27.08.2025
Þrír stúdentar úr FÁ hlutu nú á dögunum styrk úr afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og/eða íþróttum.
Styrkþegar úr FÁ voru þær Brynja Guðmundsdóttir, Snædís Hekla Svansdóttir og Uyen Thu Vu Tran.
Brynja Guðmundsdóttir brautskráðist frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla í vor með afar góðum árangri og hlaut m.a. viðurkenningu fyrir aðstoðarkennslu og framúrskarandi árangur í efnafræði. Hún hefur mikinn áhuga á rannsóknum tengdum líffræði, frumum og sameindum og hefur því innritað sig í lífefna- og sameindalíffræði.
Snædís Hekla Svansdóttir brautskráðist frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í desember 2023 og var dúx skólans en hún lauk stúdentsprófi á tveimur og hálfu ári. Við útskrift hlaut hún viðurkenningar fyrir góðan árangur í ítölsku, íslensku og félagsgreinum. Listsköpun hefur verið stór hluti af lífi Snædísar sem hefur unnið fjölbreytt listaverk, bæði málverk og skúlptúrverk, og sýnt þau. Þá var Snædís einnig virk innan stjórnar nemendafélags FÁ. Snædís hefur innritað sig í lögfræði.
Uyen Thu Vu Tran brautskráðist frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla í vor og hlaut viðurkenningu fyrir mjög góðan árangur í viðskipta- og hagfræðigreinum. Uyen flutti hingað til lands í miðjum COVID-19-faraldri og þurfti því að tileinka sér íslenska tungu samhliða framhaldsskólanámi. Uyen stefnir á að vinna innan fjármálageirans í framtíðinni og hefur því innritað sig í viðskiptafræði.
Við sendum þeim Brynju, Snædísi og Uyen okkar innilegustu heillaóskir. Nánari upplýsingar um verðlaunin og verlaunahafana eru á vef Háskóla Íslands.
26.08.2025
Nú er skólastarfið komið á fullt og það þýðir að erlenda samstarfið okkar er líka hafið. Á hverju ári fáum við fullt af heimsóknum frá aðilum frá skólastofnunum víða um heim sem vilja kynna sér starfið í skólanum okkar.
Þessa vikuna er hún Bàrbara Ruiz Soliva frá Maristes Valldemia í Mataró, Spáni er heimsókn. Hún kennir ensku, stærðfræði, hagfræði og nýsköpun. Nemendur hennar eru frá 12 til 16 ára. Á myndinni er hún í heimsókn í ensku hjá Alice.
19.08.2025
Stöðupróf í ensku, dönsku, spænsku og þýsku verða mánudaginn 25. ágúst klukkan 16:15 í stofu M201.
Tekið er á móti skráningum á þessu eyðublaði hér til hádegis (12:00) föstudaginn 22. ágúst.
Nemendur greiða 19.500 krónur fyrir hvert stöðupróf og er prófin opin eingöngu fyrir dagskóla- og fjarnema við FÁ.
Hægt er að greiða fyrir prófin í afgreiðslu eða með millifærslu á reikning skólans (reikningur 514-26-352, kennitala: 590182-0959) áður er prófin eru haldin.
Athygli skal vakin á að nauðsynlegt er að skrá sig á eyðublaðinu til þess að tryggja viðkomandi stöðupróf fari fram. Það er nauðsynlegt að framvísa kvittun fyrir greiðslu og skilríkjum í prófstofu til þess að fá að þreyta prófið.
18.08.2025
Innritun í fjarnám á haustönn 2025 er hafin. Kennslan hefst svo 2.september
Alls eru 101 áfangi í boði á haustönn 2025 og hvetjum við alla til að kynna sér námsframboðið hér.
Hægt er að skrá sig í fjarnámið hér.
18.08.2025
Fyrsta fréttabréf FÁ skólaárið 2025 - 2026 er komið út.
Í hverjum mánuði sendum við út rafrænt fréttabréf. Markmiðið með því er að auka upplýsingaflæði til nemenda og aðstandenda og jafnframt að segja frá starfinu hér í skólanum.
Í þessu fyrsta fréttabréfi skólaársins kynnum við þá þjónustu og nemendaþjónustu sem nemendum stendur til boða ásamt ýmsu öðru nytsamlegu.
Við hvetjum ykkur til að fylgjast með skólanum á netinu til að missa ekki af neinu skemmtilegu. Við erum dugleg að setja fréttir og myndir inn á samfélagsmiðlana sem sýna frá öllu því sem við erum að gera.
11.08.2025
Stundatöflur og fyrsti kennsludagur
Stundatöflur verða aðgengilegar í INNU föstudaginn 15. ágúst. Nota þarf rafræn skilríki til að skrá sig inn. Skráðir aðstandendur nemenda yngri en 18 ára hafa aðgang með rafrænum skilríkjum.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 19. ágúst.
Móttaka nýnema
Nýnemar verða boðnir velkomnir í skólann á nýnemadegi sem er mánudaginn 18. ágúst kl. 10:00 - 14:00
Fundur með eldri nýnemum verður í fyrirlestrasal mánudaginn 15. ágúst kl. 14:00.