Fréttir

Brautskráning Fjölbrautaskólans við Ármúla

21.12.2018

Brautskráning Fjölbrautaskólans við Ármúla fór fram í dag 21. desember við vetrarsólstöður, þegar sólin er lægst á lofti. Magnús Ingvason skólameistari stýrði athöfninni. Brautskráðir voru 102 nemendur: 71 stúdent, 19 með viðbótarnám til stúdentsprófs, 4 af læknaritarabraut, 5 af heilbrigðisritarabraut, 10 heilsunuddarar, 9 af námsbraut fyrir sótthreinsitækna. Af nýsköpunar- og listabraut útskrifuðust 3 nemendur.

Dúx skólans á haustönn 2018 er Sigurður Arnór Sigurðsson stúdent af félagsfræðabraut með meðaleinkunnina 8,62. Hann fékk líka verðlaun fyrir góðan árangur í sálfræði, félagsfræði, þýsku og fyrir mætingu og ástundun.

Kveðjuávörp við útskriftina fluttu Þódís Ösp Cummings Benediktsdóttir fyrir hönd útskriftarnema heilbrigðisskólans og Agla Þóra Þórarinsdóttir félagsfræðabraut fyrir hönd nýstúdenta. Sönghópur Fjölbrautaskólans við Ármúla söng jólalög undir stjórn Jóns Svavars Jósefssonar söngstjóra og athöfninni lauk með samsöng þar sem sungin var sálmurinn Heims um ból.

Rúmlega 2000 manns stunduðu nám við skólann á haustönninni í dagskóla og fjarnámi.
Í ræðu sinni við slit skólans, lagði skólameistari, Magnús Ingvason út frá nauðsyn samskipta. Samskipti færu allt of mikið í gegnum netheima í stað raunheima. Samskipti og samverustundir væru ómetanlegar, hvort sem það er með fjölskyldu, vinum, vinnufélögum, gömlum eða nýjum skólafélögum og jafnvel með fólkinu í heitu pottunum í sundlaugunum. Það þurfi að rækta samskiptahæfnina og sýna fólkinu í kringum mann kærleika og virðingu, tala við það augliti til auglitis.