Fréttir

Þorri

19.1.2018

Mánuðurinn þorri hefst á föstudegi í 13. viku vetrar. Nú á bilinu 19. til 25. janúar en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Hann er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og upphaflega mun upphaf hans hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf. Mánaðarheitið þorri kemur fyrir í elsta íslenska rímhandritinu frá lokum 12. aldar og einnig í Staðarhólsbók Grágásar frá 13. öld og í upptalningu mánaðanna í Snorra Eddu. Merking orðsins er ekki ljós og hafa verið settar fram margar kenningar um hana. Helstu tilgátur eru að orðið sé skylt lýsingarorðinu þurr, sögninni að þverra, nafnorðinu þorri í merkingunni „meginhluti“ og eins að Þorri gæti verið eitt nafna Þórs eða nafn á samnefndum fornkonungi.