Áfangi

Lífsleikni 1

Markmið


Lífsleikni á að gefa nemandanum tóm til að dýpka skilning sinn á sjálfum sér og umhverfi sínu og styrkja hann til að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs. Áhersla er lögð á að efla sjálfsmynd nemandans og trú á eigin getu en jafnframt gera hann meðvitaðan um þá ábyrgð sem hann hefur í samskiptum við aðra. Í lífsleikni er stuðlað að viðkynningu nemenda í upphafi náms því sterk félagsbönd milli nemenda styrkja þá að takast á við krefjandi nám og leggja einnig grunn að frjóu menntasamfélagi.

Námsfyrirkomulag


Áfanginn er kenndur bæði á haustönn og vorönn. Þó áfanginn sé merktur sem tveggja eininga áfangi á þessari önn þá fæst aðeins ein og hálf eining fyrir hann á þessari önn og síðan aftur ein og hálf á næstu önn.  Þannig að áfanginn er í heildina þriggja eininga.     Þess ber að geta að nemendur verða að ná lágmarkseinkunn fyrir alla námsþætti til að ná áfanganum.
Framkoma og þátttaka: Það sem verið er að sækjast eftir varðandi þennan þátt er að nemendur séu virkir á jákvæðan hátt sem þýðir í fyrsta lagi að þeir vinni verkefni í kennslustundum, bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni og vinni heimaverkefni.  Í öðru lagi að þeir taki þátt í umræðum án þess að grípa mikið fram í eða einoki umræðuna og sýni bæði samnemendum sínum og kennara tilhlýðilega virðingu. 
Mæting:   Skyldumæting er 85% að frádregnum skráðum forföllum, sem þýðir að nemandi er fallinn í áfanganum ef hann er undir þessari mætingu á fyrri önninni og fær ekki að halda áfram á næstu önn. Þarf hann þá að byrja aftur í lífsleikni á næstu haustönn. Þeir sem ná 85% mætingu fá mismunandi háar einkunnir fyrir mætingu á eftirfarandi hátt:
99-100%=10,  96-98%=9, 93-95%=8,  90-92%=7, 88-89%=6,  85-87%=5
 
Verkefni og próf:  Vegna þess að á þessari önn er verið að kenna nýja bók í fyrsta skipti verður námsmat tengt efni bókarinnar útfært nánar jafnóðum á önninni.
 
Hópverkefni:    Kennarar munu skipta nemendum í hópa og setja þeim fyrir að vinna saman að verkefni sem tengist beint eða óbeint efni sem fjallað er um í bókinni og flytja fyrirlestur og/eða skila ritgerð um efnið. 

Kennslugögn

Upplýsingar hjá kennara.

Námsmat

Þátttaka og framkoma 10%

Mæting  20%

Verkefni og próf úr bókinni 50%

Hópverkefni  20%