28.05.2025
Fjórir starfsmenn sérnámsbrautar tóku þátt í „job shadowing“ verkefni með tveimur kennurum í Ängelholm á Skáni í Svíþjóð á þessari önn. Þetta voru Dóra, Finnbjörn, Hlynur og Inga Maggý á sérnámsbraut. Frá Ängelholm voru það Louise og Ulrika sem komu í heimsókn til okkar 7.-9.apríl. Þær fylgdust með kennslu í öllum okkar námshópum auk þess sem þær sýndu nemendum okkar myndband sem var kveðja frá nemendum í Ängelholm.
27.05.2025
Þrír kennarar Fjölbrautaskólans við Ármúla ferðuðust til Ítalíu á dögunum í tengslum við Erasmus+ verkefnið We Shape the Future: Integrating AI, AR and VR in Education. Um er að ræða samstarfsverkefni milli þriggja skóla sem staðsettir eru á Íslandi, Grikklandi og Tyrklandi auk aðkomu sérfræðinga frá Ítalíu sem veita leiðsögn og fræðslu. Markmið verkefnisins er að kanna með hvaða hætti sýndarveruleiki, gagnaukinn veruleiki og gervigreind getur nýst í námi og kennslu innan STEM-greina, þ.e.a.s. greina á sviði verkfræði, stærðfræði, raunvísinda og náttúruvísinda.
24.05.2025
Þann 23. maí 2025 útskrifuðust 8 frábærir einstaklingar af sérnámsbraut eftir fjögurra ára nám. Fimm nemendur útskrifuðust kl. 11:00 í lítilli og notalegri útskrift inni á sérnámsbraut með aðstandendum og starfsmönnum. Magnús skólameistari var með ávarp og Dóri kíkti í heimsókn og spilaði nokkur lög á gítar. Inga Maggý afhenti svo nemendum skírteinin sín og svo var boðið upp á léttar veitingar.
Þrír nemendur útskrifuðust svo í hátíðarsal skólans kl. 13:00.
Við óskum öllum útskriftarnemum velfarnaðar og þökkum fyrir árin fjögur.
23.05.2025
Þrjár ungar og efnilegar stúlkur; Ngan Kieu Tran, Dana Zaher og Diana Al Barouki eru á meðal þeirra sem útskrifuðust frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í dag. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa flutt til Íslands árið 2022 , tileinkuðu sér íslenskuna á mettíma og hafa náð ótrúlegum árangri.
Ngan er frá Víetnam og er dúx skólans með meðaleinkunn upp á 9,82. Dana og Diana eru frá Sýrlandi og eru báðar með meðaleinkunn yfir 9. Þær hafa því á þessum skamma tíma ekki einungis tileinkað sér nýtt tungumál heldur einnig staðið sig einstaklega vel í námi og félagslífi.
23.05.2025
Það var bæði létt yfir og hátíðlegt þegar Fjölbrautaskólinn við Ármúla útskrifaði nemendur sína í dag. Fjölskyldur, vinir og starfsfólk komu saman til að fagna með útskriftarnemum sem nú hverfa út í ný framtíðarverkefni.
19.05.2025
Skráning á sumarönn í fjarnámi við FÁ er hafin og stendur til 2. júní.
Kennsla hefst 3. júní.
19.05.2025
Dagana 26. febrúar – 5. mars tók FÁ þátt í Erasmus verkefninu Sustainable Mobility in Europe 2050). Fimm úrvalsnemendur frá skólanum tóku þátt; þau Birna Clara, Dísa María, Heorhii, Ísold og Míkah ásamt kennurunum Ásdísi og Þórhalli. Samstarfsskólarnir frá Sante Tirso í Portúgal, Lannion í Frakklandi og Emden í Þýskalandi sendu viðlíka fulltrúa.
16.05.2025
Í FÁ er hægt að velja spennandi áfanga tölvuleikjahönnun, TÖHÖ2LH05 og TÖHÖ2ÚT05) . Í þeim áföngum gera nemendur lokaverkefni og fengu þeir frjálsar hendur til að þróa sína eigin leikjahugmynd og búa til einfalda frummynd út frá þeirri hugmynd.
14.05.2025
Nemendur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla tóku nýverið þátt í raungreinakeppninni "Drughunters" sem haldin var í Kaupmannahöfn. Keppnin er á vegum danska lyfjafyrirtækisins Lundbeck og felst í því að nemendur í framhaldsskólum frá Danmörku, Færeyjum og Íslandi velja sér heilasjúkdóm til að fjalla um. Nemendur læra að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um sjúkdóminn og lesa vísindagreinar. Þeir þróa svo í kjölfarið hugmynd að lyfi eða lækningu. Fyrir íslensku nemendurna er verkefnið þverfaglegt og sameinar raungreinar og dönsku. Nemendurnir hanna veggspjald með niðurstöðum sínum, kynna þær og svara spurningum dómnefndar á dönsku. Íslensku nemendurnir stóðu sig með prýði í keppninni og skemmtu sér konunglega.
13.05.2025
Leikjafyrirtækið CCP Games bauð nemendum í tölvuleikjaáföngum FÁ á EVE Fanfest tölvuleikjaráðstefnuna sem haldin var í Hörpu dagana 1.-3. maí. Á ráðstefnunni kynnti CCP það sem framundan er í EVE Online og öðrum tölvuleikjum fyrirtækisins. Auk þess var gestum boðið upp á fjölbreytt úrval erinda yfir daginn. Nemendur fengu meðal annars að kynnast því hvernig listafólk hannar geimskip fyrir EVE Online, með hvaða hætti hagfræði getur tengst tölvuleikjum og mikilvægi þess að sýna umburðarlyndi í fjölspilunarleikjum á borð við EVE Online.
Nemendur prófuðu nokkra tölvuleiki frá íslenskum leikjafyrirtækjum á staðnum, þar á meðal Gang of Frogs, Pax Dei og EVE Vanguard sem er væntanlegur fyrstu persónu fjölspilunarleikur frá CCP.
Nemendur FÁ þakka CCP kærlega fyrir fróðlega, skemmtilega og eftirminnilega ráðstefnu!