilfinningar á, feginleiki og söknuður. Er hægt að spá fyrir um hvað mannkynið getur hugsað um?  Við verðum þá að vita hvað við viljum og af hverju. Vegna þess að við, við öll getum haft áhrif ef við viljum. Hér er um tvö athugunarefni að ræða. Annað er að það sem við gerum sé hugsanlega hættulegt og þess vegna ættum við ekki að vera að gera það. Í öðru lagi ættum ekki að finna út ákveðna hluti en gerum það samt sem áður, hvernig er þá hægt að halda hættunni í skefjum. Þessi tvö athugunarefni eru ólíkrar gerðar. Annað er siðfræðilegt hitt varðar lögfræðilega viðspyrnu. Við eigum að vera bjartsýn á að greind mannsins geti risið til hins óþekkta, jafnvel þegar ný viðfangsefni hafa enga fyrirsjáanlega lausn svo sem alnæmi. Bjartsýnum einstaklingum tekst að leysa viðfangsefni en svartsýnir úrtölumenn hætta sér ekki inn á ókunn svæði. Aðeins er hægt að svara þýðingarmiklum spurningum með því að fara þangað sem engin hefur farið áður. Það er eina færa leiðin.

  Við erum ekki mikið nær um vatnið þó við vitum allt um súrefni og vetni sem vatnið er gert úr. Þegar súrefni og vetni koma saman og mynda vatn kemur fram nýr eiginleiki sem er forsenda lífs.

4. desember 2017                       Ólafur Hjörtur Sigurjónsson skólameistari                      

28. nóvember

Í dag eru 6 kennsludagar eftir af haustönn. Nemendafélagið verður með jólaviku. Hönnunarkeppni nemenda hefur staðið yfir um FÁ peysu, nokkrar hugmyndir eru komnar, eftir er að halda kosningu um hugmyndirnar.

 Á föstudaginn 1 des. verður dimmission dagskrá á sal  kl. 10:40. Öll kennsla fellur því niður í tímanum sem er frá 10:40 til 11:40. Starfsmannafundur verður 4. des. kl. 8:15.

 1. desember fullveldisdagurinn er svo nefndur til minningar um að 1. desember 1918, tóku gildi milli Íslands og Danmerkur Sambandslögin, sem voru lög um það hvernig Ísland stóð í sambandi sínu við Danmörku. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma og var Íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.

 Lítið var samt um hátíðahöld þegar upp á hann var haldið í fyrsta sinn árið 1918, enda veturinn með eindæmum harður og oftast kallaður frostaveturinn mikli. Nánar hér.

 Þessa daga er heiður næturhiminn, þúsundir stjarna, skærar og daufar, glitrandi í ýmsum litum. Mannsaugað reynir að koma skipulagi á óreiðu, leitar að reglu, munstri í þessum dreifðu ljósdeplum. Forfeður okkar á suðlægum slóðum fyrir þúsundum ára lifðu mestan sinn aldur undir berum himni virtu fyrir sér himininn í ómenguðu andrúmslofti. Ríkulegar goðsagnir mynduðust. Aðeins fáeinar þeirra hafa borist alla leið til okkar. Þær eru hinsvegar hluti af menningu allra manna, alls mannkyns.

 Þegar við horfum upp í næturhiminninn sjáum við ekki ljónið í ljónsmerkinu, ekki heldur fiskinn í fiskamerki eða veiðimanninn í Orion, við notum samt þessi hugtök til að skipa himninum upp í svæði og hinar fornu goðsagnir skapa tengingu við eilífðina.

                   28.11.2017   Ólafur Hjörtur Sigurjónsson skólameistari                      

13. nóvember

Í síðustu viku var skólinn tilnefndur til gæðaviðurkenningar Erasmus+ . Alls voru 18 verkefni tilnefnd í ár.  Á leik- grunn- og framhaldsskólastigi voru fjögur verkefni tilnefnd:   Skólaþjónusta Árborgar – nám, störf og lærdómssamfélög. Vatnsendaskóli - skapandi starf og gagnrýnin hugsun. Fjölbrautaskólinn við Ármúla – sjálfbær útikennsla og Árskóli Skagafirði – skóli sem lærir. Þetta er mikill heiður fyrir skólann.

  Nemendafélagið hélt Lan-mót um helgina. Rúmlega sjötíu þátttakendur voru skráðir. Stjórn nemendaráðs var mjög sátt og allt hefði farið fram eins og best var á kosið. Í dag eru 17 kennsludagar eftir af haustönn. Nemendur eru hvatir til að nota þessa daga vel. 

