4.2.2023 Fréttir : FÁ úr leik í Gettu betur
Lið FÁ í Gettu betur er því miður úr leik í Gettu betur keppninni í ár er það hlaut í lægra haldi gegn liði Verkmenntaskóla Austurlands í beinni útsendingu í sjónvarpssal RÚV í gærkvöldi.
Eftir æsispennandi hraðaspurningar var staðan jöfn 11-11 og þá tóku við staðreyndavilluspurning og tólf bjölluspurningar. VA komst á gott ról í bjölluspurningunum og náði ágætis forystu. Lið FÁ var hins vegar ekki tilbúið að láta deigan síga. Eftir seinni vísbendingaspurninguna munaði því aðeins þremur stigum, staðan var 26-23 VA í vil, og þrjú stig eftir í pottinum í þríþrautinni. Þar náði FÁ ekki að svara rétt en VA gerði það hins vegar, fékk þrjú stig, og tryggði sér sigur 29-23.
Svo skemmtilega vill til að liðin tvö, VA og FÁ, mættust einnig í fyrstu umferð keppninnar. Sú viðureign var einnig æsispennandi en þar hafði FÁ betur, 25-21. VA fór hins vegar áfram í aðra umferð sem stigahæsta tapliðið og tryggði sig svo í 8-liða úrslit þar sem liðið dróst aftur gegn FÁ.
Lið FÁ skipuðu þau Iðunn Úlfsdóttir, Jóhanna Andrea Magnúsdóttir og Þráinn Ásbjarnarson. Varamaður var Ívar Darri Jóhannsson.
Þjálfarar liðsins í ár voru þeir Eiríkur Kúld Viktorsson og Guðmundur Kristinn Þorsteinsson, báðir reynsluboltar úr Gettu betur.
Skólarnir mættu með skemmtiatriði sem voru sýnd í útsendingunni. FÁ kom með hljómsveit skipaða nemendum sem sitja í tónlistaráfanga skólans. Þau fluttu lag David Bowie, Man Who Sold the World og gerðu það snilldar vel. Þorbjörn Helgason söng, Askur Ari Davíðsson spilaði á hljómborð, Brynjar Karl Birgisson spilaði á Bassa, Darri Ibsen á guiro, Ísak Harry Hólm og Rafael Róbert Ásgeirsson á kassagítar. Vael Abou Ebid spilaði svo á slagverk.
Hér má sjá upptöku af atriðinu.
RÚV gerði kynningarmyndband um keppendur sem má sjá hér.
Við hér í FÁ erum ákaflega stolt af liðinu okkar í ár, frábær liðsheild og flottur árangur.
Lesa meira
3.2.2023 Fréttir : FÁ keppir í 8 liða úrslitum í kvöld
Stór dagur í dag !!
Allir að stilla á RÚV kl. 20:00 í kvöld en þá keppir FÁ í 8 liða úrslitum í Gettu betur við Verkmenntaskóla Austurlands í beinni útsendingu. Við sendum baráttukveðju til Iðunnar, Jóhönnu Andreu og Þráins og segum: Áfram FÁ!!
Lesa meira19.1.2023 Fréttir : FÁ komið í 8 liða úrslit í Gettu betur
FÁ tryggði sér í gær sæti í 8 liða úrslitum í Gettu betur þegar það vann Kvennó í hörkuspennandi keppni, 22-21. Kvennó leiddi keppnina eftir hraðaspurningar 15 - 10 og fyrir lokaspurninguna var staðan 21-20 fyrir Kvennó. FÁ náði svo sigrinum með því að svara lokaspurningunni rétt og hlaut tvö stig fyrir það.
FÁ mætir því Verkmenntaskóla Austurlands í 8 liða úrslitum sem fara fram í sjónvarpssal þann 3.febrúar.
Til hamingju Iðunn, Jóhanna og Þráinn.
Lesa meira
17.1.2023 Fréttir : Önnur umferð í Gettu betur
Gettu betur lið FÁ lagði lið Verkemenntaskóla Austurlands í síðustu viku, 25-21. Önnur umferð fer fram í þessari viku og mætir lið FÁ liði Kvennaskólans á morgun, miðvikudaginn 18.janúar kl. 21.10.
Við sendum baráttukveðju til Iðunnar, Jóhönnu og Þráins.
Hægt er að hlusta á keppnina í beinni á Rás tvö.
Lesa meira