- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Skrifstofa
- Stoðþjónusta
- Þjónusta við nemendur
- Heilbrigðisskólinn
- Fjarnám
Nám á braut fyrir Hjúkrunar- og móttökuritara hófst á haustönn 2002. Fyrstu nemendur voru útskrifaðir á vorönn 2004. Námsbrautin var endurskoðuð árið 2008 og tók ný námsskrá gildi þá um haustið með nýju nafni, heilbrigðisritarabraut.
Markmið náms heilbrigðisritara er að nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu, viðhorf og færni til þess að stunda ritarastörf á heilbrigðisstofnunum. Að nemendur geti unnið í samvinnu við aðra og að þeir geti tekist á við raunverulegar aðstæður úti á stofnunum. Um er að ræða sérhæfð ritarastörf sem krefjast fagmennsku.
Til þess að ná góðum árangri í starfi þarf viðkomandi að hafa gott vald á íslensku og eiga auðvelt með mannleg samskipti, búa yfir umtalsverðri tölvukunnáttu, sérstaklega í ritvinnslu og sérhæfðum forritum um sjúklinga- og starfsmannabókhald hvers konar, auk þekkingar á hagnýtri notkun upplýsingatækninnar. Jafnframt er nauðsynlegt að þekkja til algengustu hugtaka sem lækningar og hjúkrun byggjast á og hafa innsýn í hugmyndafræði og skipulag heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þá þarf að hafa innsýn í siðfræðileg málefni er varða gagnaöflun, meðferð persónuupplýsinga og faglegan metnað.
Skilyrði til innritunar í nám á heilbrigðisritarabraut er grunnskólapróf. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum (íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku), þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum.
Nemendur skulu hafa náð 18 ára aldri þegar þeir hefja vinnustaðanám.