FÁ hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2025

FÁ hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2025, við hátíðlega athöfn sem haldin var 9. október í hátíðarsal HÍ. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).

Jafnvægisvogina fá þau fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. 90 fyrirtæki, 22 opinberir aðilar og 16 sveitarfélög hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar þetta árið. FÁ er þar á meðal og tók Guðlaug Ragnarsdóttir jafnréttisfulltrúi FÁ við viðurkenningunni fyrir hönd skólans.

Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði með tölfræðilegum upplýsingum um jafnrétti. Þar koma fram helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, m.a. kynjahlutföll stofnenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra og stjórna.

Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2020 var kynntur nýr Jafnréttislundur FKA, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útvegaði Jafnvægisvoginni. Viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA fylgir tré að gjöf til gróðursetningar í Jafnréttislundi FKA, sem viðurkenningarhafar gróðursetja sjálfir í lundinum í dag, föstudaginn 10. október. Með því geta þátttakendur lagt sitt af mörkum til að draga úr kolefnisfótspori og jafnframt sýnt stuðning við jafnréttismál með táknrænum hætti.

Við val á trjám í lundinn er horft til þess að velja margar ólíkar tegundir af trjám, sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin stuðlar að. Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.

Við í FÁ erum afar ánægð og stolt með að vera í hópi þeirra flottu fyrirtækja sem hlutu Jafnvægisvogina í ár og höldum áfram að byggja upp vinnustað þar sem jöfn tækifæri og fjölbreytileiki eru í fyrirrúmi.