9. október

Við erum ansi mikið kyrrsetusamfélag. Fyrir ekki svo löngu síðan voru krakkar úti að leika sér eignilega bara alltaf.

Sjáum við þetta núna, jafnvel í barnmörgum hverfum? Varla. Ein ástæða er að umhverfið hefur breyst – malbikaðar götur og bílastæði.

Þetta sjáum við líka umhverfis skóla. Leikskólar hafa þó allir góðar lóðir. Þegar Íslendingar fluttu inn þéttbýlið tóku þeir með sér hluta af sveitinni stór grastún voru víða.

Þar sást nú sjaldan nokkur maður, það var helst að nota þau undir gamlárskvöldbrennu. Þessi tún sum hver má enn sjá, meðal annars hér sunnan við skólann, umferðareyjar eru oft með grasþökum.

Á sumrin koma sveitir sláttumanna og sláttugnýrinn liggur yfir daganna langa.

Þegar við förum út eru heyrnartólin sett á. Við sjáum náttúrulífsmyndir í sjónvarpi en umhverfishljóðum er oft drekkt í misgóðri tónlist.

Ég tel að skortur á náttúrulegu umhverfi sé ein skýring á ýmsum vanda, svefnleysi, athyglisbresti, stoðkerfisvanda svo eitthvað sé nefnt.

Ég tel að skólinn, allir skólar eigi að huga að þessu, við getum að minnsta kosti reynt að bæta lóðir okkar og fara meira út úr kennslustofunum með nemendur.

 

Þann 19. september skipaði mennta og menningarmálaráðherra nýja skólanefnd.

Nefndin er svo skipuð: Fulltrúar ráðuneytis eru Atli Kristjánsson, Jóhannes Stefánsson og Margrét Sanders.

Fulltrúar Reykjavíkurborgar eru Elín Oddný Sigurðardóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Á fyrsta fundi nefndarinnar var Jóhannes kjörinn formaður.

 

Efnt verður til skuggakosninga í framhaldsskólum fimmtudaginn 12. október næstkomandi. Nemendur fæddir eru 28. apríl 1995 og síðar geta kosið.

Fulltrúum stjórnmálaflokka er boðið að koma til fundar við okkur þriðjudaginn 10. og miðvikudaginn 11. október kl. 11:30, þ.e. í seinni hluta tvöfalda tímans (og fram í hádegishlé).

 

Síðastliðinn föstudag var undirritaður boðaður á fund mennta- og menningarmálaráðherra.

Á fundinum féllst ég á beiðni ráðherra um að gegna starfi skólameistara til 31. júlí 2018.

Í framhaldi af þessu hef ég framlengt ráðningu Margrétar Gestsdóttur aðstoðarskólameistara til sama tíma.

 

Ólafur H. Sigurjónsson

skólameistari