Ársskýrsla 2017/2018

Ársskýrsla bókasafns Fjölbrautaskólans við Ármúla
Skólaárið 2017-2018


Starfsmenn
Kristín Björgvinsdóttir forstöðumaður í fullu starfi til 31. okt.  Í hálfu starfi sem bókasafns-fræðingur eftir það.  Þóra Kristín Sigvaldadóttir forstöðumaður í fullu starfi frá 1. nóv.  Fram að því bókasafnsfræðingur í fullu starfi.

Starfsemi (tölur í svigum frá síðasta ári)
       Notendur:  Nemendur í dagskóla voru á haustönn 963 (880) en á vorönn 864 (830).                                         Fjarnemendur á haustönn voru 1269 (1136) en 1162 (1060)  á vorönn.  
                           Starfsmenn skólans eru 106 (105).
       Safnið er opið:  Mánudaga - fimmtudaga kl. 8:00 - 16:30 og föstudaga kl. 8:00 - 15:00.

Eins og ávallt í byrjun haustannar voru allar bókahillur safnsins þrifnar og farið yfir bókakostinn.  Á vorönn var gerð hillutalning sem fól í sér að bera saman skráð eintök í Gegni við eintök í hillum bókasafnsins og í útláni.  Í framhaldinu voru afskrifuð þau gögn sem fundust ekki og hafa verið týnd frá síðustu hillutalningu.  Nýjum bókum er stillt upp á hringekju í miðju safninu til að vekja athygli nemenda og starfsmanna á þeim.  Til að hvetja til aukins lesturs er bókum og öðru efni sérstaklega stillt upp í tengslum við viðburði eins og Dag íslenskrar tungu, afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Bókasafnsdaginn og Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Safnkostur
Safnkostur bókasafnsins er skráður og lánaður út í Gegni, landskerfi bókasafna en hann er eftirfarandi.
       Bókaeign:  12302 (12023) eintök, 10956 (10749) titlar eftir afskriftir.
       Timarit:      52 (54) tímarit berast reglulega, sum án þess að greitt sé fyrir þau.
       Nýsigögn:  1430 eintök (1414): 317 myndbönd, 61 hljóðsnældur, 11 skyggnusett, 146                                      hljómplötur og -diskar, 120 kort, 28 tölvuforrit, 1 glærusett,
                            57 margmiðlunardiskar, 687 mynddiskar og 2 spilasett.
       Afskriftir:    57 (75) eintök bóka, 1 snælda, 2 hljómdiskar.
       Aðföng bóka:  336 eintök (200), þ.e. fyrir afskriftir.
       Gjafir:          52 eintök (66).

Útlán
2632 (1048), innanhússlán 2116  (1852), millisafnalán 21 (36).

Rekstrarkostnaður

Rekstrarkostnaður 2016 2017
Bækur, tímarit og annað safnefni 776.034 904.259
Gegnir - bókasafnskerfi 490.968 446.952
Gagnasöfn og vefbækur 379.401 364.909
Annar kostnaður 108.134 111.445
Samtals: 1.754.537  1.827.565

Gagnasöfn og vefbækur
Bókasafnið tekur þátt í að greiða fyrir landsaðgang að rafrænum tímaritum og gagnasöfnum í gegnum vefinn hvar.is.  Bókasafnið greiðir fyrir áskrift að vefbókasafninu snara.is  ásamt ordabok.is og er aðgangur opinn öllum í skólanum.

Húsnæði
Á haustönn var innblástursrör viftu í austurenda safnsins einangrað ásamt hluta loftsins.  Við það minnkaði hávaði frá viftunni sem hefur lengi angrað nemendur.  Þrátt fyrir úrbætur kvarta nemendur enn yfir hávaða frá viftunni.         

Búnaður
Tölvur sem standa nemendum til boða á safninu voru uppfærðar á vorönn.  Fartölvur sem fengnar voru á safnið eru talsvert notaðar og hefur notkun þeirra aukist.  Í upphafi haustannar var keypt öflugt hleðslutæki til að hlaða nokkur tæki í einu.  Nemendur nýta sér talsvert þá þjónustu að láta hlaða snjalltæki fyrir sig.  Lesstofan skáhallt á móti bókasafninu var tekin aftur í notkun í maí.  Pólska sendiráðið færði skólanum að gjöf 10 bækur.

