Fögnum íslenskri náttúru í dag og alla daga

Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlega við skólann þann 16. september. Fjörug dagskrá var við skólann að tilefninu. Umhverfisráð nemenda stóð fyrir ratleik fyrir nemendur þar sem þau fundu Grænfánann, rúlluðu sér niður brekkuna á skólalóðinni og skoðuðu plöntur í kringum skólann.

Sjálfbærninefnd skólans (starfsfólk og stjórnendur) stóð vaktina við flokkunartunnur og aðstoðaði nemendur í vafa við flokkun. Allar deildir skólans gróðursettu íslenskar plöntur á svæði á skólalóðinni sem síðar meir verður útikennslustofa. Nú á hver deild skólans sína plöntu og munu þær fylgjast vel með henni. Plönturnar sem urðu fyrir valinu í ár eru Bæjarstaðabirki og Kasmír-reynir.

Íslensk lög með umhverfisboðskap voru spiluð bæði í matsal skólans og á kaffistofu starfsfólks. Þátttaka í deginum var til fyrirmyndar og gaman að sjá hvað nemendur tóku virkan þátt í ratleiknum.

Dagur íslenskrar náttúru hefur verið haldinn hátíðlegur síðan árið 2011. Tilgangur dagsins er að beina sjónum okkar allra að hinni einstöku náttúru landsins, þeim auðæfum sem í henni felast og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar en hann hefur lengi verið ötull talsmaður náttúruverndar.