Námsmatsáætlun

Fjölbreytt, alhliða námsmat krefst fjölbreyttra náms- og kennsluaðferða. Þegar kennarar setja fram markmið í áfangalýsingum er nauðsynlegt að þeir geri einnig grein fyrir því hvernig þeir ætla að meta hvort þeim markmiðum hefur verið náð. Nemendur þurfa að fá að kljást við fjölbreytt viðfangsefni sem reyna á margvíslega færni þeirra svo að sterkar hliðar hvers og eins fái notið sín. Við lok kennslu er kennari þannig kominn með stóran hluta eða jafnvel allar þær upplýsingar sem hann þarf til að geta gefið nemanda lokaeinkunn. Engu að síður eru verkleg eða skrifleg lokapróf hluti þeirra fjölbreyttu námsmatsaðferða sem notast er við í skólanum.

Til að hægt sé að beita alhliða námsmati að einhverju gagni þarf að vera svigrúm til fjölbreyttra verkefna í kennslustundum. Fyrir nokkrum árum voru teknar upp til reynslu 50 mínútna kennslustundir. Þykir mörgum þær í stysta lagi, einkum í verkefnavinnu eða þegar farið er með nemendur í ferðir utan skólans. Stungið er upp á að kennslustundir verði aftur lengdar í 60 mínútur eða stundataflan endurskoðuð þannig að í hverri viku verði tvær stakar og tvær samfelldar kennslustundir (líkt og í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ).

Einnig er stungið upp á að safnað verði saman upplýsingum um

  • hvers konar námsmat fer nú fram í FÁ,
  • hvort kennarar séu sáttir við það námsmat sem þeir styðjast við,
  • hvort kennara langi að fikra sig í átt að nýjum leiðum í námsmati.

Ef tilefni er til verði kennurum boðin aðstoð eða leiðsögn við hið síðasttalda. Niðurstöður þessarar könnunar ráða úrslitum um næstu skref í námsmatsvinnu innan skólans. 


(Síðast uppfært 2.11.2012)