Fréttir & tilkynningar

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

13.03.2025
Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna verður haldin með pompi og prakt núna um helgina 15-16 mars í Bíó paradís, kl. 12-17 báða dagana. Sýndar verða stórskemmtilegar stuttmyndir eftir framhaldsskólanema frá öllu landinu auk kynninga frá kvikmyndaskólum og kvikmyndahátíðum. Góðir gestir úr kvikmyndabransanum mæta og mikið stuð alla helgina. Það er frítt inn og allir velkomnir! Þess má geta að framkvæmd hátíðarinnar er í höndum nemenda skólans sem eru í áfanganum VIBS sem Atli Sigurjónsson kennir, en undirbúningur hátíðarinnar hófst snemma á síðustu önn.

Vilja vernda jökla á Íslandi

11.03.2025
Nemendur í umhverfisráði skólans fóru í heimsókn í Mannréttindahúsið og kynntust þeirri starfsemi sem þar er. Mannréttindahúsið sameinar fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum. Þar er að finna t.d. KVAN, ÖBÍ réttindasamtök, UN Women á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna. Með í ferðinni voru nemendur frá nágrannaskólanum okkar, Menntaskólanum við Sund. Mikið og gott samstarf hefur verið á milli skólanna tveggja í starfi umhverfisráðanna. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um Mannréttindahúsið og eiga gott samtal við Pétur Hjörvar, tengilið UNESCO skólanna á Íslandi á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna. Hópurinn ræddi um mikilvægi jökla á Íslandi og sótti um styrk á vegum loftslagssjóðs Reykjavíkurborgar sem styður við vitundavakningu á loftslagsbreytingum meðal ungs fólks. Styrkumsóknin ber heitið „Draumurinn um jökul“ og ef styrkurinn fæst verður farið í jöklaferð með það fyrir augum að taka upp og miðla fræðslumyndbandi um jökla meðal ungmenna á Íslandi.

FÁ úr leik í Gettu betur

07.03.2025
FÁ tók þátt í æsispennandi undanúrslitum í spurningakeppninni Gettu betur í gærkvöldi. Liðið stóð sig mjög vel en varð því miður að sætta sig við tap gegn liði MA, 28-16. Við óskum MA-ingum hjartanlega til hamingju og góðs gengis í úrslitunum. Þrátt fyrir tap erum við óendanlega stolt af frammistöðu Iðunnar, Halldórs og Dags, þið voruð frábær - takk takk :)

FÁ áfram í undanúrslit FRÍS

06.03.2025
Rafíþróttalið FÁ sigraði Fjölbrautaskóla Snæfellinga með sannfærandi 3-0 sigri í FRÍS í gær. FÁ vann alla þrjá leikina sem keppt var í (Rocket League, Counter-Strike 2 og Fortnite) og skólinn er þar með kominn áfram í undanúrslit. Næsti leikur FÁ verður gegn Tækniskólanum eða Fjölbrautaskóla Suðurlands miðvikudaginn 2. apríl kl. 19:00. Hægt verður að horfa á leikina í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans og Twitch-rás Rafíþróttasambands Íslands. Viltu vita hvernig þessir tölvuleikir virka í einfölduðu máli eða kynnast rafíþróttaliði FÁ? Nemendur í áfanganum Yndisspilun (TÖLL2YS05) settu saman heimasíðu þar sem áhugasamir geta kynnt sér efnið betur: http://sites.google.com/view/fris25