Draumur um jökul

Nemendur úr umhverfisnefndum FÁ og MS fóru í síðustu viku á Sólheimajökul ásamt leiðsögumanni frá Asgard Beyond. Ferðin var hluti af verkefninu Draumur um jökul, sem er samstarfsverkefni skólanna og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, tileinkað alþjóðlegu ári jökla.

Þótt um 10% Íslands séu hulin jöklum, hafa fáir menntaskólanemendur komið upp á jökul. Í aðdraganda ferðarinnar fengu nemendurnir fræðslu frá Hrafnhildi Hannesdóttur, fagstjóra jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, sem sagði frá jöklum landsins og vísindum tengdum þeim. Þá undirbjuggu þau handrit og skipulögðu tökur á myndefni, með það markmið að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga.

Á Sólheimajökli fengu nemendurnir jöklabúnað, þar á meðal brodda, belti, axir og hjálma, áður en þau héldu að jökulsporðinum. Leiðsögumaðurinn Róbert fræddi þau um myndun jökla, af hverju þeir eru einkum að finna á suðausturhluta landsins og hvernig hlýnun loftslagsins hefur valdið miklum breytingum á jöklum Íslands.

Verkefnið Draumur um jökul snýst ekki aðeins um sjálfa jöklaferðina heldur einnig um skapandi miðlun og vitundarvakningu. Þrátt fyrir rigningu sem eru nánast daglegt brauð á Sólheimajökli, tókst nemendunum að safna fjölbreyttu myndefni, taka viðtöl sín á milli og ræða við jöklaleiðsögumanninn. Markmiðið er að miðla fróðleik um jökla, vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga og hvetja fleiri til að upplifa þessar einstöku náttúruperlur áður en þær hverfa.