3.2. Skólanefnd og skólaráð

Fjallað er um skólanefndir í 5. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008

„5. gr. Skólanefndir.

Ráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningum sveitarstjórna og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt, einn tilnefndur af kennarafundi, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði, til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar."

Nánari upplýsingar um skólanefndina og fundargerðir eru á vefsíðu skólanefndar.

Fjallað er um skólaráð í 7. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008

„7. gr. Skólaráð.

Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans og fulltrúum kennara og nemenda. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti."

Reglugerð um skólaráð hefur ekki verið sett.

Skólaráð er skipað tveimur starfsmönnum og tveimur nemendum, auk skólameistara og aðstoðarskólameistara. Auk þess sitja félagsmálafulltrúi og forvarnarfulltrúi fundi ráðsins. Skólaráð er kosið til eins árs í senn og eru fundir haldnir hálfsmánaðarlega á kennslutíma. Skólaráð fjallar um félagslíf nemenda, skólasókn þeirra og ýmis önnur mál sem varða nemendur. Félagsmálafulltrúi ritar fundargerðir skólaráðs sem eru birtar á heimasíðu skólans.

Nánari upplýsingar um skólaráðið og fundargerðir eru á vefsíðu skólaráðs.


(Síðast uppfært 2.11.2012)