Áfangi

EÐL 103

 • Áfangaheiti: EÐLI2GR05
 • Undanfari: RAUN1JE05 og æskilegt er að nemandi hafi lokið STÆR2HV05

Markmið

Nemandi:

 • þekki og geti notað lögmál Newtons við að leysa dæmi

 • þekki helstu orkuform og geti leyst verkefni með lögmálinu um varðveislu orkunnar
 • þekki lögmálið um varðveislu skriðþunga og geti notað það til að leysa einföld dæmi um línulega árekstra, bæði alfjaðrandi og ófjaðrandi
 • kunni að setja fram lögmál Newtons á formi skriðþungabreytinga og þekki í því sambandi hugtakið atlag
 • þekki helstu form efna, s.s. vökva, kristallaða og myndlausa storku, gas
 • kunni að nota lögmál Hookes við að reikna aflögun efna
 • geti notað reglu Pascals og lögmál um þrýsting í vökva til að útskýra hvernig loftvogir og vökvalyftur vinna og geti reiknað út einföld dæmi um þrýsting í vökva
 • geti notað lögmál Arkimedesar til að reikna út uppdrif hluta
 • þekki helstu lögmál um eðli ljóss, s.s. lögmálið um speglun, brotlögmálið og lögmál Snells, og geti notað þau til að leysa einföld dæmi í ljósfræði

Efnisatriði

Tregða og kraftur. 1., 2. og 3. lögmál Newtons, heildarkraftur, njúton. Þverkraftur, núningskraftur og núningsstuðull. Massi og þyngd. Vinna, júl, afl, vatt, kílóvattstund, hreyfiorka, stöðuorka, varðveisla orkunnar, varmi, nýtni véla, jafngildi massa og orku. Skriðþungi, fjaðrandi og ófjaðrandi árekstrar, atlag, lokað kerfi, varðveisla skriðþunga, bakslag. Ástandsform efnis, vökvi, kristölluð og myndlaus storka, þéttleiki, lögmál Hookes, þrýstingur í vökva og lofti, þrýstingseiningar, regla Pascals, uppdrif, lögmál Arkimedesar. Speglun ljóss, brennivídd, spegilformúlan, bylgjusafn, ljósbrot, brotstuðull, ljóshraði, lögmál Snells, alspeglun, markhorn, geislagangur, linsuformúlan.

Námsfyrirkomulag

Kennsluáætlun

Í áfanganum er lagður grunnur að aflfræði með hreyfilögmálum Newtons, varðveislu skriðþungans, eðliseiginleikum efnis og ljósfræði og nánar farið í varðveislu orkunnar en gert var í NÁT 123. Gert er ráð fyrir þessari grunnþekkingu í framhaldsáföngum í eðlisfræði. Í verkefnavinnu áfangans er lögð áhersla á nákvæmni í framsetningu, röksemdafærslu og notkun formúlna. Auk styttri verkefna er lögð áhersla á að nemandinn kynnist lögmálum eðlisfræðinnar af eigin raun með tilraunum, kynnist nútímatækni við skráningu og úrvinnslu, riti í verkbók og kunni að skrifa skýrslur um tilraunir.

Hver nemandi verður að mæta a.m.k. tvisvar til að ljúka tilraunum áfangans og öðlast ekki próftökurétt fyrr en hann hefur skilað öllum skýrslum áfangans.

Kennslugögn

Kennslubók sem gott er að eiga: Eðlisfræði 103 eftir Davíð Þorsteinsson. Útg. ágúst 2000.
Dæmasafn frá kennara og glósur í Moodle.

Námsmat

Lokapróf gildir u.þ.b. 50% en skýrslur og önnur verkefni 50%.

Nemandi öðlast próftökurétt þegar hann hefur skilað öllum skýrslum.