Ársskýrsla 2021/2022

Ársskýrsla bókasafns Fjölbrautaskólans við Ármúla
Skólaárið 2021-2022

Starfsmenn
Þóra Kristín Sigvaldadóttir forstöðumaður í fullu starfi.

Starfsemi (tölur í svigum frá síðasta ári)
Notendur: Nemendur í dagskóla voru á haustönn 859 (907) en á vorönn 760 (853). Fjarnemendur á haustönn voru 1.076 (1.274) en 1.295 (1.346) á vorönn. Starfsmenn skólans eru 109(108).
Safnið er opið: Mánudaga - fimmtudaga kl. 8:00 - 16:30 og föstudaga kl. 8:00 -15:00.

Eins og ávallt í byrjun haustannar voru allar bókahillur safnsins þrifnar og bókakostur yfirfarinn. Nýjum bókum er stillt upp á hringekju í miðju safninu til að vekja athygli nemenda og starfsmanna á þeim. Til að hvetja til aukins lesturs er bókum og öðru efni sérstaklega stillt upp í tengslum við viðburði eins og Dag íslenskrar tungu, afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Bókasafnsdaginn og Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Safnkostur
Safnkostur bókasafnsins er fjölbreyttur og er hann skráður og lánaður út í Gegni, landskerfi bókasafna en hann er eftirfarandi.

Bókaeign: 12.130 (11.902) eintök, 10.751 (10.704) titlar eftir afskriftir.
Timarit: 50 (50) tímarit berast reglulega, sum án þess að greitt sé fyrir þau.
Nýsigögn: 1.292 eintök (1301): 186 myndbönd, 58 hljóðsnældur, 11 skyggnusett, 132 hljómplötur og -diskar, 120 kort, 19 tölvuforrit, 1 glærusett, 18 margmiðlunardiskar, 734 mynddiskar og 13 spilasett.
Afskriftir: 127 (304) eintök bóka, 1 mynddiskur, 1 tölvuforrit, 10 hljómdiskar og 16 margmiðlunardiskar.
Aðföng bóka: 228 eintök (242) þ.e. fyrir afskriftir.
Gjafir: 25 eintök (48).

Útlán
Útlán voru alls 4.714 þar af innanhússlán 2.826. Millisafnalán voru 25.

Rekstrarkostnaður 2020 2021
Bækur, tímarit og annað safnefni 998.867 913.041
Gegnir – bókasafnskerfi 530.748 558.600
Gagnasöfn og vefbækur 318.986 301.872
Annar kostnaður 180.811 208.309
Samtals: 2.029.412 2.008.309

Gagnasöfn og vefbækur
Bókasafnið tekur þátt í að greiða fyrir landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum í gegnum vefinn hvar.is. Bókasafnið greiðir fyrir áskrift að vefbókasafninu snara.is og er aðgangur opinn öllum í skólanum.

Húsnæði
Engar endurbætur voru gerðar á húsnæði safnsins á árinu.


Búnaður
Í október voru keyptir þrír hleðslubankar vegna aukinnar eftirspurnar hjá nemendum. Á skólaárinu bættust við átta fartölvur sem lánaðar eru nemendum innan skólans. Á safninu eru nú alls 15 fartölvur sem nemendur hafa aðgang að og eru þær mikið notaðar. Þóra Kristín fékk nýja fartölvu í maí.

Notendafræðsla
Þjónusta bókasafnsins var kynnt fyrir nemendum í móttöku fyrir nýnema bæði á haustönn. Á haustönn fengu nemendur í lífsleikni alls átta hópar fræðslu um skipulag safnsins og þjónustu auk tilsagnar í upplýsingaleit, heimildanotkun og leystu verkefni í bókasafnskerfinu Gegni og fleiri gagnagrunnum (2 klst.). Nemendur í UPPÆ1SR05 alls átta hópar fengu safnkennslu og leystu einnig verkefni í Gegni (2 klst.). Nemendur í TAMS3TT05 fengu tilsögn í vali á heimildum og áreiðanleika heimilda auk kennslu í upplýsingaöflun með áherslur á gagnagrunna í heilbrigðisgeiranum (1 klst.). Á vorönn fengu tveir hópar í ÍSLE2HMO5 tilsögn í heimildaleit, vali á heimildum og áreiðanleika heimilda (1 klst.).

Nemendur í kennsluréttindanámi fengu tilsögn í því hvernig nýta má safnið í kennslu og þeim bent á möguleika í samstarfi bókasafnsfræðinga og kennara. Auk þess var fjallað um upplýsingalæsi (1 klst.).

Almannatengsl
Gestum sem koma í heimsókn í skólann er oftast boðið að skoða safnið. Þegar skólinn er kynntur fyrir foreldrum nýnema er bókasafnið opið og er þeim þá sagt frá starfsemi safnsins. Heimasíða bókasafnsins er í virkri endurskoðun. Þar er að finna upplýsingar um starfsemi safnsins svo sem afgreiðslutíma, safnkost, tengla á gagnlegt rafrænt efni og ýmsar leiðbeiningar um heimildaleit og heimildaskráningu. Þóra Kristín sat fyrir svörum tveggja sérfræðinga vegna ytri úttektar á starfsemi skólans þann 25. mars. Opið hús var í skólanum 29. mars og gáfu gestir sér tíma til að skoða safnið.

Kennsla, námskeið, fundir ofl.
Þóra Kristín kenndi áfangann SKJA1SV02 í fjarnámi á vorönn og sótti landsfund Upplýsingar sem haldinn var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 23.-24. september. Samstarf hefur helst verið við bókasafnsfræðinga í öðrum framhaldsskólum sem funda reglulega yfir veturinn. ÞKS tók að sér að vera trúnaðarmaður í SBU fyrir hönd framhaldsskólahópsins ásamt Elínu Kr. Guðbrandsdóttur í FSU. Bókasafnsfræðingur sér um að uppfæra bókalista í Innu. ÞKS fór í vel heppnaða skólaheimsókn til Toronto með starfsmönnum FÁ í lok vorannar. Í byrjun júní fór Þóra Kristín ásamt 13 öðrum bókasafnsfræðingum í framhaldsskólum í fræðsluferð til Helsinki og nágrenni til að skoða skóla og bókasöfn auk listasafna. Fenginn var styrkur frá Erasmus+ til ferðarinnar. Ferðin heppnaðist í alla staði vel og var einkar áhugaverð og fræðandi.

Annað
Starfið í vetur hefur gengið vel. Notendur safnsins eru duglegir að nýta sér aðstöðu bókasafnsins og þá þjónustu sem er í boði. Bókasafn FÁ ber fyrst og fremst að þjóna nemendum og starfsfólki skólans. Þarfir nemenda og starfsfólks eru jafn margvíslegar og einstaklingarnir eru margir.

Bókasafnið er staður sem nemendur og starfsfólk koma til að grípa í áhugavert efni, slaka á eða sinna áhugamálum og námi á milli tíma. Vellíðan safngesta skiptir því miklu máli í bókasafnsumhverfinu sem og öðru námsumhverfi. Bókasafnið er mikilvægur þáttur í fjölbreyttu skólastarfi og mun halda áfram að vaxa og þroskast í takt við breyttar þarfir í því upplýsingasamfélagi sem við búum í. Það að virkja gagnrýna hugsun í vali á efni svo sem rafrænu og prentuðu heldur áfram að vera okkar helsta áskorun.

Reykjavík 13. júní 2022

Þóra Kristín Sigvaldadóttir