Fréttir

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

17.3.2022

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, KHF, verður haldin í áttunda sinn núna um helgina 19. og 20. mars 2022.
Hátíðin fer fram í Bíó Paradís frá kl. 13:00 - 17:00 báða dagana og er aðgangur ókeypis. Öll umsjón og vinna við hátíðina er í höndum nemenda Fjölbrautaskólans við Ármúla.
Eitt af aðal markmiðum hátíðarinnar er að gera nemendum í framhaldsskólum landsins kleift að koma kvikmynda verkum sínum á framfæri og kynnast öðrum með sömu áhugamál.
Tækifærin sem skapast upp úr hátíðinni eru ófá og því vonumst við til þess að gera hátíðina sýnilegri og skapa henni jafnframt fastan sess í félagslífi íslenskra ungmenna.

Verðlaunin fyrir bestu myndina eru ekki af verri endanum, en þau eru; sumarnámskeið (scholarship) hjá New York Film Academy ásamt sérstökum ráðgjafa verðlaunum frá Kvikmyndaskóla Íslands.
Vegleg verðlaun verða, auk þess veitt fyrir besta leikinn, bestu tæknilegu útfærsluna og bestu kvikmyndatökuna. Árið 2019 voru afhend ný verðlaun, Hildarverðlaunin til heiðurs Hildi Guðnadóttur sem er fyrsti íslendingurinn sem hlotið hefur Óskarinn. Þau eru veitt fyrir bestu frumsömdu tónlistina í stuttmynd, og nú bætast við enn ein verðlaunin en það er fyrir besta handritið að stuttmynd.
Dómnefndin er skipuð einvala liði úr íslenskum kvikmyndaiðnaði; Árni Filippusson kvikmyndatökumaður, Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, Ólafur Darri Ólafsson leikari, Ragnar Bragason leikstjóri og Valdís Óskarsdóttir klippari.
Einnig fá áhorfendur á hátíðinni að kjósa sína uppáhalds mynd og eru jafnframt veitt verðlaun í þeim flokki. Fastur liður á hátíðinni eru heiðursgestir og bjóðum við að þessu sinni velkominn hjónin Nínu Dögg Filippusdóttir og Gísla Örn Garðarsson, sem allir þekkja, þá sérstaklega fyrir sjónvarpsþáttaröðina Verðbúðina sem sýnd var á RÚV nýverið.
Ýmislegt annað er á hátíðinni eins og skemmtiatriði, oftast stand-up og stutt tónlistaratriði.
Kynningar á kvikmyndaskólum hér og erlendis ásamt öðru efni tengt kvikmyndagerð. Einnig verða sýndar valdar myndir frá nemendum Kvikmyndaskóla Íslands.