Fréttir & tilkynningar

Ormhildur hin hugrakka

21.10.2024
Um daginn fórum nemendur í heimsókn í hreyfimyndaver "Ormhildar hinnar hugrökku". Ormhildur þessi er skrímslabani og  aðalkarakter í nýrri teiknimyndaseríu sem gerist á Íslandi í framtíðinni eftir að bráðnun jökla og hnattræn hlýnun hefur leyst fjölmargar kynjaskepnur úr fjötrum. Höfundur og leikstjóri þáttanna er engin önnur en okkar eigin Þórey Mjallhvít, listgreinakennari við FÁ.

Rafrusladagurinn haldinn um allan heim

16.10.2024
Rafrusladagurinn var haldinn um allan heim í vikunni og tók skólinn þátt í vitundarvakningunni. Áhersla rafrusladagsins í ár eru biluð, ónýt eða ónotuð raftæki sem fólk geymir á heimilum sínum. Mörg lítil raftæki er oft finna í skúffum heimila t.d. gamlir farsímar, snúrur, USB-lyklar, kortalesarar, leikjatölvur, smáheyrnartól og þess háttar. Raftæki eru allir hlutir sem eru með kló, snúru eða rafhlöðu. Til hvers að endurvinna raftæki? Raftækjaúrgangur inniheldur mikið af verðmætum; sjaldgæfum málmum (t.d. kopar og gull) og fleiri efnum sem mikilvægt er að koma í endurvinnslu. Mörg raftæki innihalda auk þess efni sem eru skaðleg umhverfinu, fari þau ekki í réttan farveg. Hver er skaðinn? Aðeins um 17 prósent af rafrusli heimsins ratar í fullnægjandi endurvinnslu. Gríðarlegt magn af raftækjaúrgangi verður til á hverju ári og er umfangið sífellt að aukast. 62 milljón tonn af raf- og rafeindatækjaúrgangi á heimsvísu árið 2022. Þetta magn jafngildir því að 1,55 milljón vörubílum, hlöðnum rafrusli, yrði stillt upp við miðbaug jarðar og næðu allan hringinn. Eftir hvern Íslending liggja um 24 kíló af rafrusli á ári. Samtals vegur árlegt rafrusl landsmanna um níu þúsund tonn. Hvað getum við gert? Við getum athugað hvort gömul raftæki liggi í skúffum og skápum og skilað þeim á næstu endurvinnslustöð. Elko tekur einnig á móti gömlum raftækjum og í sumum tilfellum er hægt að skila þeim og fá inneignarnótu í staðinn. Viltu finna milljón? Sumum raftækjum er hægt koma í viðgerð, gefa/selja og lengja þannig líftíma þeirra. Þá leynast oft raftæki í fullkomnu standi inná heimilum fólks sem safna ryki og bíða eftir nýjum áhugasömum eiganda. Hægt er að kynna sér málið enn betur á vefsíðu Saman gegn sóun https://samangegnsoun.is/raftaeki/ og á vefsíðu Úrvinnslusjóðs https://www.urvinnslusjodur.is/um-urvinnslusjod/utgafa/tilkynningar/althjodlegi-rafrusldagurinn.

Franskir gestir í heimsókn í FÁ

15.10.2024
Í september fengum við góða gesti frá Frakklandi í heimsókn í FÁ. Þau Katell Perrot og Colette Masson-Gauthier, kennarar í ensku, landafræði og jarðfræði, komu ásamt 18 nemendum frá Fougères, Frakklandi. Þau fengu að heimsækja kennslustundir, fræðast um FÁ og um náttúru Íslands. Þau gerðu skemmtilegt myndband um ferðina sem má sjá með þessari frétt.

Skólafundur

09.10.2024
Í dag, miðvikudaginn 9. október var haldinn skólafundur í FÁ, en hér í FÁ er haldinn skólafundur einu sinni á ári. Þá er kennsla felld niður og nemendur og starfsfólk ræða um ýmis málefni er varða skólann og nemendur. Þetta er mikilvægur lýðræðislegur vettvangur fyrir nemendur skólans til að koma sínum málefnum á framfæri. Í þetta skiptið settust nemendur niður í kærleikshring með kennaranum sínum og rædd voru ýmis mál sem eru mikið í umræðunni hér á Íslandi í dag eins og líðan, aukið ofbeldi meðal ungmenna, jákvæð og neikvæð samskipti, áhrif samfélagsmiðla, kærleikann og fleiri málefni. Nemendur voru áhugasamir og höfðu margt til málanna að leggja um þetta mikilvæga málefni.