Fyrirkomulag náms og kennslu

Námsfyrirkomulag

  • Á upphafsdegi annar fá nemendur send aðgangsorð að námsumhverfi Moodle í tölvupósti frá þjónustuveri skólans.
  • Inn í hverjum áfanga eru upplýsingar um markmið áfanga og áætlaða yfirferð í kennsluáætlun. Einnig eru upplýsingar um námsefni, ítarefni og námsmat. Námsmat í áfanga er fjölbreytt og er mismunandi eftir áföngum sem og vægi þess. Í lok annar eru skrifleg lokapróf, í húsnæði FÁ. Nemendur geta óskað eftir að taka próf utan FÁ.
  • Það er mikilvægt fyrir nemanda að fylgja yfirferð námsefnis, lesa og skrá hjá sér allar upplýsingar sem kennari setur fram, fylgja tímaramma kennslunnar, leysa/skila inn verkefnum og þreyta hlutapróf á önninni. Hvert einkunnarstig skiptir máli í lokaeinkunn.
  • Sveigjanleiki er einkunnarorð fjarnáms FÁ en hann er ekki sjálfgefinn. Ef nemandi getur ekki staðið við tímasetningar sem kennari setur fram er það á hans ábyrgð að óska fyrirfram eftir sveigjanleika við kennara.
  • Vakni spurningar sem ekki eru svör við í áfanga er hægt að senda fyrirspurn til kennara inn í Moodle og ber honum að svara innan tveggja sólarhringa. Moodle er lokað námsumhverfi og eiga samskipti á milli nemenda og kennara fjarnámsins að fara fram innan þess.
  • Sjálfsagi er mikilvægur í fjarnámi enda er fjarnám FÁ sjálfsnám. Skipulag og virkni skiptir miklu máli. Hér eru góðir punktar frá námsráðgjöfum skólans til að styðjast almennt við í námi og hér er viðtal á RUV við Sigrúnu, námsráðgjafa skólans, sem veitir góð ráð.

Námsefni

  • Bókalista má nálgast á heimasíðunni t.d. með því að skoða áfangalýsingar fjarnámsins. Í sumum tilvikum er námsefni inn í Moodle sem og ítarefni.
  • Helstu bókaverslanir í Reykjavík selja þær bækur sem notaðar eru í kennslunni og er hægt að panta þær hjá þeim ef nemendur búa úti á landi. Reynt er að tryggja nægilegt magn bóka. Hafðu samband við kennara ef þú lendir í vandæðum með að útvega námsgögn.

Námsmat í áfanga

  • Námsmat í áfanga er fjölbreytt og er mismunandi eftir áföngum sem og vægi þess.
  • Nemandi þarf að ná lágmarkseinkunn 4,5 á lokaprófi, áður en einkunnir fyrir próf og/eða verkefni sem unnin eru á önninni eru reiknaðar inn í lokaeinkunn.
  • Þetta þýðir að einkunnir í prófum og verkefnum sem unnin eru á önninni geta hækkað lokaeinkunn upp í lágmark í áfanganum hafi nemandi náð 4,5 á lokaprófi. Þetta getur einnig þýtt að ef einkunnir fyrir próf og verkefni sem unnin eru á önninni eru slakar getur það orðið til þess að nemandi stenst ekki áfanga, jafnvel þó einkunn í lokaprófi hafi verið hærri en 4,5. Hér þarf að huga að vægi námsþátta í áfanga, þ.e.a.s. vægi lokaprófs annars vegar og vægi prófa/verkefna sem unnin eru á önninni hins vegar.
Síðast uppfært: 26. september 2024