Ársskýrsla 2018/2019

Ársskýrsla bókasafns Fjölbrautaskólans við Ármúla
Skólaárið 2018-2019


Starfsmenn
Þóra Kristín Sigvaldadóttir forstöðumaður í fullu starfi og og Kristín Björgvinsdóttir bókasafnsfræðingur í hálfu starfi.

Starfsemi (tölur í svigum frá síðasta ári)
     Notendur: Nemendur í dagskóla voru á haustönn 903 (963) en á vorönn 853 (864).
     Fjarnemendur á haustönn voru 1358 (1269) en 1359 (1162) á vorönn. Starfsmenn skólans
     eru 107 (106).
     Safnið er opið: Mánudaga - fimmtudaga kl. 8:00 - 16:30 og föstudaga kl. 8:00 - 15:00.

Eins og ávallt í byrjun haustannar voru allar bókahillur safnsins þrifnar og bókakostur yfirfarinn. Nýjum bókum er stillt upp á hringekju í miðju safninu til að vekja athygli nemenda og starfsmanna á þeim. Til að hvetja til aukins lesturs er bókum og öðru efni sérstaklega stillt upp í tengslum við viðburði eins og Dag íslenskrar tungu, afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Bókasafnsdaginn og Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Safnkostur
Safnkostur bókasafnsins er fjölbreyttur og er hann skráður og lánaður út í Gegni, landskerfi bókasafna en hann er eftirfarandi.

     Bókaeign: 12.384 (12.302) eintök, 11.116 (10.956) titlar eftir afskriftir.
     Tímarit: 51 (52) tímarit berast reglulega, sum án þess að greitt sé fyrir þau.
     Nýsigögn: 1410 eintök (1430): 266 myndbönd, 61 hljóðsnældur, 11 skyggnusett, 148
     hljómplötur og -diskar, 120 kort, 28 tölvuforrit, 1 glærusett, 57 margmiðlunardiskar, 716
     mynddiskar og 2 spilasett.
     Afskriftir: 219 (57) eintök bóka, 51 VHS.
     Aðföng bóka: 202 eintök (336), þ.e. fyrir afskriftir.
     Gjafir: 36 eintök (52).

Útlán
Útlán voru alls 4462, þar af innanhússlán 2580. Millisafnalán voru samtals 66.

Rekstrarkostnaður

Rekstrarkostnaður 2017 2018
Bækur, tímarit og annað safnefni 904.259 789.972
Gegnir – bókasafnskerfi 446.952 460.723
Gagnasöfn og vefbækur 364.909 320.389
Annar kostnaður 111.445 128.549
Samtals: 1.827.565 1.698.633

Gagnasöfn og vefbækur

Bókasafnið tekur þátt í að greiða fyrir landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum í gegnum vefinn hvar.is. Bókasafnið greiðir fyrir áskrift að vefbókasafninu snara.is ásamt ordabok.is og er aðgangur opinn öllum í skólanum.

Húsnæði
Engar endurbætur voru gerðar á húsnæði safnsins á árinu.

Búnaður
Bóksafnsfræðingar fengu báðar nýja tölvu og lyklaborð. Öflugt rakatæki var keypt til að hafa við afgreiðsluborð safnsins. Fartölvur sem fengnar voru á safnið eru talsvert notaðar og hefur notkun þeirra aukist. Ein fartölva bættist við á haustönn. Nemendur nýta sér talsvert þá þjónustu að láta hlaða snjalltæki fyrir sig.

Notendafræðsla
Þjónusta bókasafnsins var kynnt fyrir nemendum í móttöku fyrir nýnema bæði á haust- og vorönn.
Á haustönn fengu nemendur í lífsleikni, alls 5 hópar, fræðslu um skipulag safnsins auk tilsagnar í upplýsingaleit, heimildanotkun og leystu verkefni í bókasafnskerfinu Gegni og fleiri gagnagrunnum (2 klst.). Nemendur í upplýsingatækni UPPÆ1R05 alls fjórir hópar fengu safnkennslu og leystu einnig verkefni í Gegni (2 klst.). Á vorönn fengu nemendur í ÍSLE2HMO5 tilsögn í vali á heimildum og áreiðanleika heimilda. Nemendur í KVMG2J05 fengu kynningu á flokkunarkerfum og flokkun myndefnis.Nemendur í kennsluréttindanámi fengu tilsögn í því hvernig nýta má safnið í kennslu og þeim bent á möguleika í samstarfi bókasafnsfræðinga og kennara. Auk þess var fjallað um upplýsingalæsi og nýja aðalnámskrá (1 klst.).

