Ársskýrsla 2013/2014

BÓKASAFN FJÖLBRAUTASKÓLANS VIÐ ÁRMÚLA

ÁRSSKÝRSLA VETURINN 2013-2014

 

STARFSMENN: Kristín Björgvinsdóttir bókasafnsstjóri og Þóra Kristín Sigvaldadóttir bókasafnsfræðingur, báðar í fullu starfi.

 

STARFSEMI (tölur í svigum frá síðasta ári):

            NOTENDUR: Nemendur á haustönn 1064 (1070), á vorönn 1079(1000). Fjarnemendur á haustönn voru 1332 (1536) en 1204 (1464) á vorönn. Á sumarönn voru 603 nemendur. Starfsmenn skólans 111 (106).

            OPIÐ: Mán-fim 8-16.30, fös 8-15. Lesstofa í anddyri var opin til kl. 21 virka daga.

            ÚTLÁN: 1518 (1704), innanhússlán 2293 (2272), millisafnalán 12 (77).

            NOTENDAFRÆÐSLA: Safnkennsla í LKN (1 klst. f. hvern hóp), tilsögn í heimildaleit fyrir nokkra hópa auk kennslu í upplýsingaöflun með sérstakri áherslu á gagnagrunna í heilbrigðisgeiranum fyrir allmarga hópa (2 klst. f. hvern hóp). Nemendur í kennsluréttindanámi við skólann fá tilsögn í notkun safnsins við kennslu og þeim er bent á möguleika í samstarfi bókasafnsfræðinga og kennara. Auk þess er fjallað um upplýsingalæsi og nýja aðalnámskrá (2 klst.).

 

SAFNKOSTUR:

            BÓKAEIGN: 11698 (11478) eintök, 10453 (10260) titlar eftir afskriftir.

            TÍMARIT: 52 (51) tímarit berast reglulega, sum án þess að greitt sé fyrir þau.

            NÝSIGÖGN: 1439 eintök (1432): 334 myndbönd, 87 hljóðsnældur,

11 skyggnusett, 157 hljómplötur og -diskar, 120 kort, 31 tölvuforrit,

6 glærusett, 57 margmiðlunardiskar, 634 mynddiskar og 2 spilasett.

            AFSKRIFTIR: 17 (39) eintök bóka, 2 myndbönd.

            AÐFÖNG BÓKA:  227 eintök (153), þ.e. fyrir afskriftir.

            GJAFIR: 112 eintök (30).

            FJÁRVEITING TIL GAGNAKAUPA: 866.506 kr. (768.659). 

HÚSNÆÐI: Sl. sumar var einangrað á milli bókasafnsins og fyrirlestrarsals. Tókst það með ágætum og var nánast engin truflun vegna hávaða frá salnum í vetur. Loftræsting í vinnuherbergi bókasafnsfræðinga er engin þannig að ekki hægt að vinna þar inni lengi í einu. Vonandi verður hægt að lagfæra það sem fyrst. 

BÚNAÐUR: Nokkrar kjörbækur í ensku voru settar í lesbrettin til viðbótar þeim sem fyrir voru en nemendur sýna engan sérstakan áhuga á að lesa rafbækurnar. Tvær nemendatölvur voru settar upp á safninu og eru mikið notaðar. Notaður skanni var keyptur til að auðvelda tengingar í Gegni. 

ALMANNATENGSL: Samstarf hefur helst verið við bókasafnsfræðinga í öðrum framhaldsskólum og sækja báðir bókasafnsfræðingar þá fundi; stundum kemst þó aðeins annar frá safninu vegna anna.

Gestum, sem koma í heimsókn í skólann, er oftast boðið að skoða safnið. Við útskrift 23. maí var nokkrum afmælisárgöngum boðið í móttöku, m.a. á bókasafninu. Voru þá til skoðunar gömul myndaalbúm og úrklippubækur frá félagslífi nemenda í gegnum árin. Þegar skólinn er kynntur fyrir foreldrum nýnema er bókasafnið opið og þangað koma umsjónarkennarar með foreldra og þeim kynnt starfsemi safnsins. Báðir bókasafnsfræðingar sóttu eftir föngum kennarafundi og fundi með stjórnendum fyrir þjónustudeildir skólans. 

RÁÐSTEFNUR, NÁMSKEIÐ, FUNDIR: Báðir bókasafnsfræðingar tóku þátt í starfsmannaviðtali við skólameistara og fóru á kynningu vegna tengingar í Gegni. Kristín kenndi eins og undanfarin ár SKL 101 í fjarnámi á vorönn og sótti nokkra morgunfundi Upplýsingar. Þóra Kristín sótti námskeið á vegum Landsaðgangs að gagnasöfnum og rafrænum tímaritum, námskeið um skjalastjórn og námsstefnu um nám og framtíð bókasafnsfræðinnar. Kristín sat nokkra fundi um sjálfbærni í skólanum og kenndi kennaranemum tvo tíma um m.a. upplýsingalæsi. Hún sat ráðstefnu um tæknivæðingu bókasafna og ársfund Aleflis sem er notendafélag Gegnis. Báðar sóttu alþjóðlega ráðstefnu um Dewey-flokkunarkerfið sem haldið var í Landsbókasafni.

ANNAÐ: 

          Þann 20. mars byrjuðu bókasafnsfræðingar að tengja skráningu safnkosts við Gegni. Til að auðvelda verkið var keyptur notaður skanni og gengur verkið vel. Nú er búið að tengja um 6600 eintök.

Athygli vekur hversu mörg eintök af safnkosti FÁ þarf að skrá sérstaklega í kerfið þar sem þau virðast ekki til í öðrum bókasöfnum. Þar er helst að nefna safnkost í heilbrigðisgreinum enda hefur lengi verið kappkostað að eignast sem mest af því sem gefið er út á íslensku. Einnig hafa kennarar verið duglegir að benda á góðar handbækur sem nýtast þeim við undirbúning kennslu og gerðar kennsluefnis. 

          Niðurskurður fjárveitingar til bókasafnsins hefur haldið áfram en nú er vonandi botninum náð. Mjög erfitt er að vinna upp það sem tapast hefur í árlegri endurnýjun handbóka í langvarandi niðurskurði.

Engin erlend tímarit eru keypt og aðeins helstu fræðitímarit íslensk. Niðurskurðurinn hefur líka valdið því að nánast engar handbækur eru keyptar fyrir kennara, þó helst þær sem vitað er að margir kennarar geta sameinast um. 

          Enn hefur heldur dregið úr útlánum frá því á síðasta ári og rímar það við niðurstöður kannana á minnkandi lestri ungmenna. Þetta er óheppileg þróun því minnkandi lestur og lestrarfærni nemenda er verulegt áhyggjuefni.

          Þvert á væntingar hefur nánast ekkert dregið úr innanhússlánum. Aðallega eru það námsbækur og orðabækur sem nemendur fá lánaðar. Enn sem komið er virðast nemendur velja prentaðar orðabækur þó að bókasafnið greiði fyrir netaðgang að rafrænum orðabókum á netinu. 

FRAMTÍÐARSÝN: 

          Nemendur hafa verið heldur tregir við að nota lesbrettin og vilja heldur lesa bækurnar á hefðbundnu formi. Næsta vetur verða nýjar kjörbækur í ensku ekki keyptar nema sem rafbækur og þannig reynt að þjálfa nemendur í notkun rafbóka. 

            Reykjavík 10. júní 2014 

            Kristín Björgvinsdóttir