Notendafræðsla
Nokkrir hópar fengu kynningu á bókasafninu auk tilsagnar í upplýsingaleit og heimildanotkun (1 klst.).  Nemendur í upplýsingatækni UPPÆ1R05 alls fjórir hópar fengu safnkennslu og gerðu leitarverkefni í Gegni (2 klst.).  Nemendur í kennsluréttindanámi við skólann fengu tilsögn í því hvernig nýta má safnið í kennslu og þeim bent á möguleika í samstarfi bókasafnsfræðinga og kennara.  Auk þess var fjallað um upplýsingalæsi og nýja aðalnámskrá (2 klst.).

Almannatengsl 
Gestum sem koma í heimsókn í skólann er oftast boðið að skoða safnið.  Þjónusta bókasafnsins var kynnt fyrir nemendum í móttöku fyrir nýnema bæði á haust- og vorönn.  Þegar skólinn er kynntur fyrir foreldrum nýnema er bókasafnið opið og koma gjarnan umsjónarkennarar með foreldra og er þeim þá kynnt starfsemi safnsins.  Í tilefni af útgáfu bókarinnar Eine Märchen- und Sagenreise – Island  eftir Helmut Hinrichsen gæðastjóra skólans var haldið útgáfuteiti á bókasafninu 5. desember.  Opið hús var í skólanum 14. mars og gáfu gestir sér tíma til að skoða safniðVið útskrift 25. maí var nokkrum afmælis-árgöngum boðið.  Gengið var með gesti um skólann og komið við á bókasafninu.  Voru þá skoðaðar úrklippubækur frá félagslífi nemenda í gegnum árin.  Á heimasíðu bókasafnsins er að finna upplýsingar um starfsemi safnsins svo sem afgreiðslutíma, safnkost, tengla á gagnlegt rafrænt efni og ýmsar leiðbeiningar um heimildaleit og heimildaskráningu.

Kennsla, námskeið, fundir ofl.
Kristín kenndi eins og undanfarin ár SKJA1SV02 í fjarnámi á vorönn.  Þóra Kristín fór á 12 klst. skyndihjálparnámskeið ásamt nemendum Heilbrigðisskólans sem haldið var í skólanum.  Þóra Kristín sótti málþingið Samstarf og samstaða sem Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða stóð fyrir og kynningar- og samráðsfund vegna vals á nýju bókasafnskerfi sem Landskerfi sá um.  Þóra Kristín fór einnig á fræðslufund skrásetjara á vegum Landskerfis bókasafna.  Þá sótti hún tvo morgunfræðslufundi Upplýsingar og fræðslufund á vegum Þjóðarbókhlöðunnar um hugbúnaðinn Turnitin.  Þóra Kristín sótti kynningu á alfræðiritinu Britannica School Online sem haldin var í MH.  Samstarf hefur helst verið við bókasafnsfræðinga í öðrum framhaldsskólum og sækja báðir bókasafnsfræðingar þá fundi ef kostur er.  Einn fundur vetrarins var haldin hér í skólanum í mars.  Báðir bókasafnsfræðingar safnsins sækja starfsmannafundi FÁ.  Í maí fóru Kristín og Þóra Kristín ásamt 15 öðrum bókasafnsfræðingum í framhaldsskólum í fræðsluferð til Amsterdam og nágrenni til að skoða skóla og bókasöfn.  Fenginn var styrkur frá Erasmus+ til ferðarinnarFerðin heppnaðist í alla staði vel og var einkar áhugaverð og fræðandi.  Mikill metnaður er í starfssemi skólanna og safnanna og vel tekið á móti okkar.

Annað 
Starfið í vetur hefur almennt gengið vel.  Notendur safnsins eru duglegir að nýta sér aðstöðu bókasafnsins og þá þjónustu sem er í boði.  Útlán hafa aukist á árinu sem er ánægjulegt þar sem útlánatölur hafa dregist talsvert saman síðastliðin ár og er það staðreynd sem flest bókasöfn þurfa að horfast í augu við.  Bókasafnsfræðingum framhaldsskólanna ber flestum saman um að nemendur séu í auknum mæli með náms– og kjörbækur í snjalltækjum sínum.  Mikil vinna fór í að laga og færa skráningu bókalista í Innu í nútímalegt horf.  Bókasafnið mun framvegis sjá um að uppfæra bókalistann.

 

Reykjavík 7. júní 2018
Þóra Kristín Sigvaldadóttir