Ársskýrsla 2022/2023

Ársskýrsla bókasafns Fjölbrautaskólans við Ármúla
Skólaárið 2022-2023

Starfsmenn
Þóra Kristín Sigvaldadóttir forstöðumaður í fullu starfi.

Starfsemi (tölur í svigum frá síðasta ári)
Notendur: Nemendur í dagskóla voru á haustönn 888 (859) en á vorönn 759 (760). Fjarnemendur á haustönn voru 1.193 (1.076) en 1.238 (1.295) á vorönn. Starfsmenn skólans eru 119 (109).
Safnið er opið: Mánudaga - fimmtudaga kl. 8:00 - 16:30 og föstudaga kl. 8:00 -15:00.

Í byrjun haustannar voru allar bókahillur safnsins þrifnar og bókakostur yfirfarinn ásamt handbókum og orðabókum í kennslustofum. Nýjum bókum er stillt upp á hringekju í miðju safninu til að vekja athygli nemenda og starfsmanna á þeim. Til að hvetja til aukins lesturs er bókum og öðru efni sérstaklega stillt upp í tengslum við viðburði eins og Dag íslenskrar tungu, afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Bókasafnsdaginn og Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Safnkostur
Safnkostur bókasafnsins er fjölbreyttur og er hann skráður og lánaður út í Alma, landskerfi bókasafna en hann er eftirfarandi.

Bókaeign: 12.196 (12.130) eintök, 10.812 (10.751) titlar eftir afskriftir.
Tímarit: 49 (50) tímarit berast reglulega, sum án þess að greitt sé fyrir þau.
Nýsigögn: 1.309 eintök (1.292): 184 myndbönd, 58 hljóðsnældur, 11 skyggnusett, 132 hljómplötur og -diskar, 120 kort, 19 tölvuforrit, 1 glærusett, 18 margmiðlunardiskar, 746 mynddiskar og 20 spilasett.
Afskriftir: 133 (127) eintök bóka, 2 myndbönd.
Aðföng bóka: 228 eintök (242).
Gjafir: 25 eintök (48).

Útlán
Útlán voru alls 7.689 þar af innanhússlán 5.854. Millisafnalán voru 15.

Rekstrarkostnaður 2021 2022
Bækur, tímarit og annað safnefni 913.041 852.651
Gegnir – bókasafnskerfi 558.600 592.064
Gagnasöfn og vefbækur 301.872 315.252
Annar kostnaður 208.309 217.384
Samtals: 2.008.309 1977.351

Gagnasöfn og vefbækur
Bókasafnið tekur þátt í að greiða fyrir landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum í gegnum vefinn hvar.is. Bókasafnið greiðir fyrir áskrift að vefbókasafninu snara.is og er aðgangur opinn öllum í skólanum.

Húsnæði
Síðastliðið sumar var skipt um loftljós.

Búnaður
Í október voru keyptir fimm hleðslubankar vegna aukinnar eftirspurnar hjá nemendum. Á skólaárinu bættust við fimm fartölvur sem lánaðar eru nemendum innan skólans. Á safninu eru nú alls 20 fartölvur sem nemendur hafa aðgang að og eru þær mikið notaðar.

Notendafræðsla
Þjónusta bókasafnsins var kynnt fyrir nemendum í móttöku fyrir nýnema á haustönn. Á haustönn fengu nemendur í lífsleikni alls átta hópar fræðslu um skipulag safnsins og þjónustu auk tilsagnar í upplýsingaleit, heimildanotkun og leystu verkefni í bókasafnskerfinu Ölmu og fleiri gagnagrunnum (2 klst.). Nemendur í UPPÆ1SR05 alls fjórir hópar fengu safnkennslu og leystu einnig verkefni í Ölmu (2 klst.). Nemendur í TAMS3TT05 og HJÚ3L003 fengu tilsögn í vali á heimildum og áreiðanleika heimilda auk kennslu í upplýsingaöflun með áherslur á gagnagrunna í heilbrigðisgeiranum (1 klst.). Á vorönn fengu tveir hópar í ÍSLE2HMO5 tilsögn í heimildaleit, vali á heimildum og áreiðanleika heimilda (1 klst.).

