Fréttir

Vikan

12.10.2020

  • FÁ

Ágætu nemendur og forráðamenn,

Nú liggur fyrir að kennsla mun fara fram í fjarnámi á Teams samkvæmt stundatöflu í það minnsta til 19. október. Það er ljóst að fjarnám hentar nemendum misjafnlega en vegna fjölda smita í samfélaginu og hertra reglna heilbrigðisyfirvalda er fjarnámið eini kosturinn sem við höfum til að halda uppi kennslu í skólanum.

Fjarnám krefst þess að nemendur skipuleggi nám sitt enn betur en áður, og umfram allt er lykilatriði að mæta í alla Teams-tímana. Þar sem áfangarnir eru flestir símatsáfangar er mikilvægt að halda sig við efnið og skila verkefnum á tilsettum tíma.

Partur af því að skipuleggja nám sitt vel er að halda rútínu og passa vel upp á svefn, hreyfingu og mataræði.

Þó við höfum áhyggjur af velferð og námsframvindu allra okkar nemenda, höfum við hvað mestar áhyggjur af nemendum sem eru yngri en 18 ára. Við biðjum þau sem standa að þeim hópi að taka þátt í því að hvetja nemendur áfram, fylgjast vel með mætingu og námsframvindu á INNU og Moodle.

Þessa dagana eru umsjónakennarar nemenda yngri en 18 ára að hafa samband við sína nemendur til að taka stöðuna á því hvernig gengur.

Við minnum einnig á að í skólanum er öflugt stuðningsteymi sem er að störfum þótt nemendur séu ekki í skólanum. Nemendur sem þurfa aðstoð vegna skipulagningu náms eiga að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa en hægt er að óska eftir viðtali með því að hringja eða senda póst á namsradgjof@fa.is.

Við skólann starfar einnig sálfræðingur og við hvetjum nemendur sem telja sig þurfa á sálfræðiaðstoð að halda að senda póst á salfraedingur@fa.is.

Kær kveðja,

Magnús Ingvason, skólameistari FÁ

PS. Einn af námsráðgjöfum skólans var í viðtali á RÚV í vor þar sem hún gaf nemendum góð ráð þegar fyrsta bylgja veirunnar reið yfir og er jafn gagnlegt núna: https://www.ruv.is/frett/2020/04/16/jafnvaegi-milli-thess-sem-madur-vill-og-tharf-ad-gera

PSS. Lagið sem starfsmenn skólans „sendu“ nemendum í vor á einnig enn við á þessum tímum: https://www.youtube.com/watch?v=mcCgrkiIeww