27.08.2025
Þrír stúdentar úr FÁ hlutu nú á dögunum styrk úr afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og/eða íþróttum.
Styrkþegar úr FÁ voru þær Brynja Guðmundsdóttir, Snædís Hekla Svansdóttir og Uyen Thu Vu Tran.
Brynja Guðmundsdóttir brautskráðist frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla í vor með afar góðum árangri og hlaut m.a. viðurkenningu fyrir aðstoðarkennslu og framúrskarandi árangur í efnafræði. Hún hefur mikinn áhuga á rannsóknum tengdum líffræði, frumum og sameindum og hefur því innritað sig í lífefna- og sameindalíffræði.
Snædís Hekla Svansdóttir brautskráðist frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í desember 2023 og var dúx skólans en hún lauk stúdentsprófi á tveimur og hálfu ári. Við útskrift hlaut hún viðurkenningar fyrir góðan árangur í ítölsku, íslensku og félagsgreinum. Listsköpun hefur verið stór hluti af lífi Snædísar sem hefur unnið fjölbreytt listaverk, bæði málverk og skúlptúrverk, og sýnt þau. Þá var Snædís einnig virk innan stjórnar nemendafélags FÁ. Snædís hefur innritað sig í lögfræði.
Uyen Thu Vu Tran brautskráðist frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla í vor og hlaut viðurkenningu fyrir mjög góðan árangur í viðskipta- og hagfræðigreinum. Uyen flutti hingað til lands í miðjum COVID-19-faraldri og þurfti því að tileinka sér íslenska tungu samhliða framhaldsskólanámi. Uyen stefnir á að vinna innan fjármálageirans í framtíðinni og hefur því innritað sig í viðskiptafræði.
Við sendum þeim Brynju, Snædísi og Uyen okkar innilegustu heillaóskir. Nánari upplýsingar um verðlaunin og verlaunahafana eru á vef Háskóla Íslands.