1.3. Ágrip af sögu skólans

Fjölbrautaskólinn við Ármúla er vaxinn af tveimur rótum. Húsnæði skólans var upphaflega reist fyrir Gagnfræðaskóla verknáms. Í vesturálmunni voru verkstæði fyrir málm og tré, en í austurálmunni voru saumastofur og þar eru lagnir fyrir eldhús sem þó var aldrei innréttað. Þegar Háaleitishverfið byggðist var þörf fyrir almennan grunnskóla og var hann hér til húsa. Álftamýrarskóli var síðar reistur til þess að mæta fjölgun nemenda. En á áttunda áratugnum fór unglingum fækkandi í hverfinu og haustið 1977 voru heilbrigðis- og uppeldissvið framhaldsdeilda gagnfræðaskóla fluttar úr Lindargötuskóla hingað uppeftir. Tveimur árum síðar voru verslunardeildir færðar hingað úr Laugalækjarskóla, en grunnskólinn sameinaður Álftamýrarskólanum. Ármúlaskóli hefur því verið framhaldsskóli síðan 1979, en formlega var Fjölbrautaskólinn við Ármúla stofnaður haustið 1981.

Frá stofnun skólans hefur hann dafnað og þróast úr framhaldsdeildum gagnfræðaskóla yfir í einn stærsta fjölbrautaskóla landsins. Í skólanum er boðið upp á dagskólanám á bóknámsbrautum, heilbrigðisbrautum, almennri námsbraut og sérnámsbrautum. Auk þess er boðið upp á fjölda námsáfanga í fjarnámi. Flestir nemendur skólans stefna á stúdentspróf en stór hópur nemenda stundar nám á heilbrigðisbrautum sem flestar veita lögvernduð starfsréttindi.

Starfsmenn eru að jafnaði um 120 talsins, þar af um 80 kennarar. Öflugt bókasafn er í skólanum, stórt tölvuver og þrír náms- og starfsráðgjafar í fullu starfi. Sífellt er unnið að stefnumótun fyrir skólann, enda hljóta skólar að breytast hægt og bítandi, einkum starfsmenntaskólar sem þjóna síbreytilegu atvinnulífi.

Fjölbrautaskólinn við Ármúla er skóli á framhaldsskólastigi og hefur verið rekinn sem slíkur undir eigin nafni frá árinu 1981. Á þeim árum sem skólinn hefur starfað sem sjálfstæður fjölbrautaskóli hafa átt sér stað ýmsar breytingar eins og gengur og gerist.  Áður en skólinn fékk leyfi til að brautskrá nemendur í eigin nafni var hann í nokkur ár rekinn sem útibú frá Kennaraskólanum og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og markaðist námsframboð hans í fyrstu af þeim greinum sem þar voru kenndar og þá helst þeim sem ekki þurftu mikla verklega eða plássfreka aðstöðu. Þannig voru í byrjun eingöngu kenndar bóklegar greinar til stúdentsprófs. Enn í dag leggur skólinn áherslu á bóklegar greinar til stúdentsprófs en er auk þess móðurskóli starfsnáms á heilbrigðissviði.

Árið 2001 var stofnuð sérdeild við skólann fyrir nemendur með fötlunargreiningu. Í ársbyrjun 2004 tók skólinn svo við rekstri deildar fyrir fjölfatlaða nemendur og var hún fyrst í stað staðsett í húsnæði Lyngáss við Safamýri. Haustið 2008 færðist öll starfsemin inn fyrir veggi skólans. Hefur deildin síðan verið nefnd sérnámsbraut. Stór hluti nemenda brautarinnar sækir að mestu nám í sérhannaðri aðstöðu í nýbyggingu skólans meðan aðrir eiga heimastofu í miðálmu.

Fjarnám hófst í FÁ árið 2001 og hófu 33 nemendur slíkt nám þá um haustið. Fjarnámið efldist hratt því haustið 2002 voru fjarnámsnemendur 829. Á næstu árum fjölgaði fjarnámsnemendum stöðugt og haustið 2018 stunduðu yfir 1300 nemendur fjarnám við skólann.

Skólinn hafði lengi verið á hrakhólum með húsnæði þegar skóflustunga var tekin að viðbyggingu við skólahúsið vorið 2008. Viðbyggingin er 2900 fermetrar og var byggingu hennar lokið á 30 ára afmæli skólans þann 7. september 2011. Það var mikill munur fyrir nemendur og starfsfólk að fá þar glæsilegan matsal og fyrirlestrasal og hafa t.d. brautskráningar getað farið fram í húsinu síðan. Einnig má segja að tíðindum sæti að þarna var í fyrsta sinn byggt sérstaklega yfir sérnámsbraut á framhaldsskólastigi en aðstaða fyrir fatlaða nemendur skólans er afar góð í nýju álmunni þar sem m.a. er að finna sundlaug og líkamsræktarsal sem nýtist öllum skólanum. Kennsla í heilbrigðisskólanum fer einnig fram í nýbyggingunni en þar er bæði sjúkrastofa og nuddaðstaða.


(Síðast uppfært 30.11.2021)