21.10.2020 Fréttir : Áframhaldandi fjarkennsla og haustfrí

Ágætu nemendur og forráðamenn,


Nú er 5. vika fjarnáms senn á enda og framundan er vetrarfrí hjá nemendum. Föstudaginn 23. og mánudaginn 26. október er engin kennsla í skólanum. Ég hvet nemendur til þess að njóta frísins vel, hlaða batteríin (eins og stundum er sagt) og ekki sakar að huga eitthvað að verkefnum. Vinna upp ef eitthvað hefur setið á hakanum að undanförnu.


Sóttvarnayfirvöld hafa boðað hertar sóttvarnareglur og á meðan þær reglur eru í gildi verður fjarkennsla við skólann. Um leið og slakað verður á reglum um skólahald, verður okkar fyrsti kostur að hefja öflugt staðnám að nýju.


Það er ljóst að nemendum gengur misjafnlega að fóta sig í því breytta námsfyrirkomulagi sem fjarnámið felur í sér. Ég hvet nemendur sem eiga í einhverjum erfiðleikum á þessum tímum að nýta sér þá frábæru stoðþjónustu sem er að finna í skólanum. Netföng og símanúmer er að finna á heimasíðu skólans www.fa.is.


Okkur er mjög umhugað um að allir nemendur okkar nái sem bestum árangri á þessari skrýtnu önn. Þar sem um símat er að ræða í flestum áföngum er svo mikilvægt að reyna að skila öllum verkefnum, þar sem hvert verkefni telur í lokin.


Enn og aftur biðjum við nemendur og forráðamenn um að fylgjast vel með fréttum á heimasíðu og Fésbókarsíðu skólans en þar verða settar inn upplýsingar um leið og eitthvað skýrist.


Með góðri kveðju,

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ

Lesa meira

12.10.2020 Fréttir : Vikan

Ágætu nemendur og forráðamenn,

Nú liggur fyrir að kennsla mun fara fram í fjarnámi á Teams samkvæmt stundatöflu í það minnsta til 19. október. Það er ljóst að fjarnám hentar nemendum misjafnlega en vegna fjölda smita í samfélaginu og hertra reglna heilbrigðisyfirvalda er fjarnámið eini kosturinn sem við höfum til að halda uppi kennslu í skólanum.

Fjarnám krefst þess að nemendur skipuleggi nám sitt enn betur en áður, og umfram allt er lykilatriði að mæta í alla Teams-tímana. Þar sem áfangarnir eru flestir símatsáfangar er mikilvægt að halda sig við efnið og skila verkefnum á tilsettum tíma.

Partur af því að skipuleggja nám sitt vel er að halda rútínu og passa vel upp á svefn, hreyfingu og mataræði.

Þó við höfum áhyggjur af velferð og námsframvindu allra okkar nemenda, höfum við hvað mestar áhyggjur af nemendum sem eru yngri en 18 ára. Við biðjum þau sem standa að þeim hópi að taka þátt í því að hvetja nemendur áfram, fylgjast vel með mætingu og námsframvindu á INNU og Moodle.

Þessa dagana eru umsjónakennarar nemenda yngri en 18 ára að hafa samband við sína nemendur til að taka stöðuna á því hvernig gengur.

Við minnum einnig á að í skólanum er öflugt stuðningsteymi sem er að störfum þótt nemendur séu ekki í skólanum. Nemendur sem þurfa aðstoð vegna skipulagningu náms eiga að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa en hægt er að óska eftir viðtali með því að hringja eða senda póst á namsradgjof@fa.is.

Við skólann starfar einnig sálfræðingur og við hvetjum nemendur sem telja sig þurfa á sálfræðiaðstoð að halda að senda póst á salfraedingur@fa.is.

