Tanntæknabraut

Námið

Nám tanntækna er viðurkennt starfsnám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum brautar. Meginmarkmið náms fyrir tanntækna er að undirbúa nemendur undir sérhæfð störf á tannlæknastofum og öðrum störfum er snúa að munn- og tannheilbrigði. Í náminu er lögð áhersla á fagleg vinnubrögð, yfirsýn, góð samskipti, áreiðanleika og hæfni til að vinna sjálfstætt. Starfsheiti tanntækna er lögverndað.

Námið sem er samtals 203 einingar, skiptist í bóklegar greinar (137 ein) og verklegar námsgreinar (66 ein) sem kenndar eru í samvinnu við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Náminu lýkur með prófi til starfsréttinda á þriðja þrepi og skiptast námsgreinar á þrep eins og hér segir 20% á fyrsta þrepi, 52% á öðru þrepi og 28% á þriðja þrepi. Nemendur þurfa að hafa lokið öllum bóklegum greinum áður en hægt er að sækja um verklegt nám.

                                                           

Inntökuskilyrði

Skilyrði fyrir inntöku á tanntæknabraut er grunnskólapróf. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum (íslensku,stærðfræði, ensku og dönsku), þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum.

Til að hefja verklegt nám þarf nemandi að hafa náð 18 ára aldri. Verklegt nám, sem er unnið í samstarfi við Tannlæknadeild Háskóla Íslands, tekur tvær annir. Tólf nemendur eru teknir inn á hverju hausti í verklegt nám sem lýkur með útskrift á vorönn.

Tanntæknabraut (pdf)

Tanntæknabraut (excel)

Síðast uppfært: 11. september 2024