Tæplega 40 nemendur í fjallgönguáfanganum í FÁ lögðu land undir fót síðasta laugardag þegar þeir fóru í fjallgöngu upp í Bláfjöll með kennarurunum Þórhalli og Hrönn. Nutu þau veðurblíðunnar og glæsilegs útsýnis af tindunum.
Sérnámsbraut skólans hélt opið hús í síðustu viku, en kvöldið var fjáröflun fyrir útskriftarhóp brautarinnar. Nemendurnir sáu að mestu um skipulagninguna og boðsgestir voru nemendur sem útskrifuðust síðasta vor auk útskriftarhópsins næsta vor. Aðgangseyrir var 1500 krónur og innifalið í því voru nokkrar sneiðar af pítsu, gos og happdrættismiði. Þá var karókí í gangi, skutlukeppni og nemendurnir seldu penna merkta deildinni. Virkilega skemmtileg kvöldstund.
Nemendur í Afbrotafræði hjá Söru fóru í heimsókn í Fangelsismálastofnun þann 22. október. Þar fengu þau fræðandi kynningu á starfsemi stofnunarinnar, hlutverki fangelsa og þeim áskorunum og tækifærum sem felast í endurhæfingu og samfélagsþjónustu. Kynningin var bæði upplýsandi og áhugaverð, og nemendur voru afar ánægðir með heimsóknina.
Við þökkum starfsfólki Fangelsismálastofnunar kærlega fyrir hlýjar móttökur.
Fjölbrautaskólinn í Ármúla hefur látið framleiða ný kynningarmyndbönd fyrir tvær af heilbrigðisbrautum skólans; sjúkraliðabraut og heilsunuddbraut.
Markmið myndbandanna er að kynna nám og starfsmöguleika á þessum sviðum og vekja áhuga nemenda á störfum í heilbrigðisþjónustu og heilsueflingu.
Myndböndin voru unnin af Sahara auglýsingastofu í samstarfi við starfsfólk og nemendur skólans. Þau verða notuð í kynningarefni FÁ, bæði á samfélagsmiðlum og á vef skólans.
Hér má sjá myndböndin ásamt öðrum kynningarmyndböndum fyrir heilbrigðisbrautir skólans.