Kær kveðja,

Magnús Ingvason, skólameistari FÁ

PS. Einn af námsráðgjöfum skólans var í viðtali á RÚV í vor þar sem hún gaf nemendum góð ráð þegar fyrsta bylgja veirunnar reið yfir og er jafn gagnlegt núna: https://www.ruv.is/frett/2020/04/16/jafnvaegi-milli-thess-sem-madur-vill-og-tharf-ad-gera

PSS. Lagið sem starfsmenn skólans „sendu“ nemendum í vor á einnig enn við á þessum tímum: https://www.youtube.com/watch?v=mcCgrkiIeww 

Lesa meira

3.10.2020 Fréttir : Fjarkennsla í næstu viku

Ágætu nemendur og forráðamenn,

 

Í ljósi þess að smitum hefur fjölgað mikið í samfélaginu höfum við tekið þá ákvörðun að öll kennsla, fyrir utan kennslu nemenda á sérnámsbraut, verði áfram í fjarnámi í næstu viku.

 

Nemendur, aðrir en þeir sem eru á sérnámsbraut, eiga því ekki að mæta í skólann á mánudaginn eins og ráðgert var. Kennt verður samkvæmt stundaskrá á Teams og við hvetjum nemendur til að mæta vel í Teams tímana og stunda námið áfram af kappi.

 

Um leið og eitthvað breytist munum við setja inn fréttir á heimasíðu skólans og samfélagsmiðla. Nemendur sem ekki hafa aðgang að tölvum er bent á að senda póst á skrifstofa@fa.is.

 

Með góðri kveðju,
Magnús Ingvason, skólameistari
og Kristrún Birgisdóttir, aðstoðarskólameistari

Lesa meira

28.9.2020 Fréttir : Þessi vika

Ágætu nemendur og forráðamenn.


Viðvarandi Covid-19 ástandi ætlar ekki að linna í bráð. Þrátt fyrir talsvert mörg smit í samfélaginu er ætlun okkar skólayfirvalda að byrja að hleypa inn nemendum í smáum stíl þessa viku.


Mjög ströng grímuskylda verður í öllum skólanum; í kennslustofum, á göngum skólans og í öllum öðrum rýmum. Nemendur eru hvattir til þess að koma með sínar eigin grímur, en einnig verður hægt að fá grímur á skrifstofu skólans. Allir nemar sótthreinsa borð sín í upphafi kennslutíma, og við virðum 1 metra regluna og 2 metra regluna þar sem hægt er. Nemendur eru einnig hvattir til þess að koma með nesti með sér þar sem matsala verður lokuð þessa viku.


Mæting nemenda í vikunni er eftirfarandi:
*Mánudagur 28. september og út vikuna – Nemendur á sérnámsbraut.
*Þriðjudagur 29. september og út vikuna – Nemendur í verklegum áföngum í Heilbrigðisskólanum og nemendur á sjúkraliðabrú.
*Miðvikudagur 30. september og út vikuna – Nemendur sem eru í ÍSAN og ÍSTA áföngum.
*Fimmtudagur 1. október og út vikuna – Nemendur sem eru í UN, GR og BY áföngum í dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði og LÍFS1ÉG03 og UMSJ1ÉG01 áföngum.

Kennsla í öllum öðrum áföngum verður í Teams þessa viku eins og verið hefur.
Ráðgert er svo að allir nemendur skólans komi nk. mánudag 5. október í skólann í staðkennslu.

Allt ofanritað er að sjálfsögðu með ýmsum fyrirvörum. Ef eitthvað óvænt kemur upp, verður brugðist við því og nemendur og forráðamenn látnir vita af því eins fljótt og auðið er.

Kveðja.
Magnús Ingvason
Skólameistari FÁ

 

Lesa meira

Allar fréttir


Val áfanga fyrir vorönn 2021 13.10.2020 - 6.11.2020

Nú geta nemendur dagskólans valið áfanga fyrir vorönn 2021.  Hægt er að ganga frá vali til 6. nóvember nk. í INNU.  Leiðbeiningar má finna hér.  

Lesa meira
 

Fleiri viðburðir