25.9.2020 Fréttir : Næsta vika

Ágætu nemendur og forráðamenn.


Eins og ykkur er kunnugt hefur fjarkennsla verið við lýði þessa viku. Samkvæmt upplýsingum sem ég fæ hjá kennurum hefur hún alla jafna tekist vel; nemendur áhugasamir og virkir. Staðkennsla er þó það sem við stefnum að, en vegna óvissuástands vegna Covid-19 ætlum við að fara varlega í að fá nemendur inn í skólann.


Þó eru ákveðnir hópar nemenda sem við viljum fá inn í skólann sem fyrst. Nk. mánudag munu t.d. nemendur á sérnámsbraut koma í skólann samkvæmt stundaskrá, en þeir eru í sér rými í skólanum. Aðrir nemendur stunda áfram fjarnám samkvæmt stundatöflu.


Kennsla í skólanum í næstu viku lýtur afar ströngum skilyrðum. Allir nemendur og kennarar bera grímu; bæði í kennslustofum og almennum rýmum. Auk þess verður 1 metra reglan viðhöfð í öllum skólanum. Þá höldum við áfram að sótthreinsa skólaborð í upphafi hvers kennslutíma. Enginn afsláttur verður gefinn vegna þessara ráðstafana og ég treysti því að farið verði eftir þeim í einu og öllu.


Eftir sem áður á enginn að koma í skólann sem finnur fyrir minnstu einkennum Covid-19.


Ákvörðun um nánara fyrirkomulag verður kynnt í síðasta lagi á hádegi nk. mánudag og verður tilkynning um slíkt sett á heimasíðu skólans.


Kveðja.


Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ

Lesa meira

22.9.2020 Fréttir : Starfsfólk FÁ í sóttkví

Allt starfsfólk Fjölbrautaskólans við Ármúla er komið í sóttkví, en þrír nemendur og tveir starfsmenn hafa greinst með kórónuveiruna.


Nemendur skólans þurfa ekki að fara í sóttkví nema þeir finni fyrir einkennum veirunnar (kvefi, hósta, hita, höfuðverk, bein- eða vöðvaverkjum, þreytu o.fl.), en frekari upplýsingar um slíkt má finna á covid.is og heilsuvera.is. Þetta er samkvæmt ráðleggingum sóttvarnayfirvalda, en skólinn hefur átt gott samstarf við þau vegna málsins.


Þessa viku er fjarkennt í gegnum forritið Teams og því hefur sóttkví starfsmanna ekki mikil áhrif á skólastarfið, nema á sérnámsbraut skólans sem átti að vera í kennslu þessa viku. Í lok þessarar viku verður tekin ákvörðun um fyrirkomulag skólastarfsins næstu vikur.


Gangi ykkur öllum vel í náminu þessa viku.


Kveðja.

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ

 

Lesa meira

20.9.2020 Fréttir : Smit og fjarnám

Ágætu nemendur og forráðamenn,


Komið hefur í ljós að tveir nemendur við skólann hafa greinst með Covid–19. Umræddir nemendur tengjast vinaböndum og hafa lítið verið í nánum samskiptum við aðra nemendur skólans. Skólameistarar hafa um helgina unnið í nánu samstarfi við sóttvarnaryfirvöld, þ.m.t. smitrakningarteymi almannavarna, og unnið er samkvæmt þeirra leiðbeiningum að úrvinnslu málsins. Vegna þeirra sóttvarna sem viðhafðar hafa verið í skólanum er talið nær ómögulegt að samnemendur eða kennarar viðkomandi nemenda hafi smitast en við hvetjum alla nemendur sem finna til minnstu einkenna að hafa samband við www.heilsuvera.is til að bóka skimun.


Líkt og áður hefur komið fram í pósti fer kennsla fram í fjarnámi í Teams samkvæmt stundatöflu í næstu viku. Við minnum á að allir þurfa að mæta í þessar Teams kennslustundir, svo og fylgjast vel með skilaboðum sem kunna að koma frá kennurum í einstaka áföngum. Sjá Teams leiðbeiningar HÉR.

 

Þar sem skólanum verður lokað fyrir nemendum í níu daga (helgar meðtaldar) eru góðar líkur á því að við náum að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu á þessu einstaka smiti og þar með getum við hafið eðlilegt skólastarf að nýju sem allra, allra fyrst. Við hvetjum nemendur til að stunda námið af kappi og fylgjast vel með fréttum frá skólanum næstu daga.


Með góðri kveðju,

Magnús Ingvason, skólameistari

Kristrún Birgisdóttir, aðstoðarskólameistari

Lesa meira

16.9.2020 Fréttir : FÁ fær gull-hjólavottun

Umhverfisráð FÁ fagnaði Degi íslenskrar náttúru með skiptifatamarkaði og grænum fötum í dag, en fyrst og fremst með heimsókn Sesselju Traustadóttur, framkvæmdastýru „Hjólafærni“, sem ekki aðeins hélt mjög fræðandi fyrirlestur um vistvæna samgöngumáta heldur veitti skólanum GULL-hjólavottun sem tveir nemendur úr Umhverfisráði tóku á móti.

Við FÁ eru m.a. næg reiðhjólastæði, aðstaða til að gera við hjól í kjallaranum, nokkur rafhjól sem nemendum býðst að fá lánuð, einingar í boði fyrir að hjóla í skólann og viðgerðasamningur við hjólaverkstæði.

Lesa meira

Allar fréttir