Fréttir

Ítalskur skiptinemi í FÁ

31.5.2023

Í vetur höfum við verið svo heppin hér í FÁ að hafa hjá okkur frábæran skiptinema frá Ítalíu, hana Francescu. Hún hefur verið ótrúlega dugleg og virk, bæði í náminu og félagslífinu og tók hún meðal annars þátt í söngkeppni FÁ. Við vildum því heyra aðeins í henni og fá að vita hvernig árið hafi verið hér á Íslandi og í FÁ.

Francesca er 17 ára gömul og kemur frá Mílanó á Ítalíu. Við vorum forvitin að vita af hverju hún hafi viljað gerast skiptinemi og af hverju hún valdi Ísland. Hana langaði til að vera skiptinemi til að upplifa nýja hluti og læra á nýja menningu og nýtt tungumál. Hún vildi fara til lands sem var kalt og væri með tungumál sem hún þekkti ekki. Svo vildi hún fara til lands sem hún þekkti ekki vel, með menningu sem er allt öðruvísi en hún er vön. Ísland varð fyrir valinu og sér hún ekki eftir því.

Hún segist vera ótrúlega ánægð með fjölskyldu hér á Íslandi. Hún samanstendur af mömmu og systur sem er tveimur árum yngri en hún og kemur þeim mjög vel saman.

Það hefur gengið vel að læra íslenskuna en það var mjög erfitt í fyrstu. Hún skilur miklu meira núna, sérstaklega þessi daglegu samtöl. Það hefur verið aðeins erfiðara að tala íslenskuna en það gengur alltaf betur og betur. Hún á frábæra vini í öllum fögum sem hún er í og þeir hafa hjálpað henni mikið. Einnig hafa kennararnir í FÁ verið mjög hjálplegir og duglegir að útskýra námsefnið aftur á ensku til að hún læri sem mest.

Hvernig hefur lífið í FÁ verið? „Félagslífið í FÁ er miklu meira en það sem ég er vön í Ítalíu og ég hef virkilega notið þess að vera í skólanum. Allir hafa tekið mjög vel á móti mér og sýnt mér skilning. Námið hefur gengið mjög vel. Það er samt mikill munur á náminu á Íslandi og Ítalíu. Sambandið milli nemenda og kennara er miklu meira og nánara hér en á Ítalíu og er t.d. miklu auðveldara að biðja um hjálp hér ef ég þarf aðstoð. Skólakerfið er líka öðruvísi. Á Ítalíu er bekkjarkerfi þannig að þú skiptir aldrei um stofu eða bekk. Einnig er stundataflan öðruvísi en á Ítalíu, þar erum við sjaldan lengur í skólanum en til 14.00 en þurfum við að vera í skólanum á laugardögum.“

Francesca hefur eignast góða vini hér á Íslandi sem hafa gert árið hér á Íslandi eftirminnilegt og þykir henni mjög vænt um þá.

Við spurðum hana hvort hún hafi fengið eitthvað menningarsjokk og viðurkenndi hún það, en Ísland vandist vel og hún heldur að hún muni ekki síður fá menningarsjokk þegar hún fer til baka til Ítalíu.

Við að vera skiptinemi hefur hún fyrst og fremst lært að vera sjálfstæð. Svo er frábært að læra nýtt tungumál. Hún er búin að þroskast mikið og læra mikið á sjálfa sig. Hún mælir með því fyrir alla að gerast skiptinemar þar sem þetta er tækifæri sem gefst bara einu sinni á lífsleiðinni og lífsreynsla sem þú tekur með þér út í lífið. Þú býrð til ógleymanlegar minningar og eignast vini til framtíðar.

Að lokum vill Francesca þakka öllum sem hún hefur kynnst og verið hluti af hennar ferðalagi hér á Íslandi. Hún vill þakka þeim fyrir að vera til staðar fyrir hana og hjálpað henni að gera þetta ár sérstakt og ógleymanlegt.

Við hér í FÁ þökkum Francescu fyrir samfylgdina og óskum henni bjartrar framtíðar úti á Ítalíu. Svo vonum við að hún komi sem fyrst aftur í heimsókn.