Fréttir & tilkynningar

Halla Tómasdóttir forseti Íslands í FÁ

04.10.2024
Í gær fengum við Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands og fyrrum nemanda skólans í heimsókn. Heimsókn Höllu var hluti af verkefninu „Riddarar kærleikans“ þar sem hún ræðir við ungt fólk um hvernig við getum gert kærleikann að okkar eina vopni. Hópur nemenda úr skólanum settist niður með forsetanum, mynduðu kærleikshring og ræddu af einlægni hvernig við bætum andlega líðan og samfélagið okkar með kærleik. Unga fólkið var mjög áhugasamt og voru umræðurnar góðar og uppbyggilegar. Halla sagði nemendum einnig frá veru sinni hér í skólanum. Eftir kærleikshringinn rölti forsetinn um gamla skólann sinn, fann gömlu útskriftarmyndina sína upp á vegg sem henni fannst mjög skemmtilegt. Svo heimsótti hún nokkrar kennslustundir. Nemendur skólans tóku mjög vel á móti henni og var hún óspör á knúsin, handaböndin og myndatökurnar. Í lokin var hún leyst út með gjöf frá skólanum, taupoka og bolla með merki skólans frá Magnúsi skólameistara. Við þökkum Höllu kærlega fyrir heimsóknina og er það okkar einlæga von að við öll gerum kærleikann að eina vopninu í íslensku samfélagi.

Fréttabréf FÁ - október

03.10.2024
Hér kemur nýjasta fréttabréf FÁ, beint úr prentsmiðjunni. Fjölbreytt efni að vanda, farið er yfir það helsta sem er á döfinni og hvað við erum búin að gera í september. Næsta fréttabréf kemur út um miðjan nóvember.

Umhverfisráð FÁ fær styrk úr Loftslagssjóði Reykjavíkurborgar

30.09.2024
Borgarráð hefur samþykkt að veita 500.000 króna styrk fyrir verkefninu „Loftslagspartý framhaldsskólanna“. Verkefnið gengur út á að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda stóran loftslagsviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar Fjölbrautaskólans við Ármúla í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund. Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja loftslagsviðburðinn saman og verður hann haldinn fyrir lok árs. Loftslagssjóður ungs fólks í Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg philanthropies. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en sjóðurinn veitir styrki til verkefna sem eru hönnuð og unnin af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og hafa beina skírskotun í loftslagsáætlun borgarinnar. Styrkurinn var afhentur við fallega athöfn í Höfða í dag og mættu fulltrúar frá umhverfisráði FÁ á afhendinguna, þær Thelma Rut Þorvaldsdóttir og Bríet Saga Kjartansdóttir. Við óskum þeim og umhverfisráðum skólanna innilega til hamingju með styrkinn.

Íþróttavika og skautaferð

30.09.2024
Það var mikið um að vera í FÁ í síðustu viku þegar haldin var íþrótta- og forvarnarvika samhliða Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport). Boðið var upp á frábæra og fjölbreytta dagskrá eins og instagram leik, hoppukastala, boðið var upp á ávexti, bekkpressukeppni, treyjudagur ofl. Bryndís Lóa skólasálfræðingur var með áhugaverðan fyrirlestur fyrir alla nýnema og aðra áhugasama um áföll og mýtur. Hápunktur vikunnar að vanda var skautaferðin í Skautahöllina í Laugardalnum. Þar skemmtu um 200 nemendur sér á skautum, alltaf jafn gaman.