Fréttir

GAIA - Erasmus verkefni

24.5.2023

FÁ tók þátt í Erasmus-verkefninu GAIA með framhaldsskóla í Frakklandi en verkefnið byrjaði á vorönn 2022 og lauk nú í vor 2023. Alls tóku 15 nemendur þátt frá FÁ og 15 franskir nemendur. Það voru svo fjórir starfsmenn frá hvorum skóla sem unnu að verkefninu.

GAIA stendur fyrir Global Awareness In Action og fjallar um að vera meðvituð um okkur sjálf og umhverfið okkar. Að vera meðvituð um tengslin við sjálfa sig, við annað fólk, við náttúruna og við umhverfi sitt og fá tækifæri til að vera í meiri tengslum inn á við, tengjast öðrum í hópi og tengjast náttúrunni.

Til að vinna með þessa þætti prófuðu nemendurnir jóga, öndunaræfingar og hugleiðslur til að róa hugann og slaka. Það var lögð áhersla á að hlusta og vera virk í samræðum og samskiptum í raunheimi og styðja aðra.

Fjallað var um umhverfið og náttúruna. Prófa að vera til staðar í umhverfinu og í náttúrunni, þekkja auðlindir og geta aðlagast umhverfinu þegar verið er utandyra og í útivist. Farið var í gönguferðir og skoðunarferðir á Íslandi og í Frakklandi. Einnig var gerður umhverfissáttmáli þar sem öll settu sér markmið um neyslu og umgengni við auðlindir og náttúru.

Í september kom franski hópurinn til landsins en nemendur gistu heima hjá íslensku nemendunum. Farið var í skoðunarferðir til Þingvalla, Gullfoss og Geysis. Hellisheiðarvirkjun var skoðuð og listasöfn í Reykjavík. Gengið var um Búrfellsgjá hjá Heiðmörk og svo farið í Þórsmörk í þrjá daga.

Í apríl síðastliðinn fór svo íslenski hópurinn til Frakklands og þar gistu þau einnig heima hjá frösku nemendunum. Skólinn þeirra er í þorpinu Brochon í Côte-d‘Or vínekrunum skammt frá Dijon. Farnar voru skoðunarferðir í nágrenninu, bæði gönguferðir um friðlönd og líka til að skoða framleiðslu á svæðinu eins og ostagerð, í vínkjallara og til að skoða búgarð með lífræna korn- og grænmetis ræktun. Þá var farið í þriggja daga útivistarferð til Jurafjallanna. Þar var farið í fjallgöngu og skógargöngu á mörkum Frakklands og Sviss. Hópurinn skoðaði friðland í Jurafjöllunum og fékk fræðslu um verndarsvæðið. Þar er stöðuvatn og skógur en þar er til dæmis Gaupa (Lynx) að ná sér á strik aftur ásamt fjölmörgum dýrum. Skoðuð var hunangsframleiðsla og vinnsla á hinum fræga Comté osti.

Það var ánægður og þakklátur hópur sem kom heim með mikla reynslu í farteskinu og vinatengsl til framtíðar. 

Fleiri myndir úr verkefninu má sjá hér.