Fjallganga í Bláfjöllum

Tæplega 40 nemendur í fjallgönguáfanganum í FÁ lögðu land undir fót síðasta laugardag þegar þeir fóru í fjallgöngu upp í Bláfjöll með kennarurunum Þórhalli og Hrönn. Nutu þau veðurblíðunnar og glæsilegs útsýnis af tindunum.

Opið hús hjá sérnámsbraut

Sérnámsbraut skólans hélt opið hús í síðustu viku, en kvöldið var fjáröflun fyrir útskriftarhóp brautarinnar. Nemendurnir sáu að mestu um skipulagninguna og boðsgestir voru nemendur sem útskrifuðust síðasta vor auk útskriftarhópsins næsta vor. Aðgangseyrir var 1500 krónur og innifalið í því voru nokkrar sneiðar af pítsu, gos og happdrættismiði. Þá var karókí í gangi, skutlukeppni og nemendurnir seldu penna merkta deildinni. Virkilega skemmtileg kvöldstund.

Heimsókn í Fangelsismálastofnun

Nemendur í Afbrotafræði hjá Söru fóru í heimsókn í Fangelsismálastofnun þann 22. október. Þar fengu þau fræðandi kynningu á starfsemi stofnunarinnar, hlutverki fangelsa og þeim áskorunum og tækifærum sem felast í endurhæfingu og samfélagsþjónustu. Kynningin var bæði upplýsandi og áhugaverð, og nemendur voru afar ánægðir með heimsóknina. Við þökkum starfsfólki Fangelsismálastofnunar kærlega fyrir hlýjar móttökur.

Ný kynningarmyndbönd fyrir sjúkraliða- og heilsunuddbraut FÁ

Fjölbrautaskólinn í Ármúla hefur látið framleiða ný kynningarmyndbönd fyrir tvær af heilbrigðisbrautum skólans; sjúkraliðabraut og heilsunuddbraut. Markmið myndbandanna er að kynna nám og starfsmöguleika á þessum sviðum og vekja áhuga nemenda á störfum í heilbrigðisþjónustu og heilsueflingu. Myndböndin voru unnin af Sahara auglýsingastofu í samstarfi við starfsfólk og nemendur skólans. Þau verða notuð í kynningarefni FÁ, bæði á samfélagsmiðlum og á vef skólans. Hér má sjá myndböndin ásamt öðrum kynningarmyndböndum fyrir heilbrigðisbrautir skólans.

Fréttabréf FÁ - óktóber 2025

Októberfréttabréfið er komið út, stútfullt af fréttum og myndum frá fyrstu vikum haustannar. Í hverjum mánuði sendum við út rafrænt fréttabréf. Markmiðið með því er að auka upplýsingaflæði til nemenda og aðstandenda og jafnframt að segja frá starfinu hér í skólanum. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með skólanum á netinu til að missa ekki af neinu skemmtilegu. Við erum dugleg að setja fréttir og myndir inn á samfélagsmiðlana sem sýna frá öllu því sem við erum að gera.

Fimm kennarar úr FÁ á ráðstefnum um íslensku sem annað mál

Tvær ráðstefnur hafa verið haldnar árið 2025 um kennslu íslensku sem annars máls. Þar komu saman kennarar og skólastjórnendur ásamt formönnum Kennarasambands Íslands. Fyrri ráðstefnan var haldin á Ísafirði dagana 2. – 3. maí og fjallaði um kennslu íslensku sem annars máls, inngildingu og fjölmenningu í framhaldsskólum. Sú síðari var haldin á Akureyri dagana 19. – 20. september undir yfirskriftinni Samfélagið er lykill að íslensku. Að loknum báðum ráðstefnum voru sendar út ályktanir frá ráðstefnugestum til ýmissa stofnana í samfélaginu þar sem þess var m.a. krafist að stjórnvöld setji kennslu íslensku sem annars máls í forgang, að námsefnisgerð verði efld og henni hraðað og að hlustað sé á fagfólkið, kennarana sem kenna námsgreinina. Kallað var eftir því að ráðamenn og samfélagið í heild gefi íslensku séns. Fimm kennarar úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla sóttu þessar ráðstefnur, þær Hanna Óladóttir, Ingunn Garðarsdóttir, Kristjana Þórdís Jónsdóttir, Sigrún Eiríksdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir.

Útgáfuhóf í FÁ – Verður heimurinn betri?

Í gær fór fram útgáfuhóf þar sem Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, og með stuðningi Utanríkisráðuneytisins og Mennta- og barnamálaráðuneytisins, kynnti nýjan kennsluvef – www.verdurheimurinnbetri.is.

Hvers vegna þurfum við að endurvinna gamla síma?

Í dag er alþjóðlegi rafrusladagurinn. FÁ tekur virkan þátt í deginum. Rafrusl eru öll raftæki, stór og smá; sem ekki eru lengur í notkun. Mikilvægt er að við komum þeim í réttan endurvinnslufarveg.

FÁ hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2025

FÁ hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2025, við hátíðlega athöfn sem haldin var 9. október í hátíðarsal HÍ. Jafnvægisvogina fá þau fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. 90 fyrirtæki, 22 opinberir aðilar og 16 sveitarfélög hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar þetta árið. FÁ er þar á meðal og tók Guðlaug Ragnarsdóttir jafnréttisfulltrúi FÁ við viðurkenningunni fyrir hönd skólans. Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði með tölfræðilegum upplýsingum um jafnrétti. Þar koma fram helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, m.a. kynjahlutföll stofnenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra og stjórna. Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2020 var kynntur nýr Jafnréttislundur FKA, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útvegaði Jafnvægisvoginni. Viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA fylgir tré að gjöf til gróðursetningar í Jafnréttislundi FKA, sem viðurkenningarhafar gróðursetja sjálfir í lundinum í dag, föstudaginn 10. október. Með því geta þátttakendur lagt sitt af mörkum til að draga úr kolefnisfótspori og jafnframt sýnt stuðning við jafnréttismál með táknrænum hætti. Við val á trjám í lundinn er horft til þess að velja margar ólíkar tegundir af trjám, sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin stuðlar að. Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti. Við í FÁ erum afar ánægð og stolt með að vera í hópi þeirra flottu fyrirtækja sem hlutu Jafnvægisvogina í ár og höldum áfram að byggja upp vinnustað þar sem jöfn tækifæri og fjölbreytileiki eru í fyrirrúmi.

Skólafundur í FÁ

Miðvikudaginn 8 október var haldinn skólafundur í FÁ, en það haldinn skólafundur einu sinni á ári hér í skólanum. Þá er kennsla felld niður og fá fræðslu um mikilvæg málefni eða nemendur og starfsfólk ræða um ýmis málefni er varða skólann og nemendur. Í ár fengu nemendur hinseginfræðslu frá Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur; Ég er eins og ég er, og er þessi fyrirlestur liður í því að bregðast við ákveðinni afturför í umræðum í samfélaginu gagnvart hinsegin fólki. Í FÁ erum við með stóran hóp af nemendum sem eru hinsegin en einnig erum við með fjölbreyttan menningarhóp og með nemendur frá ólíkum löndum myndast oft menningarmunur og ólíkar skoðanir. Í ár vildum við setja áhersluna á; Að öll eigum við rétt og öll erum við velkomin, öll megum við vera nákvæmlega eins og við erum ! Nemendur voru áhugasamir og höfðu margt til málanna að leggja um þetta mikilvæga málefni.