Almannatengsl
Gestum sem koma í heimsókn í skólann er oftast boðið að skoða safnið. Þegar skólinn er kynntur fyrir foreldrum nýnema er bókasafnið opið og er þeim þá kynnt starfsemi safnsins. Opið hús var í skólanum 21. mars og gáfu gestir sér tíma til að skoða safnið. Heimasíða bókasafnsins er uppfærð reglulega. Þar er að finna upplýsingar um starfsemi safnsins svo sem afgreiðslutíma, safnkost, tengla á gagnlegt rafrænt efni og ýmsar leiðbeiningar um heimildaleit og heimildaskráningu.

Kennsla, námskeið, fundir ofl.
Kristín kenndi eins og undanfarin ár SKJA1SV02 í fjarnámi á vorönn. Þóra Kristín sótti námskeiðið Hvað er að frétta? sem Landskerfi stóð fyrir vegna vals á nýju bókasafnskerfi. Þóra Kristín fór einnig á erindi Hilmu Gunnardóttur sem hún hélt í Þjóðarbókhlöðunni og bar heitið „Bókasafn 21. aldar. Hlutverk bókasafns- og upplýsingafræðinga á okkar tímum". Báðir bókasafnsfræðingar sóttu eftir föngum morgunfræðslufundi á vegum Upplýsingar. Þóra Kristín fór á aðalfund Aleflis sem er notendafélag Gegnis. Samstarf hefur helst verið við bókasafnsfræðinga í öðrum framhaldsskólum sem funda reglulega yfir veturinn og sækja báðir bókasafnsfræðingar þá fundi ef kostur er. Bókasafnsfræðingar sækja starfsmannafundi FÁ.

Annað
Starfið í vetur hefur gengið vel og var með hefðbundnu sniði. Nemendur eru duglegir að nýta sér aðstöðu bókasafnsins og þá þjónustu sem er í boði. Bókasafnið sér um að uppfæra bókalista í Innu.
     Útlán
     
Skammtímalánum hefur fjölgað frá fyrra skólaári sem er ánægjulegt.
     Grisjun/afskriftir
     Í samvinnu við deildarstjóra var vandlega farið yfir þau myndbönd sem skólinn á og það 
     efni afskrifað sem talið er úrelt og ónothæft. Einnig voru þau myndbönd afskrifuð sem
     safnið á til á mynddiskum. Vegna plássleysis í geymslu í kjallara var ráðist í grisjun á eldri
     árgöngum erlendra tímarit á vorönn. Líkt og undanfarin vor hafa bókasafnsfræðingar borið
     saman lista yfir safngögn sem staðsett eru í kennslustofum, vinnuherbergjum og á safninu.
     Oft hverfur eitthvað og eigum við því að vita nokkurn veginn hvað er til og hvað hefur horfið
     á skóláárinu.

Bókasafnið er staður sem nemendur og starfsfólk koma til að grípa í áhugavert efni, slaka á eða sinna áhugamálum og námi á milli tíma. Vellíðan safngesta skiptir því miklu máli í bókasafnsumhverfinu sem og öðru námsumhverfi. Bókasafnið er mikilvægur þáttur í fjölbreyttu skólastarfi og mun halda áfram að vaxa og þroskast í takt við breyttar þarfir í því upplýsingasamfélagi sem við búum í. Það að virkja gagnrýna hugsun í vali á efni svo sem rafrænu og prentuðu heldur áfram að vera okkar helsta áskorun og því er nauðsynlegt að bókasöfnin hafi á að skipa fagfólki sem getur leitt þá vinnu.

Reykjavík 7. júní 2019

Þóra Kristín Sigvaldadóttir