Nemar í FÁ með lausnir við heilasjúkdómum í Kaupmannahöfn

Nemendur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla tóku nýverið þátt í raungreinakeppninni "Drughunters" sem haldin var í Kaupmannahöfn. Keppnin er á vegum danska lyfjafyrirtækisins Lundbeck og felst í því að nemendur í framhaldsskólum frá Danmörku, Færeyjum og Íslandi velja sér heilasjúkdóm til að fjalla um. Nemendur læra að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um sjúkdóminn og lesa vísindagreinar. Þeir þróa svo í kjölfarið hugmynd að lyfi eða lækningu. Fyrir íslensku nemendurna er verkefnið þverfaglegt og sameinar raungreinar og dönsku. Nemendurnir hanna veggspjald með niðurstöðum sínum, kynna þær og svara spurningum dómnefndar á dönsku. Íslensku nemendurnir stóðu sig með prýði í keppninni og skemmtu sér konunglega.