- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Skrifstofa
- Stoðþjónusta
- Þjónusta við nemendur
- Heilbrigðisskólinn
- Fjarnám
- Inna
- Moodle
- Teams
- Office 365
Ágætu nemendur og forráðamenn,
Í ljósi nýrra og hertra sóttvarnareglna er ljóst að skólinn verður lokaður á morgun og föstudag.Öll kennsla færist því yfir á Teams og verður kennt þar samkvæmt stundaskrá næstu tvo daga, en að þeim dögum loknum hefst páskafrí.
Ég hvet alla til að mæta vel í Teams-tímana og munum að nú erum við flest reynslunni ríkari eftir bæði síðustu haustönn og vorönn. Fyrir þau sem ekki eru kunnug Teams er hægt að horfa á kennslumyndband hér; https://www.fa.is/thjonusta/tolvu-og-thjonustuver/microsoft-teams/
Forritinu er síðan hlaðið niður hér; https://www.microsoft.com/en-ww/microsoft-teams/download-app.
Kennsla hefst aftur eftir páskafrí miðvikudaginn 7. apríl en á þessari stundu er ekki vitað hvort hægt verður að kenna í skólanum eða ekki. Þrátt fyrir að um sé að ræða páskafrí, væri ekki úr vegi fyrir ykkur að renna yfir námsáætlanir og skoða hvort þið eigið eftir að skila einhverju verkefni.
Ég bið ykkur um að fylgjast vel með fréttum frá skólanum sem birtar verða á heimasíðu skólans, Instagram og fésbókarsíðu þegar nær dregur 7. apríl.
Ég sendi ykkur öllum mínar bestu kveðjur og óskir um gleðilega páska, og vona heitt og innilega að við sjáumst öll hress hér í skólanum sem allra, allra fyrst.
Kær kveðja,
Magnús Ingvason
Skólameistari FÁ
Vel heppnaðir Umhverfisdagar FÁ eru að baki þetta árið, en umhverfisfulltrúar skólans og umhverfisráð nemenda stóðu fyrir glæsilegri tveggja daga dagskrá.
Dagskráin hófst með hrósi til félagsfræðakennarans Kristjáns Leifssonar fyrir áberandi litla pappírssóun í sinni kennslu, og tók Kristján afar stoltur við viðurkenningunni "Pappírs-Pési FÁ 2021". Boðið var upp á fjóra fræðandi fyrirlestra þessa daga. Eydís Blöndal fjallaði um loftslagskvíða, Sævar Helgi Bragason um leiðir til að lifa umhverfissinnaðra lífi, Thor Aspelund og Jóhanna E. Torfadóttir um flexiterian mataræði og loks ávarpaði umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nemendur og starfsfólk.
Þá var boðið upp á heimildarmynd um fataframleiðslu, fataskiptimarkað og Kahoot-spurningakeppni með umhverfisverndarþema. Og auðvitað voru nemendur og starfsmenn hvattir til að skilja einkabílinn eftir heima þessa daga.
Verða haldnir þriðjudaginn 16. mars og miðvikudaginn 17. mars. Boðið verður upp á fræðandi fyrirlestra um loftslagskvíða, umhverfisvernd og flexiterian mataræði; umhverfisráðherra kíkir í heimsókn; fatamarkaður verður á Steypunni báða daga og dagskrá í matsalnum í hádegishléum.
Sleppum einkabílnum þessa daga og notum vistvænar samgöngur!
Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heimsótti skólann í dag og hélt áhugaverðan fyrirlestur um utanríkisviðskiptastefnu Íslands fyrir nemendur á hagfræði- og viðskiptabraut. Hann kynnti nýútkomna skýrslu um stefnuna, "Áfram gakk", sem tekur til allra hliða utanríkisviðskipta. Nemendur voru áhugasamir um málefnið, nýttu tækifærið og spurðu ráðherrann út í utanríkismálin. Skólastjórendur sýndu loks ráðherranum skólann og fræddu hann um skólastarfið.
Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna var haldin í 7. sinn um helgina. Að venju var skipulagning hátíðarinnar í höndum nemenda FÁ en þau Þorkell Valur, Dísa, Matthías, Eggert Unnar, Ólafur Gísli, Perla, Brynjar Karl, Bergmann, Hákon og Freyja, sem og kvikmyndakennarinn þeirra Þór Elís, eiga hrós skilið fyrir glæsilega hátíð sem fleiri sóttu í ár en nokkurn tímann áður. Heimsfaraldurinn margumtalaði náði ekki að drepa sköpunargleði framhaldsskólanema, því í keppnina voru sendar 23 kvikmyndir eða svipaður fjöldi og áður. Heiðursgestir hátíðarinnar voru ekki af verri endanum en leikstjórarnir Baltasar Kormákur og Silja Hauksdóttir sögðu gestum frá sínum störfum.
Dómnefndina skipuðu þau Erlendur Sveinsson, Gunnar Theódór Eggertsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Margrét Örnólfsdóttir og Sveppi, og fóru úrslit svo: Mynd Borgarholtsskólanemandans Olivers Ormars Ingvarssonar, „Klikker“, var valin sú besta. Besti leikari í aðalhlutverki þótti Breki Hrafn Omarsson í MH-myndinni „Hún elskar mig, hún elskar mig ekki“. FÁ-myndin „Rof“ sópaði að sér verðlaunum en að henni stendur Gísli Snær Guðmundsson. Myndin fékk verðlaun fyrir bestu tæknilegu útfærsluna, önnur af tveimur áhorfendaverðlaunum helgarinnar og þá hlaut Anton Leví Inguson verðlaun fyrir bestu kvikmyndatökuna. Hin áhorfendaverðlaunin hlaut myndin „Diskóeyjan“ sem er skemmtilegt samvinnuverkefni nemenda úr fimm skólum. Loks voru svokölluð Hildarverðlaun veitt í annað sinn fyrir bestu frumsömdu tónlistina, sem fóru til MH-nemendans Arvids Ísleifs fyrir tónlist sína í myndinni „Handalögmál“.
Hver verðlaunahafi var leystur út með glæsilegum verðlaunum, en helst ber þar að nefna vikunámskeið hjá New York Film Academy. Til hamingju öll!
Við bjóðum 10. bekkinga og aðra verðandi framhaldsskólanema velkomna í heimsókn í FÁ. Skráið ykkur á skólakynningu dagana 10. mars eða 16. mars með að senda tölvupóst í namsradgjof@fa.is. Hlökkum til að sjá ykkur!
Nánar hér.
Aftur sigraði FÁ Lífshlaupið í sínum flokki í ár!
Lífshlaupið er þjóðarátak í hreyfingu þar sem skólar, vinnustaðir og einstaklingar etja kappi um sem mesta hreyfingu yfir ákveðið tímabil í febrúar. FÁ fékk tvenn verðlaun innan flokksins "framhaldsskóli með 400-999 nemendur" - en okkar nemar hreyfðu sig bæði flesta dagana og í flestar mínútur. Enda skólinn stappfullur af mögnuðu íþróttafólki!
Inga Birna Benediktsdóttir og Telma Ívarsdóttir tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans.