Áfangi

Algebra, föll og mengi

  • Áfangaheiti: STÆR2AM05
  • Undanfari: STÆR1GR05 eða stærðfræðieinkunn A eða B á grunnskólaprófi.

Markmið

Að nemendur öðlist færni í vinnu með hnitakerfið, geti unnið með jöfnu beinnar línu, skurðpunkta hennar við ásana og aðrar línur.
Að nemendur kunni að vinna með veldi og rætur.
Að nemendur hafi nokkra færni í meðferð algebrubrota.
Að nemendur skilji mengjahugtakið, þekki talnamengin, mengjatáknin, biltáknin og Venn-myndir, og geti lesið úr og beitt þeim á ýmis viðfangsefni.
Að nemendur kunni að leysa fyrsta stigs jöfnur og ójöfnur og táknun lausna á talnalínu.
Að nemendur skilji algildishugtakið og geti leyst einfaldar algildisjöfnur.
Að nemendur kunni að leysa annars stigs jöfnur af ýmsu tagi.
Að nemendur þekki helstu eiginleika fleygboga, kunni að teikna þá og vinna með þá með ýmsum hætti.
Að nemendur þekki fallhugtakið og geti teiknað ferla út frá gildatöflu.
Að nemendur þekki hornaföllin sínus, kósínus og tangens og geti beitt þeim á rétthyrnda þríhyrninga. Að nemendur geti unnið með margliður og margliðudeilingu.

Efnisatriði

Hnitakerfi, algebra, jöfnur, veldi og rætur, ójöfnur, algildi, annars stigs jöfnur, fleygbogar, hornaföll, fallafræði, margliður, mengi.

Námsfyrirkomulag

Nemendur lesa kafla bókarinnar, skoða myndböndin og sýnidæmin, reikna svo sjálfir sömu sýnidæmin og reikna svo dæmin í æfingaköflunum. Svör eru aftast í bókinni og fylgja með á pdf. skjölunum sem ég kalla „aukahefti“. Svo eru flest dæmin reiknuð á pdf skjölum inni í moodle sem nemendur geta skoðað ef þeir eru í vandræðum. Að auki eru þar líka kennslumyndböndin og vettvangur til umræðna og spurninga sem kennari reynir að bregðast við mjög fljótt.

Kennslugögn

Stærðfræði 2B eftir Gísla Bachmann og Helgu Björnsdóttur útgefin í Reykjavík 2019. Aukaefni frá kennara um hnitakerfi, föll, algildi og mengi. Gott er að vera með grafíska reiknivél, til dæmis casio fx-9750GII. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt, venjuleg reiknivél dugar alveg.

Námsmat

Lokapróf 70%
Til að standast áfangann þarf nemandi að ná að lágmarki 4,5 á skriflegu lokaprófi í annarlok.
Annareinkunn 30%
Á önninni eru 11 gagnvirk kaflapróf sem eru tekin í moodle námsumhverfinu og meðaltal þeirra er annareinkunnin. Hún gildir eingöngu til hækkunar og þá eingöngu ef nemandi hefur náð lokaprófinu þ.e. ef hún er lægri en einkunnin á lokaprófinu eða ef nemandi nær ekki lágmarkseinkunn 4,5 á lokaprófinu, þá reiknast hún ekki inn og lokaprófið gildir þá 100%.