Umhverfismál - fréttir

14.10.2025

Hvers vegna þurfum við að endurvinna gamla síma?

Í dag er alþjóðlegi rafrusladagurinn. FÁ tekur virkan þátt í deginum. Rafrusl eru öll raftæki, stór og smá; sem ekki eru lengur í notkun. Mikilvægt er að við komum þeim í réttan endurvinnslufarveg.
06.10.2025

Draumur um jökul

Nemendur úr FÁ og MS fóru í síðustu viku á Sólheimajökul ásamt leiðsögumanni frá Asgard Beyond. Ferðin var hluti af verkefninu Draumur um jökul, sem er samstarfsverkefni skólanna og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, tileinkað alþjóðlegu ári jökla.
17.09.2025

Fögnum íslenskri náttúru í dag og alla daga

Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlega við skólann þann 16. september. Fjörug dagskrá var við skólann að tilefninu. Umhverfisráð nemenda stóð fyrir ratleik fyrir nemendur þar sem þau fundu Grænfánann, rúlluðu sér niður brekkuna á skólalóðinni og skoðuðu plöntur í kringum skólann. Sjálfbærninefnd skólans (starfsfólk og stjórnendur) stóð vaktina við flokkunartunnur og aðstoðaði nemendur í vafa við flokkun. Allar deildir skólans gróðursettu íslenskar plöntur á svæði á skólalóðinni sem síðar meir verður útikennslustofa. Nú á hver deild skólans sína plöntu og munu þær fylgjast vel með henni. Plönturnar sem urðu fyrir valinu í ár eru Bæjarstaðabirki og Kasmír-reynir. Íslensk lög með umhverfisboðskap voru spiluð bæði í matsal skólans og á kaffistofu starfsfólks. Þátttaka í deginum var til fyrirmyndar og gaman að sjá hvað nemendur tóku virkan þátt í ratleiknum. Dagur íslenskrar náttúru hefur verið haldinn hátíðlegur síðan árið 2011. Tilgangur dagsins er að beina sjónum okkar allra að hinni einstöku náttúru landsins, þeim auðæfum sem í henni felast og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar en hann hefur lengi verið ötull talsmaður náttúruverndar.
23.04.2025

Skundað á Þingvöll

Nemendur í umhverfisfræði, ásamt kennurum, fóru í vettvangsferð á Þingvelli þar sem Torfi Stefán Jónsson, fræðslufulltrúi í þjóðgarðinum og fyrrum sögukennari við FÁ, tók vel á móti okkur að vanda. Nemendurnir hafa undanfarið verið að læra um friðlýst svæði á Íslandi og heimsóknin á Þingvelli var vissulega rúsínan í pylsuendanum á þeirri fræðslu. Það viðraði vel til útivistar og nemendur voru margs vísari eftir ferðina.
11.04.2025

Umhverfiskönnun

Á umhverfisdegi í mars var send út umhverfiskönnun á nemendur. Rúmlega 100 nemendur svöruðu umhverfiskönnuni. Þó við hefðum viljað hafa hærra svarhlutfall þá er ýmislegt áhugavert sem fram kemur í niðurstöðunum.
04.04.2025

Tíunda grænfánanum flaggað

Fjölbrautaskólinn við Ármúla fékk sinn tíunda Grænfána í gær, fimmtudaginn 3. apríl. FÁ var fyrsti framhaldsskólinn til að hljóta Grænfánann árið 2006 og hefur verið öflugt umhverfisstarf í skólanum síðan. Í umhverfisráði nemenda sitja níu nemendur skólans og í sjálfbærninefnd sitja 8 starfsmenn, tveir stjórnendur og tveir nemendur.
19.03.2025

Hvað geta ungmenni gert fyrir jörðina?

Í FÁ er starfandi frábært umhverfisráð sem vinnur að umhverfismálum í skólanum. Þau Matthildur Þóra og Guðmundur Ingi sem eru í umhverfisráði skrifuðu smá frétt sem birtist á visir.is í vikunni: Hvað geta ungmenni gert fyrir jörðina. Við hvetjum ykkur til að lesa þessa flottu frétt.
11.03.2025

Vilja vernda jökla á Íslandi

Nemendur í umhverfisráði skólans fóru í heimsókn í Mannréttindahúsið og kynntust þeirri starfsemi sem þar er. Mannréttindahúsið sameinar fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum. Þar er að finna t.d. KVAN, ÖBÍ réttindasamtök, UN Women á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna. Með í ferðinni voru nemendur frá nágrannaskólanum okkar, Menntaskólanum við Sund. Mikið og gott samstarf hefur verið á milli skólanna tveggja í starfi umhverfisráðanna. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um Mannréttindahúsið og eiga gott samtal við Pétur Hjörvar, tengilið UNESCO skólanna á Íslandi á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna. Hópurinn ræddi um mikilvægi jökla á Íslandi og sótti um styrk á vegum loftslagssjóðs Reykjavíkurborgar sem styður við vitundavakningu á loftslagsbreytingum meðal ungs fólks. Styrkumsóknin ber heitið „Draumurinn um jökul“ og ef styrkurinn fæst verður farið í jöklaferð með það fyrir augum að taka upp og miðla fræðslumyndbandi um jökla meðal ungmenna á Íslandi.
20.02.2025

A Green Day verkefnið

Á síðasta ári tók Fjölbrautaskólinn við Ármúla þátt í Erasmus verkefninu A Green Day í samstarfi við IES Tegueste frá Tenerife. Verkefnið byggði á samstarfi tveggja skóla þar sem markmiðið var að fræða hvorn annan um ýmis umhverfismál. FÁ hjálpaði IES Tegueste að undirbúa vinnu við umsókn um Grænfánann sem við höfum fengið afhentan í um 20 ár, fyrstir allra framhaldskóla. Í verkefninu fyrir hönd FÁ voru Andri Ingvason, Guðbjörg Eiríksdóttir og Tinna Eiríksdóttir en með þeim voru fimm nemendur sem stunda nám við skólann.
02.12.2024

Vel heppnuð Litlu jól framhaldsskólanna

Litlu jól framhaldsskólanna fóru fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fimmtudaginn 28. nóvember en viðburðurinn var haldinn af FÁ, Tækniskólanum og MS. Fjölmargir framhaldsskólanemar mættu á Litlu jólin og sló loftslagsvæna kakóið algjörlega í gegn hjá nemendum. Tilgangur viðburðarins var að fræða nemendur um loftslagsmál með skemmtilegum hætti. Hringrásarhagkerfið var allsráðandi á viðburðinum og hver einasta smiðja úthugsuð frá umhverfissjónarmiði. Viðburðurinn gekk afskaplega vel og söfnuðust 37 þúsund krónur til styrktar Barnaheilla.

Fréttir af umhverfismálum í FÁ.

Síðast uppfært: 23. apríl 2025