20.6.2022 Fréttir : Símon Tómasson bar blómsveig að minnisvarða Jóns forseta

Nýstúdent og dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla, Símon Tómasson, var þess heiðurs aðnjótandi, ásamt Lárusi Loga Elentínusarsyni frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, að taka þátt í hátíðarhöldum á Austurvelli í tilefni af 78 ára afmæli lýðveldisins.
Sú hefð hefur skapast að tveir nýstúdentar, frá sitthvorum skólanum, eru valdir ár hvert, á afmæli lýðveldisins, til þess að bera blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, leggur svo blómsveiginn að minnisvarðanum.

Við erum stolt af framlagi nemanda FÁ í þessari hátíðlegu athöfn á þjóðhátíðardeginum 17. júní.

Lesa meira

2.6.2022 Fréttir : Skólaheimsókn til Toronto

Þann 26.maí hélt fríður hópur kennara og starfsmanna í FÁ til Toronto í Kanada. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér starfið í tveim skólum þar í borg, George Brown College og Ryerson University. Flottir og stórir skólar sem gaman var að heimsækja. Einnig skoðuðum við ýmislegt sem Toronto hafði upp á að bjóða og heimsóttum m.a. Niagara fossana sem voru magnaðir. 

Hér má sjá nokkrar myndir úr ferðinni

Lesa meira

25.5.2022 Fréttir : Hátíðleg útskrift í dag

Í dag var hátíðlegur dagur í FÁ þegar skólinn útskrifaði 94 nemendur og þar af 14 af tveimur brautum. 

Stúdentar af bóknámsbrautum eru 39. Frá nýsköpunar- og listabraut útskrifuðust 6 nemendur.

Af heilbrigðissviði útskrifuðust 36 nemendur; einn sem heilbrigðisritari, tveir sem lyfjatæknar, tveir sem læknaritarar, 8 sem heilsunuddarar, 15 sem sjúkraliðar og loks 9 sem tanntæknar.

Einnig útskrifuðust í dag 8 frábærir nemendur af sérnámsbraut.

Dúx skólans er Símon Tómasson sem útskrifaðist af náttúrufræðibraut með meðaleinkunnina 8,71.

Íris Björk Árnadóttir sem útskrifaðist af sjúkraliðabraut Heilbrigðisskóla FÁ hlaut viðurkenningu fyrir frábæran árangur í sérgreinum sjúkraliðabrautar með 9,7 í lokaeinkunn.

Magnús Ingvason skólameistari og Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari fluttu ávörp og fóru yfir liðna önn.

Inga Birna Benediktsdóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftanema og Íris Björk Árnadóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema Heilbrigðisskólans.

Elvar Jónsson, aðstoðarskólameistari FB flutti ávarp fyrir hönd 25 ára stúdenta.

Tveir farsælir starfsmenn skólans til margra ára voru kvaddir en það eru þær Steinunn H. Hafstað, fjarnámsstjóri og Ágústa Harðardóttir, dönskukennari.

Tónlistarflutningur við athöfnina var í höndum Önnu Zhu Ragnarsdóttur, nemanda við FÁ en hún flutti lagið Nocturne op.9 No. 2 eftir Chopin. 

Lauk síðan athöfninni með hátíðlegum samsöng allra viðstaddra á laginu Vikivaki við undirleik Önnu Zhu.

Við óskum útskriftarnemum til hamingju með áfangann og óskum þeim bjartrar framtíðar.

Fleiri myndir má sjá á facebook síðu skólans hér .

Lesa meira

23.5.2022 Fréttir : Útskrift FÁ 25.maí

Útskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla á vorönn 2022 mun fara fram í hátíðarsal skólans, miðvikudaginn 25.maí kl. 13.00.

Æfing fyrir útskrift verður þriðjudaginn 24.maí kl. 16.00

Lesa meira

Allar fréttir