Hverjir fara til sálfræðings?

Það eru margar ástæður fyrir því að nemendur óska eftir viðtali hjá sálfræðing FÁ. Á meðan sumir leita til mín vegna kvíðavanda, streitu eða vegna depurðar þá er einnig algengt að nemendur finna fyrir vanlíðan en vita ekki almennilega hvað það er sem veldur því. Það er mjög eðlilegt enda getur reynst flókið að greina eigin hugsanir og tilfinningar.

Whydidwaldogototherapy

Gott er að hafa í huga að það er eðlilegt að upplifa tilfinningasveiflur og kannski sérstaklega þegar maður er ungur að árum og er að taka sín fyrstu skref í að mótast sem fullvaxta einstaklingur. Að leita sér aðstoðar, þegar okkur líður illa, er ekkert til að skammast sín fyrir. Við mælum með því fyrir okkar nánustu að fá aðstoð og hvers vegna ætti það að vera öðruvísi fyrir okkur sjálf? Geðheilsa skiptir máli, alveg eins og líkamleg heilsa. Ef við finnum til í líkamanum þá förum við oft til læknis. Það sama á að gilda um andlega heilsu.

Gott er að minna á að stundum dugar að tala við fjölskyldumeðlim, ættingja eða vin þegar okkur líður illa. Þegar það dugar ekki þá getur verið mikilvægt að leita til óháðs aðila sem hefur ákveðna þekkingu og færni til að veita aðstoð. Því langar mig til að hvetja alla þá nemendur sem telja sig þurfa á sálfræðiviðtali að halda að leita sér aðstoðar með því að hafa samband eða leita til sjálfstætt starfandi sálfræðings eða með því að hafa samband við ykkar heilsugæslustöð.

Sálfræðingar nota gjarnan hugræna atferlismeðferð (HAM) með sínum skjólstæðingum en sú aðferð er meðal áhrifaríkustu aðferða sem notaðar eru við geðrænum vandamálum í dag. Algengt er að skólasálfræðingar aðstoði nemendur með aðferðum HAM til að takast á við námskvíða, félags- og frammistöðukvíða, sjálfsmyndarvanda og depurð. En þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi. Sálfræðingur FÁ sinnir einstaklingsviðtölum, heldur fræðsluerindi og námskeið fyrir nemendur og starfsmenn.

Við erum öll hluti af þessum flotta skóla og er það markmið mitt að vera til staðar fyrir nemendur þegar þeim vantar aðstoð við að takast á við þær áskoranir sem lífið hefur upp á að bjóða.

Andri Haukstein Oddsson, sálfræðingur við FÁ