Læknaritarabraut

Frá og með haustinu 2019 verður þessi braut ekki lengur í boði í skólanum en sambærilegt nám verður í boði á háskólastigi frá þeim tíma.

Þeir nemendur sem eru í námi á læknaritarabraut fá að ljúka náminu innan ákveðins tímaramma. Vinsamlegast hafið samband við kennslustjóra læknaritara Kristrúnu Sigurðardóttur run@fa.is og kannið ykkar stöðu. Passið að fylgjast vel með hvenær áfangar eru í boði, sérgreinaáfangar verða hugsanlega bara einu sinni enn í boði. 

Læknaritaranám er viðurkennt starfsnám sem lýkur með stúdentsprófi af þeirri braut. Námið er sett upp sem 7 anna nám og eru námslok á 3. hæfniþrepi. Námið er að stórum hluta sameiginlegt með bóknámsbrautum og öðrum starfsmenntabrautum á heilbrigðissviði, en þriðjungur þess er sérhæfður að læknaritarabraut. Nám í sérgreinum brautarinnar er að mestu bóklegt nám í skóla, en starfsþjálfun fer fram utan skóla. 

Markmið læknaritaranáms er að búa nemendur undir fjölbreytt störf læknaritara, hvort sem er á heilbrigðisstofnunum eða hjá fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu. Í náminu er lögð rík áhersla á að þjálfa nákvæmni og sjálfstæði í vinnubrögðum. Starfsheiti læknaritara er lögverndað.

Skilyrði til innritunar í nám á læknaritarabraut er grunnskólapróf. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum (íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku), þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum.

Nám á læknaritarabraut er samtals 235 framhaldsskólaeiningar sem skiptast þannig: 86 feiningar almennur kjarni, 15 feiningar þriðja tungumál og 134 feiningar í brautarkjarna. Í brautarkjarna eru almennar heilbrigðisgreinar, sérgreinar læknaritarabrautar og starfsþjálfun sem tekur við að bóknámi loknu. 27% námsins er á 1. hæfniþrepi, 41% á 2. hæfniþrepi og 32% á 3. hæfniþrepi.

Til að hefja starfsþjálfun þarf nemandi að hafa náð 18 ára aldri. Starfsþjálfunin fer fram á vinnustað, heilbrigðisstofnun eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, sem skólinn samþykkir. Til að tryggja fjölbreytni fer hver nemandi á tvo vinnustaði þar sem unnið er með mismunandi sjúkraskrár. Kennslustjóri brautar sækir um nemapláss í samráði við nemanda og skólinn gerir námssamning við vinnustaðinn fyrir hönd nemandans.

Nákvæm brautarlýsing er á Námskrá.is.

Smelltu á viðkomandi krækju hér fyrir neðan til að opna brautarlýsingu.

  Læknaritarabraut (skv. nýrri námskrá)
Excel / PDF
  Læknaritarabraut (skv. eldri námskrá)


(Síðast uppfært 6.3.2019)