Nemendur í kennsluréttindanámi fengu tilsögn í því hvernig nýta má safnið í kennslu og þeim bent á möguleika í samstarfi bókasafnsfræðinga og kennara. Auk þess var fjallað um upplýsingalæsi (1 klst.).

Almannatengsl
Gestum sem koma í heimsókn í skólann er oftast boðið að skoða safnið. Þegar skólinn er kynntur fyrir foreldrum nýnema er bókasafnið opið og er þeim þá sagt frá starfsemi safnsins. Heimasíða bókasafnsins er í virkri endurskoðun. Þar er að finna upplýsingar um starfsemi safnsins svo sem afgreiðslutíma, safnkost, tengla á gagnlegt rafrænt efni og ýmsar leiðbeiningar um heimildaleit og heimildaskráningu. Opið hús var í skólanum 23. mars og var gaman að sjá að margir gestir gáfu sér tíma til að skoða bókasafnið.

Kennsla, námskeið, fundir ofl.
Þóra Kristín kenndi áfangann SKJA1SV02 í fjarnámi á vorönn og sótti málþing Upplýsingar Bókasafn framtíðarinnar sem var haldið 18. nóvember í húsi Menntavísindasviðs HÍ. Þóra Kristín sat einnig Grósku vorráðstefnu Upplýsingar, Aleflis og Landskerfibókasafna sem haldin var 25. maí í Háskólanum í Reykjavík. Þóra Kristín hefur sótt námskeið og fræðslufundi um nýja bókasafnskerfið Ölmu í vetur og tók þátt í sjálfsvarnarnámskeiði í nóvember sem haldið var í húsnæði Mjölnis fyrir starfsmenn FÁ.

Samstarf hefur helst verið við bókasafnsfræðinga í öðrum framhaldsskólum sem funda reglulega yfir veturinn. Bókasafnsfræðingur sér um að uppfæra bókalista í Innu.

Annað
Starfið í vetur hefur gengið vel. Notendur safnsins eru duglegir að nýta sér aðstöðu bókasafnsins og þá þjónustu sem er í boði. Bókasafn FÁ ber fyrst og fremst að þjóna nemendum og starfsfólki skólans og veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi án tillits til félagslegrar stöðu eða uppruna notenda. Bókasafnið er staður sem nemendur og starfsfólk koma til að grípa í áhugavert efni, slaka á eða sinna áhugamálum og námi á milli tíma. Vellíðan safngesta skiptir því miklu máli í bókasafnsumhverfinu sem og öðru námsumhverfi. Bókasafnið er mikilvægur þáttur í fjölbreyttu skólastarfi og mun halda áfram að vaxa og þroskast í takt við breyttar þarfir í því upplýsingasamfélagi sem við búum í. Það að virkja gagnrýna hugsun í vali á efni svo sem rafrænu og prentuðu heldur áfram að vera okkar helsta áskorun.

Í júní tóku íslensk bókasöfn í notkun bókasafnskerfið Alma. Gamli Gegnir/Aleph var lagður niður þann 31. maí og nýr Gegnir/Alma tekinn í notkun 13. júní. Innleiðing kerfisins hefur staðið yfir hjá Landskerfum og bókasöfnum landsins síðan í lok árs 2020 og því er ánægjulegt að kerfið sé nú loks komið í gang. Alma er veflægt og nútímalegt bókasafnskerfi og er aðgangur að kerfunum í gegnum netið . Með nýju kerfi hefur leitargáttin leitir.is tekið breytingum. Bókasafnið hefur fengið eigin slóð á leitarsíðu fa.leitir.is. Á þessari síðu er hægt að leita í bókakosti FÁ og öðru efni sem FÁ hefur aðgang að.

Drjúgur tími hefur farið í að læra og kenna á Ölmu og enn á eftir að innleiða nokkur atriði sem eru í vinnslu hjá framleiðendum kerfisins.

Reykjavík 7. júní 2023

Þóra Kristín Sigvaldadóttir