Fréttir og tilkynningar

Fyrirsagnalisti

Reykur er reykur - 18.9.2017 Fréttir

Það ætti ekki að fara fram hjá neinum að reykingar eru algerlega bannaðar í húsnæði skólans og einnig á skólalóðinni. Skiptir þá engu máli hvort reykurinn kemur úr sígarettu eða rafrettu.
Einhver brögð hafa verið að því að sumir haldi að gufustrókur úr rafréttu sé ekki reykur. Það er misskilningur. Allur útblástur nema bifreiða er bannaður við skólann.

Gettu betur - ef þú getur - 8.9.2017 Fréttir

Nú er að fara í gang liðssöfnun fyrir Gettu betur - lið skólans. Leitað er eftir mannlegum tölvuheilum sem hafa límheila og muna allar merkar og ómerkar staðreyndir í alheimi og helst sem ómerkilegastar - hvað vegur býfluga mörg míkrógrömm? Af hverju er himinninn blár? Þeir sem eru með góðan límheila ættu að skrá sig í þetta einvalalið og láta ljós sitt skína í spurningakeppninni. Skráning er á skrifstofunni.

Erasmus+ styrkur til FÁ - 6.9.2017 Fréttir

Rannís var að úthluta rúmlega 2,6 milljónum evra til fjölþjóðlegra samstarfsverkefna úr menntahluta Erasmus+. Að þessu sinni voru styrkt 26 skólaverkefni þar sem megináhersla er á samstarf skóla, starfsmanna þeirra og nemenda og veitir þetta skólum einstakt tækifæri til að efla alþjóðlegt samstarf og nýsköpun. FÁ var einn þeirra skóla sem fékk styrk. Verkefnið sem byrjar núna á haustönn er 2 ára verkefni. Það heitir  "Sustainable Europe 2030 - There are solutions everywhere”.Verkefnið er unnið í samstarfi við fjóra skóla í  Þýskaland, Frakkland, Tékkland og Portúgal. Í lok vikunnar verður auglýst (á skjánum) eftir nemendum til að taka þátt í þessu verkefni.

Fjarnám - skráningu lýkur á morgun, 5. september - 4.9.2017 Fréttir

Enn er tími til þess að skrá sig í fjarnám við FÁ - skráningu lýkur á morgun, 5. september en önnin hefst þann 7. september. Fjöldi áfanga er í boði - ekki láta tækifærið úr greipum ganga.
Sjá nánar á heimasíðu skólans: Fjarnám

Námskeið: Gagnlegar venjur - 1.9.2017 Fréttir

Það tekur skamma stund að koma sér upp ósiðum eða ljótum óvana. En betra er samt að tileinka sér góða siði og GAGNLEGAR venjur. Það er haft fyrir satt að leiðin til Heljar sé lögð góðum áformum en nú er okkur borgið. Námskeiðið GAGNLEGAR VENJUR verður haldið mánudaginn 4. sept. og miðvikudaginn 6. sept. frá klukkan 12:35 til 13:00 og því ættu allir sem þurfa að geta sótt sér fræðslu um gagnlegar venjur. Fræðslan fer fram í stofu M201 - sannkallað tækifæri til farsældar og frama í lífinu.

Fréttasafn