28. nóvember

Í dag eru 6 kennsludagar eftir af haustönn. Nemendafélagið verður með jólaviku. Hönnunarkeppni nemenda hefur staðið yfir um FÁ peysu, nokkrar hugmyndir eru komnar, eftir er að halda kosningu um hugmyndirnar.

 Á föstudaginn 1 des. verður dimmission dagskrá á sal  kl. 10:40. Öll kennsla fellur því niður í tímanum sem er frá 10:40 til 11:40. Starfsmannafundur verður 4. des. kl. 8:15.

 1. desember fullveldisdagurinn er svo nefndur til minningar um að 1. desember 1918, tóku gildi milli Íslands og Danmerkur Sambandslögin, sem voru lög um það hvernig Ísland stóð í sambandi sínu við Danmörku. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma og var Íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.

 Lítið var samt um hátíðahöld þegar upp á hann var haldið í fyrsta sinn árið 1918, enda veturinn með eindæmum harður og oftast kallaður frostaveturinn mikli. Nánar hér.

 Þessa daga er heiður næturhiminn, þúsundir stjarna, skærar og daufar, glitrandi í ýmsum litum. Mannsaugað reynir að koma skipulagi á óreiðu, leitar að reglu, munstri í þessum dreifðu ljósdeplum. Forfeður okkar á suðlægum slóðum fyrir þúsundum ára lifðu mestan sinn aldur undir berum himni virtu fyrir sér himininn í ómenguðu andrúmslofti. Ríkulegar goðsagnir mynduðust. Aðeins fáeinar þeirra hafa borist alla leið til okkar. Þær eru hinsvegar hluti af menningu allra manna, alls mannkyns.

 Þegar við horfum upp í næturhiminninn sjáum við ekki ljónið í ljónsmerkinu, ekki heldur fiskinn í fiskamerki eða veiðimanninn í Orion, við notum samt þessi hugtök til að skipa himninum upp í svæði og hinar fornu goðsagnir skapa tengingu við eilífðina.

                   28.11.2017   Ólafur Hjörtur Sigurjónsson skólameistari