12.11.2025
Núna í vikunni erum við með gesti frá Salamanca á Spáni. Þær Yoanna, Carmen og Eva kenna á heilbrigðisbraut í I.E.S. Martínez skólanum sem er í Salamanca. Þær eru hér til að kynna sér betur starfið í skólanum og þá sérstaklega í Heilbrigðisskólanum. Við bjóðum þær velkomnar!
11.11.2025
Fjallgönguhópurinn í FÁ fór í tvær síðustu göngur annarinnar núna í byrjun nóvember. Þann fyrsta nóvember fór hópurinn að Helgafelli í Hafnarfirði og gengu þar hring í kringum Valahnjúka. Þann áttunda nóvember lá svo leiðin að Þingvöllum þar sem gengið var milli Gjábakka og Almannagjár, alls 9 km ganga.
Þátttakan í göngunum í haust hefur verið mjög góð og um 40 nemendur sem hafa tekið þátt í hverri göngu. Nemendur þurfa að fara í 2 fjallgöngur af fjórum til að fá íþróttaeiningu.
10.11.2025
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti FÁ á föstudaginn í síðustu viku ásamt fylgdarfólki úr ráðuneytinu. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna hugmyndir ráðuneytisins um nýjungar á framhaldsskólastiginu fyrir starfsfólki.
Ráðherrann fékk leiðsögn um skólann eftir fundinn og hitti nemendur og starfsfólk. Ráðherra og ráðuneytisfólki er þakkað kærlega fyrir innlitið.
06.11.2025
Við búum í heimi þar sem loftslagsbreytingar, mengun og sóun náttúruauðlinda eru ein stærsta áskorun samtímans. Með því að fræðast og sýna ábyrgð, jafnvel með litlum skrefum, getum við haft raunveruleg áhrif. Að slökkva ljós, velja vistvæna ferðamáta, eða huga að bættri endurvinnslu eru einföld dæmi um aðgerðir sem skipta máli þegar margir taka þátt.
En af hverju skiptir þetta raunverulega máli?
Umhverfisdagurinn er tækifæri til að staldra við og hugsa um hvernig daglegar venjur okkar hafa áhrif – hvort sem það er í skólanum, heima eða í samfélaginu. Hvernig við neytum, flokkum, ferðast og notum orku hefur bein áhrif á náttúruna og loftslagið.
Erik Steinn Halldórsson
Hasanain Saad Abdulhussein Alzuhairi
Iustin Andrei Calin
05.11.2025
Við erum nemendur að læra umhverfisfræði og við ætlum að segja ykkur frá henni.
Umhverfismál ættu að skipta okkur mjög miklu máli. Það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður um umhverfið og nátturuna. Umhverfisfræði er mjög fjölbreytt fræðigrein sem snertir mörg svið nátturunar og kennir manni að skilja umhverfið betur. Umhverfisfræði er þverfagleg grein sameinar efnafræði, jarðfræði, líffræði, heimspeki og fleiri greinar. Umhverfisfræðingar leitast við að bera kennsl á að minnka eða stoppa upptök mengunar eða öðrum hættum í umhverfinu. Þeir vinna með vísindalegar upplýsingar, oft úr mismunandi fræðigreinum, og byggja á þeim tillögur að aðgerðum. Einn helsti brautryðjandi umhverfisræðinnar er Rachael Carson, hún var bandarískur dýrafræðingur og sjávarlífræðingur. Eitt frægasta rit hennar er: Raddir vorsins þagna sem var gefið út árið 1962, bókin fjallaði um notkun skordýraeiturs, einkum DDT og áhrif sem þau hafa á náttúruna. Bókin hafði mikil áhrif í Bandaríkjunum og er talin hafa markað upphafið á umhverfishreyfingunni.
Halldór Egill og Elíeser Bergmann.
04.11.2025
Grímugerð í FÁ 👹🤡👿👺👽
Nemendur í áfanganum þrívíð formfræði í FÁ hafa nýlokið við spennandi verkefni þar sem þau hönnuðu og smíðuðu einstakar og litríkar grímur👹
Nemendur nýttu meðal annars pappa, teip, málningu og ýmis endurunnin efni til að skapa grímur sem endurspegla bæði persónulegan stíl og skapandi hugsun.
Verkefnið sýnir vel hvernig list- og hönnunarnám í FÁ hvetur til sjálfstæðrar sköpunar og tilrauna í efnisvinnslu 🙂
23.10.2025
Tæplega 40 nemendur í fjallgönguáfanganum í FÁ lögðu land undir fót síðasta laugardag þegar þeir fóru í fjallgöngu upp í Bláfjöll með kennarurunum Þórhalli og Hrönn. Nutu þau veðurblíðunnar og glæsilegs útsýnis af tindunum.
22.10.2025
Sérnámsbraut skólans hélt opið hús í síðustu viku, en kvöldið var fjáröflun fyrir útskriftarhóp brautarinnar. Nemendurnir sáu að mestu um skipulagninguna og boðsgestir voru nemendur sem útskrifuðust síðasta vor auk útskriftarhópsins næsta vor. Aðgangseyrir var 1500 krónur og innifalið í því voru nokkrar sneiðar af pítsu, gos og happdrættismiði. Þá var karókí í gangi, skutlukeppni og nemendurnir seldu penna merkta deildinni. Virkilega skemmtileg kvöldstund.
20.10.2025
Nemendur í Afbrotafræði hjá Söru fóru í heimsókn í Fangelsismálastofnun þann 22. október. Þar fengu þau fræðandi kynningu á starfsemi stofnunarinnar, hlutverki fangelsa og þeim áskorunum og tækifærum sem felast í endurhæfingu og samfélagsþjónustu. Kynningin var bæði upplýsandi og áhugaverð, og nemendur voru afar ánægðir með heimsóknina.
Við þökkum starfsfólki Fangelsismálastofnunar kærlega fyrir hlýjar móttökur.
17.10.2025
Fjölbrautaskólinn í Ármúla hefur látið framleiða ný kynningarmyndbönd fyrir tvær af heilbrigðisbrautum skólans; sjúkraliðabraut og heilsunuddbraut.
Markmið myndbandanna er að kynna nám og starfsmöguleika á þessum sviðum og vekja áhuga nemenda á störfum í heilbrigðisþjónustu og heilsueflingu.
Myndböndin voru unnin af Sahara auglýsingastofu í samstarfi við starfsfólk og nemendur skólans. Þau verða notuð í kynningarefni FÁ, bæði á samfélagsmiðlum og á vef skólans.
Hér má sjá myndböndin ásamt öðrum kynningarmyndböndum fyrir heilbrigðisbrautir skólans.