16.05.2025
Í FÁ er hægt að velja spennandi áfanga tölvuleikjahönnun, TÖHÖ2LH05 og TÖHÖ2ÚT05) . Í þeim áföngum gera nemendur lokaverkefni og fengu þeir frjálsar hendur til að þróa sína eigin leikjahugmynd og búa til einfalda frummynd út frá þeirri hugmynd.
14.05.2025
Nemendur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla tóku nýverið þátt í raungreinakeppninni "Drughunters" sem haldin var í Kaupmannahöfn. Keppnin er á vegum danska lyfjafyrirtækisins Lundbeck og felst í því að nemendur í framhaldsskólum frá Danmörku, Færeyjum og Íslandi velja sér heilasjúkdóm til að fjalla um. Nemendur læra að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um sjúkdóminn og lesa vísindagreinar. Þeir þróa svo í kjölfarið hugmynd að lyfi eða lækningu. Fyrir íslensku nemendurna er verkefnið þverfaglegt og sameinar raungreinar og dönsku. Nemendurnir hanna veggspjald með niðurstöðum sínum, kynna þær og svara spurningum dómnefndar á dönsku. Íslensku nemendurnir stóðu sig með prýði í keppninni og skemmtu sér konunglega.
13.05.2025
Leikjafyrirtækið CCP Games bauð nemendum í tölvuleikjaáföngum FÁ á EVE Fanfest tölvuleikjaráðstefnuna sem haldin var í Hörpu dagana 1.-3. maí. Á ráðstefnunni kynnti CCP það sem framundan er í EVE Online og öðrum tölvuleikjum fyrirtækisins. Auk þess var gestum boðið upp á fjölbreytt úrval erinda yfir daginn. Nemendur fengu meðal annars að kynnast því hvernig listafólk hannar geimskip fyrir EVE Online, með hvaða hætti hagfræði getur tengst tölvuleikjum og mikilvægi þess að sýna umburðarlyndi í fjölspilunarleikjum á borð við EVE Online.
Nemendur prófuðu nokkra tölvuleiki frá íslenskum leikjafyrirtækjum á staðnum, þar á meðal Gang of Frogs, Pax Dei og EVE Vanguard sem er væntanlegur fyrstu persónu fjölspilunarleikur frá CCP.
Nemendur FÁ þakka CCP kærlega fyrir fróðlega, skemmtilega og eftirminnilega ráðstefnu!