6.6. Bókasafn

Bókasafnið er upplýsingamiðstöð fyrir nemendur, kennara og starfsfólk skólans. Aðrir notendur hafa einungis lágmarksaðgang að gögnum safnsins, þ.e.a.s. safnið lætur þeim í té aðstöðu til að nota gögn þess á staðnum.

Allir nemendur eiga rétt á að njóta faglegrar bókasafns- og upplýsingaþjónustu á bókasafni skólans endurgjaldslaust og hafa jafnan aðgang að upplýsingum án tillits til félagslegrar stöðu og uppruna.

Bókasafnið styður nám, kennslu, félagslíf og þróunarstarf í skólanum. Safnið er búið bókum, tímaritum, myndefni og öðrum safnkosti sem tengist skólastarfi. Jafnframt er aðgangur að rafrænum gögnum innan skólans og á netinu. Einnig er boðið upp á efni sem hvetur nemendur til stöðugrar þekkingarleitar í leik og starfi og bókmenntalesturs. Með því er stuðlað að heilbrigðu líferni og þroska.

Starfsfólk bókasafnsins veitir nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum virka upplýsingaþjónustu og stuðlar þannig að upplýsingalæsi og samþættingu sjálfstæðrar þekkingarleitar og kennslugreina.

Á bókasafninu fer fram öflun og úrvinnsla þekkingar. Þar er upplýsingum safnað saman, þær skipulagðar, metnar og notaðar. Vinnuaðstaða er á safninu þar sem nemendur geta búið sig undir kennslustundir, unnið að verkefnum og ritgerðum eða nýtt upplýsingakost safnsins á annan hátt. Lesstofa og aðgangur að tölvum skal vera í tengslum við bókasafnið.

Nánari upplýsingar um afgreiðslutíma, safnkost o.fl. eru á bókasafnssíðunni.


(Síðast uppfært 2.11.2012)