Sjúkraliðabraut

Uppbygging brautar

Sju2

Sjúkraliðanám er 206 eininga nám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar. Nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar er bæði bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsnám á heilbrigðisstofnunum. Sjúkraliðanám tekur að jafnaði 3 ár eða 6 annir. Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Sjúkraliðanám getur verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Að lokinni brautskráningu frá skóla getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til Embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað.

Til að hefja nám á sjúkraliðabraut er nauðsynlegt að nemandi hafi staðist grunnskólapróf í samræmi við samræmt námsmat sem ráðuneytið birtir um viðmið við lok grunnskóla í almennum hluta Aðalnámsskrár grunnskóla. Gert er ráð fyrir því að nemendur hefji nám á sjúkraliðabraut á 2. þrepi í kjarnagreinum (stærðfræði, ensku og íslensku). Hver framhaldsskóli birtir inntökuskilyrði sjúkraliðabrautar í skólanámskrá sinni.

Skipulag námsins tekur mið af hæfnikröfum sjúkraliða og þeim kröfum sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið (mrn) setur um hæfniþrep áfanga og brauta. Nám í kjarnagreinum íslensku, ensku og stærðfræði ásamt námi í öðrum almennum greinum hefst á 1. önn. Gert er ráð fyrir í námskránni að nám í kjarnagreinum hefjist á 2. þrepi. Á annarri og þriðju önn bætast við framhaldsáfangar kjarnagreina og nám í heilbrigðisgreinum sem eru nauðsynlegir undanfarar náms í sérgreinum brautar og starfsnáms. Á 4.-6. önn eykst sérhæfing námsins ennþá frekar með námi í sérgreinum brautar og starfsnámi. Skólum er frjálst að flétta saman bóknámi og vinnustaðanámi að loknum fyrsta áfanga í bóklegri og verklegri hjúkrun samkvæmt skólanámskrá. Þannig getur vinnustaðanám farið fram á stofnunum samhliða bóknámi eða sem sérstök verkleg önn á námstíma.

Starfsnám skiptist í vinnustaðanám og starfsþjálfun, hvort tveggja á heilbrigðisstofnun. Skólar gera samkomulag við heilbrigðisstofnanir um vinnustaðanám og starfsþjálfun með hæfniviðmið brautar að leiðarljósi.

Nákvæm brautarlýsing er á Námskrá.is.

Smelltu á viðkomandi krækju hér fyrir neðan til að opna brautarlýsingu.

 

Sjúkraliðabraut
(skv. nýrri námskrá)
Excel / PDF

 

Sjúkraliðabraut
(skipting á annir)
Excel / PDF

 

 

(Síðast uppfært 28.10.2020)