„Ef maður leggur sig fram, getur maður allt“

Þrjár ungar og efnilegar stúlkur; Ngan Kieu Tran, Dana Zaher og Diana Al Barouki eru á meðal þeirra sem útskrifuðust frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í dag. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa flutt til Íslands árið 2022, tileinkuðu sér íslenskuna á mettíma og hafa náð ótrúlegum árangri.

 

Ngan er frá Víetnam og er dúx skólans með meðaleinkunn upp á 9,82. Dana og Diana eru frá Sýrlandi og eru báðar með meðaleinkunn yfir 9, Diana var semidúx með meðaleinkunn upp á 9.38 og Dana með 9.18.  Þær hafa því á þessum skamma tíma ekki einungis tileinkað sér nýtt tungumál heldur einnig staðið sig einstaklega vel í námi og félagslífi.

Nýtt líf í nýju landi.

Allar þrjár fluttu þær hingað með fjölskyldum sínum í leit að öryggi og betri framtíð. Þær segja Ísland hafa veitt sér rými til að vaxa, læra og finna frelsi til að vera þær sjálfar.

Diana og Dana flúðu stríðsástand í borginni Sweida í Sýrlandi ásamt fjölskyldum sínum. „Við vildum lifa í landi þar sem við getum látið drauma okkar rætast,“ segir Diana.

„Við vildum öruggan stað til að búa á,“ segir Dana. „Ísland hefur gefið okkur tækifæri til að vera örugg, læra og byggja okkur framtíð.“

Ngan kom til Íslands með fjölskyldu sinni frá Ho Chi Minh borg í Víetnam. Móðir hennar fékk starf á Íslandi og sá tækifæri fyrir fjölskylduna til að byggja upp betra líf hér.

Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn eiga þær það sameiginlegt að hafa lagt mikla vinnu í íslenskuna og það hefur skilað sér.

Ngan

Dana

Diana

Árangurinn kom ekki af sjálfu sér

Þær lýsa því allar að námið hafi verið krefjandi, sérstaklega í upphafi en með mikilli vinnu hafi þær náð tökum á íslenskunni.

„Ég æfði mig mikið, talaði við Íslendinga og lærði mjög mikið,“ segir Dana. „Það er erfitt í byrjun, sérstaklega beygingar, en ef maður heldur áfram þá fer manni fram dag frá degi.“

Diana tekur undir: „Ég lærði stöðugt og markvisst. Ég las bækur, skrifaði glósur og passaði mig að æfa mig daglega. Mottóið mitt í lífinu er þolinmæði, vilji og að halda áfram.“

Diana segir einnig mikilvægt að temja sér jákvætt hugarfar og gefast ekki upp. „Ég sagði við sjálfa mig: „Ég get þetta, bara halda áfram og æfa mig“ og það virkaði.“

Ngan segir að hún hafi þurft að leggja hart að sér til að fylgja náminu: „Ég gat ekki alltaf skilið kennarana í byrjun, svo ég las efnið aftur heima og gerði allar æfingarnar. Henni fannst erfiðast að læra um kyn orða í byrjun, en núna eru það beygingarnar.“

Ngan er metnaðarfull og stefnir aldrei á meðaltal og setur sér há markmið. „Engin ráð virka ef maður vill það ekki sjálfur.“

Dana segir einnig að kennararnir hafi skipt sköpum: „Þeir voru alltaf tilbúnir að hjálpa og fundu leiðir sem hentuðu okkur.“

Mikill munur á námi og samfélagi

Skólakerfið í Sýrlandi, Víetnam og Íslandi er ólíkt. Í Sýrlandi og Víetnam er mikið lagt upp úr utanbókarlærdómi og þarf að ná háum einkunnum til að komast áfram í lífinu. Námsumhverfið er strangara og svigrúm til að velja eigin brautir afar lítið. Í Sýrlandi er ekkert val í boði, allir þurfa að fara sömu leið. Námið í Víetnam er einnig mjög krefjandi: „Við lærum 14-15 fög samtímis og ef maður fellur í einu, þarf maður að endurtaka allt árið. Hér á Íslandi er meira svigrúm og áhersla á skapandi nálganir, sérstaklega í vísindagreinum.“

Þær segja að íslenska skólakerfið sé opnara og sveigjanlegra. „Á Íslandi fáum við meira frelsi til að læra á eigin forsendum og áherslan er á gagnrýna hugsun og sjálfstæði,“ segir Ngan.

Þær Dana og Diana hafa báðar tekið virkan þátt í félagslífi FÁ, aðallega í gegnum myndlist. Þær hafa sýnt verk sín á listsýningum á vegum skólans, m.a. í Hinu Húsinu. Þá segist Dana hafa eignast góða vini bæði íslenska og erlenda og segir að þeim hafi öllum verið mjög vel tekið í FÁ. Ngan ákvað að setja námið í forgang, en segir þó með bros á vör: „Ég eignaðist mínar bestu vinkonur – Dönu og Diönu!“

Allar starfa þær hjá Dósaverksmiðjunni sem er tungumálaskóli. Þær starfa sem leiðbeinendur og aðstoða þar fólk sem er að læra að lesa á íslensku.

Þeim finnst íslensk ungmenni hafa mikið frelsi í daglegu lífi, samanborið við jafnaldra þeirra í heimalöndunum, sem þurfa að fylgja ákveðnum reglum sem eru oft settar fjölskyldu og samfélaginu. „Mér finnst hvorugt betra eða verra, báðar nálganir hafa sína kosti og jákvæðar hliðar.“ segir Dana.

Diana og stelpurnar héldu útskriftarræðu

Diana flutti lag á fiðlu í útskriftinni

Ráð til annara

Ráð þeirra til annarra í svipaðri stöðu eru einföld og áhrifarík: Gefstu aldrei upp því æfingin skapar meistarann. Talaðu tungumálið, lestu, hlustaðu og lærðu og hafðu trú á sjálfum þér.

Dana segir lykilinn að góðum árangri vera að gefast ekki upp og gera sitt besta. Hún hvetur nýja Íslendinga til að sýna þolinmæði og trúa á sjálfa sig.

Framtíðardraumar

Eftir útskrift stefna allar þrjár í háskólanám. Diana ætlar í tölvunarfræði í HR. Ngan stefnir á heilbrigðisverkfræði í HR og segir það leið sem sameinar áhuga hennar á vísindum og heilsu. Dana stefnir á að læra lögfræði í HR. „Ég hef alltaf haft áhuga á réttlæti og vil leggja mitt af mörkum til samfélagsins.“

Allar vilja þær vera áfram á Íslandi. „Mér líður vel hér, og Ísland hefur gefið mér tækifæri til að blómstra,“ segir Diana.

„Ég elska þetta land,“ segir Dana. „Það hefur gefið okkur nýtt upphaf,“ bætir Diana við.

Það er óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá Dönu, Diönu og Ngan. Starfsfólk Fjölbrautaskólans við Ármúla er stolt af því að hafa fengið að kynnast þessum flottu ungu konum. Við óskum þeim hjartanlega til hamingju með útskriftina og árangurinn og hlökkum við til að fylgjast með þeim vaxa og dafna í framtíðinni.

Stelpurnar með Kristrúnu og Magnúsi

Ngan með Kristrúnu og Magnúsi

Stoltar fjölskyldur

 

Umfjöllun á mbl.is

Umfjöllun á ruv.is

Umfjöllun á visir.is