  Mér „leiðist“ heyrist all oft. Samkvæmt Patricia Mayer Sparks* prófesor í ensku við Virginíu háskóla segir að í ensku komi orðið (bored)  fyrst fram í orðaforða okkar á nítjándu öld. Spark segir að á miðöldum þegar einhver sýndi einkenni sem við nú nefnum  leiða var viðkomandi álitin fremja nokkuð sem nefnd var acedia eða sinnuleysi, hættulega andlega fyrringu, niðurlægja heiminn og skapara hans. Hver hafði tíma fyrir svona sjálfs eftirlátssemi á tímum farsótta og vinnusemi til að lifa af. Sinnuleysi (acedia) var synd.

  Með vinnuaflssparandi vélvæðingu, að einstaklingurinn skiptir máli og  leit eftir hamingju, þá varð var það að leiðast ekki jafn slæmt. Það að leiðast er þá bara ágætt oftast. Ef lífið var aldrei leiðinlegt fyrr á tímum var það ekki heldur örvandi, áhugavert eða skemmtilegt eins og við nú á tímum leggjum í merkingu þessara orða.

  Þegar best lætur örva leiðindi sköpun. Líklega er um tvennskonar „leiðindi“ að ræða. Skapandi huga sem  leiðist og neikvæðan huga sem leiðist. Skapandi hugi snýr sér að því að gera eitthvað úr aðstæðum eða breyta þeim.

  Skapandi leiðindi er þess vegna það að gera eitthvað sjálfur í aðstæðum sem ríkja. Fullorðið fólk, foreldrar, aðstandendur, kennarar og aðrir sem koma að lífi barna, fólk sem áttar sig á þessu sambandi þess að leiðast og sköpunar hafa afgerandi áhrif. 

      * Boredom: The Literary History of a State of Mind

                     13.09.2017        Ólafur Hjörtur Sigurjónsson skólameistari                       

6. nóvember

Í kjölfar nýafstaðinna alþingiskosninga verður vart við óþol margra í garð þess lýðræðis sem við búum við. Við ættum að  hafa í huga að lýðræði er kerfi þar sem fólkið ákveður stjórn ríkisins. Þetta er fyrirkomulag sem á að vera réttlátara. Verndar frelsi einstaklinsins og þjóðarinar. Lýðræði er mikilvægt því það á að taka tillit til hagsmuna minnihlutahópa. Í lýðræði eru minnhlutahópar lausir við mismunun og sjónarmið þeirra eru jafn mikilvæg og annarra. Lýðræði er jafnframt mikilvægt vegna þess að það heldur völdum ríkisstjórna í skefjum og kemur í veg fyrir að völdum sé misbeitt og að völdum sé beitt í eigin þágu í stað hagsmuna allra. Þess vegna höfum við kosningar. All víða í heiminum er þetta ekki raunin. Spillt stjórnvöld, trúarskoðanir koma í veg fyrir frjáls hugsun nái að tjá vilja sinn. Menntun og aðgengi að menntun er líklega það sem mikilvægast er til að lýðræði nái að ryðja einræði og ofbeldi til hliðar.

Menntun er kjarninn í þroska einstaklinga og samfélaga. Markmið menntunar er að sérhvert okkar án undantekningar þroski hæfileika sína til fullnustu. Menntunin örvi frumkvæði og nýsköpun.

Áhrif efnahagskreppu og hugmyndafræði sem er fjandsamleg því að menntun sé veitt af hinu opinbera veldur því að opinbera hluta menntakerfa er hótað og stuðningur við  menntastofnanir ríkisins hefur dregist saman. Afleiðingin er að grafið er undan gæðum menntunar.

Gæðamenntun er mannréttindi og almannaheill. Ríkisvaldið og annað opinbert vald eiga að tryggja að gæða menntun sé aðgengileg öllum frá barnæsku til fullorðinsára án íþyngjandi útgjalda. Gæðamenntun skapar grunn jafnréttis í samfélögum. Gæðamenntun er ein þýðingarmesta opinbera þjónusta sem völ er á. Menntun  er ekki aðeins upplýsandi, menntun verður tæki einstaklinga, sem gerir þeim kleift að taka þátt í samfélags- og efnahagsumbótum í samfélaginu.

Ólafur H. Sigurjónsson skólameistari