4.5.12. Læknaritarabraut

Frá og með haustinu 2020 verður þessi braut ekki lengur í boði í skólanum en sambærilegt nám verður í boði á háskólastigi frá þeim tíma.

Læknaritaranám er viðurkennt starfsnám sem lýkur með stúdentsprófi af þeirri braut. Námið er sett upp sem 7 anna nám og eru námslok á 3. hæfniþrepi. Námið er að stórum hluta sameiginlegt með bóknámsbrautum og öðrum starfsmenntabrautum á heilbrigðissviði, en þriðjungur þess er sérhæfður að læknaritarabraut. Nám í sérgreinum brautarinnar er að mestu bóklegt nám í skóla, en starfsþjálfun fer fram utan skóla. Markmið læknaritaranáms er að búa nemendur undir fjölbreytt störf læknaritara, hvort sem er á heilbrigðisstofnunum eða hjá fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu. Í náminu er lögð rík áhersla á að þjálfa nákvæmni og sjálfstæði í vinnubrögðum. Starfsheiti læknaritara er lögverndað.

Nám á læknaritarabraut er samtals 235 framhaldsskólaeiningar sem skiptast þannig: 86 feiningar almennur kjarni, 15 feiningar þriðja tungumál og 134 feiningar í brautarkjarna. Í brautarkjarna eru almennar heilbrigðisgreinar, sérgreinar læknaritarabrautar og starfsþjálfun sem tekur við að bóknámi loknu. 27% námsins er á 1. hæfniþrepi, 41% á 2. hæfniþrepi og 32% á 3. hæfniþrepi.

Nánari upplýsingar og brautarlýsing eru á vefsíðu læknaritarabrautar.


(Síðast uppfært 17.11.2020)